Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Starfshópur um birtingu fjárhagsupplýsinga ríkisins vinnur tillögur

Fjármála- og efnahagsráðherra og forsætisráðherra hafa skipað starfshóp um opin gögn og birtingu fjárhagsupplýsinga ríkisins. Hópurinn skilar tillögum til ráðherra fyrir 15. mars.

Stofnað er til hópsins með hliðsjón af hraðri þróun í opinni stjórnsýslu undanfarin ár. Í nágrannalöndum Íslands, sem og hérlendis, hafa væntingar farið vaxandi um að meira verði birt af gögnum sem liggja fyrir hjá hinu opinbera en gert hefur verið fram til þessa.

Gegnsæi, þátttaka almennings og aukið traust eru meðal helstu raka fyrir því að auka aðgang að gögnum. Að auki má nefna hagræðingu í opinberri stjórnsýslu, t.d. með sjálfsafgreiðslu á fyrirspurnum. Nýsköpun og ný þekking getur enn fremur orðið til með auknu aðgengi að gögnum.

Starfshópnum eru falin þau verkefni að tilnefna gagnasöfn sem stefnt er að því að gera opinber, tilgreina mörk, svo sem ákveðnar fjárhæðir sem miðað skuli við, tilgreina hversu oft gögnin verða uppfærð, velja leyfisskilmála sem gögnin verða gefin út undir o.fl. Auk þess verður kannað hver reynsla annarra ríkja er af því að opna gögn.

Áhersla er lögð á það í starfi hópsins að hægt verði að fylgjast með framvindu verkefnisins meðan það er í vinnslu. Í þessu skyni hefur verið opnuð bloggsíða hópsins (http://opingogn.wordpress.com). Þar verður m.a. hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið og lesa fundargerðir starfshóps. Á vefnum verður jafnframt að finna tengingar á áhugaverð verkefni um opin gögn sem unnið hefur verið að í öðrum löndum.

Þá er fyrirhugað að halda opna fundi um verkefnið. Fimmtudaginn 31. janúar næstkomandi verður það kynnt á fundi Open Knowledge Foundation á Íslandi, sem haldinn verður á veitingahúsinu Kex (http://is.okfn.org/). Markmiðið með að kynna verkefnið á opnum fundum er að fólk sem áhuga hefur á opnum gögnum geti fylgst með og haft áhrif á mótun verkefnisins og þróun.

Starfshópurinn er þannig skipaður:

Finnur Pálmi Magnússon, sérfræðingur í upplýsingatækni, formaður án tilnefningar, Björn Sigurðsson, vefstjóri, tilnefndur af forsætisráðherra, Rebekka Rán Samper, verkefnastjóri, tilnefnd af Island.is, Elva Björk Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra, Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri, tilnefnd af innanríkisráðherra, Pétur Jónsson, sérfræðingur, tilnefndur af Fjársýslu ríkisins, Þórlaug Ágústsdóttir, sérfræðingur í upplýsingatækni, tilnefnd af fjármála- og efnahagsráðherra. Starfsmaður hópsins er Helgi Hjálmtýsson, vefstjóri fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Frekari upplýsingar um opin gögn og birtingu fjárhagsupplýsinga.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum