Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 22/2012

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 9. janúar 2013 í máli nr. 22/2012

Fasteign: Álaþing 8, Kópavogi, fnr. 230-1747.

Kæruefni: Fasteignamat. Kærufrestur.

 

Ár 2013, miðvikudaginn 9. janúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 22/2012 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dagsettu 24. desember 2012 kærðu Björn Kristján Arnarsson og Halla Sigrún Gylfadóttir fasteignamat húseignar sinnar við Álaþing 8, Kópavogi, fnr. 230-1747.

Samkvæmt þeim gögnum sem kærendur hafa sent nefndin liggur fyrir að Þjóðskrá Íslands rökstuddi niðurstöðu fasteignamats 2013 á hinni kærðu eign með bréfi til kærenda 21. júní 2012. Í niðurlagi þessa bréfs er tekið fram um kæruheimild, kæruleið og kærufrest.

Í 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna segir að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Ekki er kveðið á um kærufrest í lögum nr. 6/2001 um fasteignamat og fasteignaskráningu og fer því um hann eftir 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 3. mgr. 27. gr. segir að þegar aðili fer fram á rökstuðning hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum, sem í þessu tilviki var með bréfi Þjóðskrár 21. júní 2012. Í 28. gr. stjórnsýslulaga er meðal annars kveðið á um að ef kæra berist að liðnum kærufresti skuli vísa frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða að veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi misskilið orð starfsmanns Þjóðskrár Íslands og ekki fengið staðfestingu frá stofnuninni. Einnig vísa kærendur til þess að veigamiklar fjárhagslegar ástæður liggi fyrir vegna þess að fasteignagjöld þeirra muni hækka vegna hækkaðs fasteignamats.

Þriggja mánaða kærufrestur er tilgreindur í rökstuðningi Þjóðskrár Íslands til kærenda í bréfi 21. júní 2012 auk þess sem gerð er grein fyrir kæruheimild og kæruleið. Yfirfasteignamatsnefnd telur undanþáguákvæði 28. gr. ekki eiga við í þessu máli. Sam­kvæmt þessu ber að vísa kærunni frá þar sem hún er of seint fram komin.

Úrskurðarorð

Kærunni er vísað frá þar sem hún er of seint fram komin.

__________________________

Jón Haukur Hauksson

                            __________________________

                                 Ásta Þórarinsdóttir

__________________________

Inga Hersteinsdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn