Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2013 Matvælaráðuneytið

Ræða á ársfundi Samorku 22. febrúar

Ræðupunktar Steingríms J. Sigfússon á ársfundi Samorku.


Rammaáætlun

Eitt fyrsta málið sem fór í gegnum þingið á þessu ári var samþykkt þingsályktunartillögu um rammaáætlun. Ég sá það í drögum stjórnar Samorku að ályktun þessa aðalfundar – að þar er lýst vonbrigðum með niðurstöðu Alþingis.  
Ég er þessu algerlega ósammála – ég lít á samþykkt rammaáætlunar sem stórt skref í átt til sáttar um það hvar beri að draga línur á milli verndar og nýtingar náttúruauðlinda okkar.

Það eina sem breyttist í meðförum Alþingis er að ákveðnar virkjunarhugmyndir voru færðar úr nýtingarflokki yfir í biðflokk vegna þess að það var mat okkar að það þyrfti fyllri rannsóknir til að kveða endanlega úr um hvoru megin hryggjar þær skyldu lenda – í nýtingarflokk eða verndarflokk. Það vegast hér á ólík sjónarmið – og ef við viljum ekki slíta í sundur friðinn þá verða nauðsynleg rannsóknargögn að liggja fyrir áður en endanleg ákvörðun er tekin.
Samkvæmt þingsályktunartillögunni á verkefnastjórnin að skila áfangaskýrslu fyrir 1. mars 2014 um stöðu mála hafi hún ekki þá þegar lagt fram endanlegar tillögur sínar sem skulu kynntar á Alþingi .

En það þarf ekki bara að rannsaka þá orkukosti sem falla í biðflokk, áríðandi er að við förum að kynna okkur almennilega þá möguleika sem felast í nýtingu vindorku og sjávarfallaorku hér við land.

Er þess skemmst að minnast að fyrir stuttu voru formlega gangsettar vindmyllur Landsvirkjunar við Búrfell og er það kærkomin viðbót við orkuframboðið hér á landi.

Eignarhald orkufyrirtækja

Nokkur umræða hefur verið hér á landi að undanförnu um eignarhald orkufyrirtækja.

Aðeins eitt framleiðslufyrirtækjanna er í eigu einkaaðila og mikilvægt að ekki verði um frekari breytingu á eignarhaldi að ræða.

Varðandi auðlindirnar sjálfar þá er það alveg skýrt, enda verið settir fyrirvarar um það í lög, að ekki er hægt að framselja orkuauðlindir ríkis og sveitarfélaga til einkaaðila.

Í orkustefnu Íslands til 2020 sem nefnd var hér að framan er þetta áréttað, og  mikilvægt er að þessu verði ekki breytt enda vilji þjóðarinnar að orkuauðlindir, sem og aðrar auðlindir verði í þjóðareigu.

Olíuleitarmál

Í upphafi árs voru gefin út tvö leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Það sem vakti sérstaka athygli var að norsk stjórnvöld ákváðu að taka þátt í leyfunum, samkvæmt sérstökum samningi milli landanna frá árinu 1981. Það sem er eftirtektarvert er að þetta er í fyrsta sinn sem norska ríkið tekur þátt í olíuleitarleyfi utan norskar lögsögu, sem segir mér að Norðmenn, sem hafa mikla reynslu á þessu sviði, telji að líkurnar á að þarna finnist olía í vinnanlegu magni vera frekar meiri en minni.

Í leyfum fyrirtækjanna er áætlun um þær rannsóknir sem þau áætla að gera. Innan stjórnsýslunnar er nú unnið að því að samræma og yfirfara allt regluverk er lýtur að leit og vinnslu kolvetnis. Rétt er að taka fram að rík samstaða er um að farið verði eftir ýtrustu öryggis- og umhverfiskröfum sem um þessi mál gilda og er í því sambandi horft til þeirra reglna sem Norðmenn hafa sett um olíuleit og vinnslu á sínu landgrunni.

Sæstrengur til Evrópu / Færeyja

Undanfarið hefur mikil vinna verið lögð í að kanna möguleika á að leggja sæstreng á milli Íslands og Evrópu  sem og milli Íslands og Færeyja. Gulrótin er vitanlega sú að tengjast margfalt stærra markaðssvæði – þar sem greitt er mun hærra verð fyrir raforku og þá sérstaklega fyrir raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum. Mögulegir kostir við tenginguna sem hægt væri að telja upp eru m.a. þeir að hærra verð fæst fyrir íslenska raforku, virkjunarkostir nýtast betur og raforkuframleiðendur dreifa áhættunni með tengingu við nýjan og fjölbreyttari markað. En það er að ýmsu að hyggja áður en ráðist er í svo viðamikla framkvæmd sem getur haft umtalsverð áhrif á Íslandi. Spurningar sem vakna eru, hver verða áhrif tengingar á raforkuverð til almennings og iðnaðar á Ísland, hver verða
umhverfisáhrifin, hver eru áhrifin á atvinnumöguleika hér á landi, hversu mikið þarf að virkja og hve mikil áhætta er fólgin í svo stóru verkefni sem gefið er að verði tæknilega flókið að leysa.

Grunnvatn

Þegar kemur að auðlindum Íslendinga er vatn meðal þeirra mikilvægustu og brýnt að skýr lagarammi sé til staðar þegar kemur að nýtingu á þeirri auðlind. Í tengslum við það vil ég greina frá því að á næstu dögum hyggst ég leggja fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á auðlindalögunum frá 1998 (þ.e. lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu) og vatnalögunum frá 1923. Markmið þess frumvarps er að samræma reglur um vatnsréttindi í anda vatnalaga nr. 15/1923. Er frumvarpið lagt fram í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps iðnaðarráðherra um endurskoðun auðlindalaga (s.k. „grunnvatnsnefndar“) frá maí 2012 og í kjölfar breytinga sem gerðar voru á vatnalögunum í lok árs 2011, þar sem gömlu vatnalögin frá 1923 voru uppfærð og treyst enn frekar í sessi og fallið frá gildistöku þeirra vatnalaga sem samþykkt voru á Alþingi árið 2006.

Í áðurnefndri skýrslu grunnvatnsnefndarinnar kom fram að niðurstaða starfshópsins sé sú að rétt sé að færa ákvæði um grunnvatn, þ.e. vatn neðan jarðar, sem verið hafa í auðlindalögunum frá 1998, inn í gömlu vatnalögin og jafnframt að skilgreina nánar hugtakið grunnvatn og þær takmarkanir á eignarráðum landeiganda sem lúta að grunnvatni. Er þessi breyting lögð til með frumvarpinu.

Með þessum hætti er leitast við að tryggja að lagaþróun að því er varðar vatn verði í framtíðinni samræmd hvort sem varðar yfirborðsvatn eða grunnvatn. Sá aðskilnaður sem er í lögum í dag (og var lögfestur árið 1998) á reglum er varðar annars vegar grunnvatn og hins vegar yfirborðsvatn stenst tæplega frá vatnafræðilegu sjónarmiði og í ljósi þeirrar þekkingar sem menn nú hafa á eðli grunnvatns og samspili yfirborðsvatns og grunnvatns er að mínu mati eðlilegt að lagaákvæði um yfirborðsvatn og grunnvatn standi í samræmdu samhengi í einum lögum. Verði frumvarpið að lögum er því verið að treysta enn frekar, og samræma, þann lagaramma sem gildir um nýtingu vatns, hvort sem um er að ræða yfirborðsvatn eða vatn sem er neðan jarðar.

Orkuskipti

Eitt forgangsmálum okkar Íslendinga á sviði orkumála er að auka hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa fyrir farartæki og skipaflotann. Orkuskipti taka langan tíma og t.a.m. tók hitaveituvæðingin nokkra áratugi hér á landi, og stendur raunar enn yfir. Ísland er bundið alþjóðlegum skuldbindingum um að hlutur endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum árið 2020 verði minnst 10%. Verkefnið er því stórt – á næstu sjö árum skal okkur takast að tuttugfalda hlut endurnýjanlegra orkugjafa frá því sem nú er.

Til að koma á orkuskiptum þarf að vera óslitin keðja orkunnar frá framleiðslu í gegnum dreifinguna og til viðtakanda. Rafmagn til samgangna á landi væri augljós kostur fyrir Íslendinga þegar og ef rafbílar verða komnir í almannaeigu. Metanframleiðsla hefur farið vel af stað þó örlað hafi á erfiðleikum við að framleiðslan anni eftirspurn og dreifingin gangi hnökralaus fyrir sig. Notkun lífeldsneytis til samgangna er ólíkt öðrum orkugjöfum ekki bundið því að nýir innviðir verði settir á laggirnar eða að allur samgönguflotinn verði endurnýjaður. Því hafa mörg ríki horft til þess að leggja skyldur á söluaðila að bjóða lífeldsneyti til að flýta fyrir þróuninni í orkuskiptum og til að styðja við framleiðendur nýrra orkugjafa.  Nær allar þjóðir Evrópusambandsins auk Noregs hafa innleitt kvaðir í þessa veru til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa.  

Fyrir Alþingi liggur nú stjórnarfrumvarp um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi.  Það felur í sér þau nýmæli að lögð er sú skylda á söluaðila eldsneytis að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með árinu 2015.  Ári síðar hækkar þessi hlutur í 5%.

Raflínur í jörðu

Um nokkurra ára skeið hefur staðið styr um línulagnir og krafan aukist um að línur verði grafnar í jörð. Viðhorf breytast með tímanum, ósnortin náttúra verður verðmætari og umburðarlyndi gagnvart línulögnum fer þverrandi þó þær tilheyri mikilvægu grunnkerfi landsmanna.

Nú nýverið skilaði nefnd um lagningu raflína í jörð niðurstöðum sínum til ráðherra.  Nefndin náði ekki sameiginlegri niðurstöðu um heildstæða stefnu um lagningu raflína í jörð. Hins vegar var vörðuð leið að áframhaldandi vinnu með sameiginlegum grunntillögum varðandi aukið samráð við þróun kerfisáætlunar og undirbúning einstaka framkvæmda. Til viðbótar voru sett fram almenn grunnviðmið um hvenær skuli framkvæmt umhverfismat fyrir bæði línur og strengi. Jafnframt var áhersla lögð á rannsóknir, bæði umhverfisrannsóknir og hagfræði- og kostnaðargreiningar. Að mínu mati hefur farið fram mikilvægt samtal fylkinga andstæðra sjónarmiða í þessu máli sem í fyrsta sinn sammælast um grunntillögur. Tillögur sem munu nýtast við frekari stefnumótun og varða leiðina til aukinna sátta í þjóðfélaginu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira