Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 4/2013.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

 

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 1. mars 2013

í máli nr. 4/2013:

Bílaumboðið Askja ehf.

gegn

Reykjavíkurborg

 

Með kæru, dags. 4. febrúar 2013, kærði Bílaumboðið Askja ehf. ákvörðun Reykjavíkurborgar um að velja tilboð Heklu ehf. í útboði nr. 12929 „Bifreiðaútboð, flokkabifreiðar að 3,5 t. og að 7,5 t., pallbifreiðar og smærri sendibifreiðar“. Kröfur kæranda eru orðaðar með eftirfarandi hætti:

„1. Að samningsgerð kærða við Heklu ehf. í EES útboði nr. 12929 Bifreiðaútboð, verði stöðvuð þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir í máli þessu sbr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

2. Að kærunefnd ógildi með úrskurði þá ákvörðun kærða, að ganga að tilboði Heklu ehf. í hluta 1 „Fjórtán minni flokkabílar“ í EES útboði nr. 12929 Bifreiðaútboð, og leggi fyrir kærða að bjóða út innkaupin að nýju, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

3. Að kærða verði gert skylt að greiða kæranda þann kostnað sem kærandi hefur þurft að bera vegna kæru þessarar.“

 

Kærða var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2013, krafðist kærði þess að öllum kröfum kæranda yrði hafnað og að kærandi yrði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar fyrir stöðvunarhluta málsins.  

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva hið kærða útboð.Endanlega verður leyst úr öðrum kröfum kærunnar síðar. 

I.

Í október 2012 auglýsti kærði útboð nr. 12929 „Bifreiðaútboð, flokkabifreiðar að 3,5 t. og að 7,5 t., pallbifreiðar og smærri sendibifreiðar“. Með útboðinu var óskað eftir tilboðum í fjórtán flokkabifreiðar að 3,5 tonnum að heildarþyngd, fimm flokkabifreiðum að 7,5 tonnum að heildarþyngd, fjórar pallbifreiðar og fjórar smærri sendibifreiðar, sem allar hafa tvíeldsneytisvél sem gengur fyrir metan og bensíni. Heimilt var að bjóða breyttar bifreiðar, þar sem búið væri að breyta bensínvél í metan/bensín tvíeldsneytisvél. Útboðið skiptist í fjóra hluta og Hlutur 1 stefndi að innkaupum á fjórtán flokkabifreiðum að 3,5 tonnum að heildarþyngd.

Kærandi var meðal bjóðenda í útboðinu. Tilboð voru opnuð hinn 28. nóvember 2012 og átti Hekla ehf. lægsta tilboð í hluta 1, að fjárhæð kr. 66.500.000 sem var 55,88% af kostnaðaráætlun.  

Hinn 25. janúar 2013 tilkynnti kærði að hann hefði valið tilboð Heklu ehf. í Hluta 1 í hinu kærða útboði.                        

II.

Kærandi segir að tilboð Heklu ehf. í Hluta 1 í útboðinu beri ekki með sér að boðnar bifreiðar fullnægi tækniforskrift og því sé tilboðið ógilt. Kærandi segir að í tilboðinu séu boðnar bifreiðar sem sé að upplagi með bensínvél. Tilboðinu hafi ekki fyglt upplýsingar um þær breytingar sem ráðast verði í á eldsneytiskerfi bifreiðanna svo þær fullnægi helstu tækniforskrift útboðslýsingar um tvíeldsneytisvél.

            Kærandi telur að tilboð Heklu ehf. hafi verið 55,88% af kostnaðaráætlun og þannig langlægst og óeðlilega lágt í skilningi 73. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup.

 III.

Kærði segir að fylgigögn með tilboði Heklu ehf. hafi borið með sér að boðnar bifreiðar uppfylltu gerðar kröfur samkvæmt tækniforskrift útboðslýsingar.

            Kærði telur að tilboð Heklu ehf. hafi ekki virst óeðlilega lágt með hliðsjón af vöru enda hafi vörunni ítarlega verið lýst í þeim gögnum sem fylgdu tilboði félagsins. Þá hafi kostnaðaráætlun kærða verið mörgum breytilegum þáttum háð. Bendir kærði þar einkum á að vörugjöld lækka af bifreiðum með metan sem aðalorkugjafa. 

IV.

Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboð Heklu ehf. í Hluta 1 í hinu kærða útboði. Af þeirri könnun verður ekki annað séð en að boðnar bifreiðar fyrirtækisins samræmist tæknilegum kröfum og skilyrðum útboðslýsingar. Þá telur nefndin að vegna eðli vörunnar sé varhugavert að fullyrða að tilboð Heklu ehf. sé óeðlilega lágt í skilningi 73. gr. laga nr. 84/2007.  Af þeirri ástæðu telur kærunefnd útboðsmála ekki verulegar líkur á því að brotið hafi verið gegn lögum um opinber innkaup og því sé ekki rétt að stöðva samningsgerð, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007.

 

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Bílaumboðsins Öskju ehf., um að samningsgerð kærða, Reykjavíkurborgar, við Heklu ehf. í Hluta 1 í útboði nr. 12929, verði stöðvuð þar til niðurstaða kærunefndar liggur fyrir í málinu, er hafnað.

 

 

Reykjavík, 1. mars 2013.

Páll Sigurðsson

Stanley Pálsson

 

 

Rétt endurrit staðfestir,

Reykjavík,                mars 2013.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn