Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 186/2011

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 186/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að kærandi, A, hafði samband við Vinnumálastofnun í tölvupósti, dags. 20. desember 2011, vegna hugsanlegs réttar síns til desemberuppbótar. Í tölvupósti, dagsettum sama dag, frá Vinnumálastofnun til kæranda kemur fram að kærandi eigi ekki tilkall til desemberuppbótar. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 22. desember 2011. Kærandi krefst þess að honum verði greidd desemberuppbót. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 3. janúar 2011 og fékk greiddar atvinnuleysistryggingar í samræmi við rétt sinn.

 

Vinnumálastofnun og B. gerðu, 30. júní 2011, með sér þríhliða samning um starfsþjálfun kæranda hjá fyrirtækinu og var sá samningur síðast framlengdur til 1. janúar 2012. Samkvæmt samningnum var kærandi í 100% starfshlutfalli og þáði 200.000 kr. í mánaðarlaun. Kærandi þáði af þessari ástæðu ekki atvinnuleysisbætur frá og með 1. júlí 2011 til áramóta. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kallaði eftir launaseðli kæranda fyrir desembermánuð 2011 og er hann meðal gagna málsins. Þar kemur fram að kærandi fékk greidda desemberuppbót frá B. að fjárhæð 29.300 kr.

 

Kærandi staðfesti atvinnuleit sína síðast 24. ágúst 2011.

 

Í kæru, dags. 22. desember 2012, greinir kærandi frá því að hann hafi verið á atvinnuleysisskrá frá 1. janúar 2011 og stimplað sig reglulega inn. Hann hafi hafið störf hjá fyrirtækinu B. 1. júlí 2011 og haldið áfram að stimpla sig inn. Lögum hafi síðan verið breytt þess efnis að hann þurfti ekki lengur að stimpla sig inn. Á hans vefsvæði á heimasíðu Vinnumálastofnunar, mínar síður, hafi svo verið búið að loka fyrir það að hann gæti merkt við í reit sem staðfesti áframhaldandi virka atvinnuleit hans. Af þeirri ástæðu hafi hann ekki getað sótt um desemberuppbót. Kærandi kveðst hvorki hafa fengið bréf né orðsendingu í tölvubréfi um að Vinnumálastofnun hafi ákveðið að haga málunum með þessum hætti.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. apríl 2012, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sé mælt fyrir um markmið laganna. Í ákvæðinu segi að markmið laganna sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leitar að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í 6. mgr. 9. gr. laganna sé kveðið á um að aðilar er fái greiddar atvinnuleysisbætur skuli hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að atvinnuleitanda sé gert að staðfesta mánaðarlega að hann sé virkur í atvinnuleit. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofurnar til að staðfesta atvinnuleit sína.

 

Með lögum nr. 103/2011 hafi lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, verið breytt og málsgrein bætt við 29. gr. laganna. Með þeirri breytingu hafi löggjafinn ákveðið að sá tími sem aðili, þ. á m. kærandi, er þátttakandi í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði teljist ekki til þess tímabils sem aðili eigi rétt til grunnatvinnuleysisbóta. Í kjölfar þessara breytinga hafi þátttakendur í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði ekki þurft að staðfesta atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun frá 2. september 2011 er lögin tóku gildi, þ.m.t. kærandi.

 

Vinnumálastofnun vísar til þess að samkvæmt reglugerð um desemberuppbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, nr. 1064/2011, eigi þeir sem staðfestu atvinnuleit á tímabilinu 20. nóvember til 3. desember 2011 og hafi verið skráðir á atvinnuleysistryggingaskrá á árinu 2011 rétt á desemberuppbót. Með vísan til framangreinds er það mat Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á desemberuppbót á grundvelli reglugerðarinnar.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. apríl 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. apríl 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. 

 

 

2.

Niðurstaða

Kærandi gegndi tímabundnu starfi frá og með 30. júní 2011 til og með ársloka 2011 á grundvelli þríhliða samstarfssamnings Atvinnuleysistryggingasjóðs, kæranda og þess aðila sem hafði hann í tímabundinni vinnu. Þessi samningur var gerður á grundvelli reglna um starfsþjálfun, sbr. 1. mgr. 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 3. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009.

 

Samkvæmt skilmálum samningsins hafði kærandi 100% bótarétt. Hvorki í samningnum né í opinberum lagafyrirmælum er kveðið á um það hvort atvinnuleitendur í þessari stöðu hafi með slíkri starfsþjálfun fyrirgert rétti sínum til desemberuppbóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði.


Lögum um atvinnuleysistryggingar var breytt með lögum nr. 103/2011 og var eftirfarandi málsgrein bætt við 29. gr. laganna:

Sá tími sem Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði telst ekki hluti tímabilsins skv. 1. mgr. í tilvikum er hinn tryggði nýtur launa frá vinnuveitanda sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans meðan á þátttöku hans í vinnumarkaðsúrræði stendur og fær ekki greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 33. gr.“

Í athugasemdum við framangreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 103/2011 er lögð til sú breyting að sá tími er atvinnuleitandi tekur þátt í virku starfstengdu vinnumarkaðsúrræði, hvort heldur um er að ræða reynsluráðningu, starfsþjálfun, frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða átaksverkefni, teljist ekki til þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar enda fái viðkomandi greidd laun á tímabilinu sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans.

 

Samkvæmt framanskráðu var ákveðið að sá tími sem aðili er þátttakandi í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði teljist ekki til þess tímabils sem aðili eigi rétt til grunnatvinnuleysisbóta. Þegar af þessum ástæðum uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að fá greidda desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði í desember 2011. Reglur um með hvaða hætti hann gat skráð sig sem atvinnulausan, hafa sem sagt ekki þýðingu við úrlausn máls þessa.

 

Einnig skal þess getið að samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda desemberuppbót í desember 2011 hjá vinnuveitanda sínum.

 

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


Úr­skurðar­orð

 

Hin kærða ákvörðun í máli A þess efnis að hann eigi ekki rétt á desemberuppbót úr Atvinnuleysistryggingasjóði í desember 2011 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum