Hoppa yfir valmynd
15. apríl 2013 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menntaskólinn að Laugarvatni 60 ára

Afmæli skólans fagnað með góðum gestum.

Menntaskólinn á Laugarvatni 60 ára
Menntaskólinn á Laugarvatni 60 ára

Menntaskólinn að Laugarvatni fagnaði 60 ára afmæli sínu föstudaginn 12. apríl sl. Skólinn er elstur þeirra menntaskóla sem ekki eru í þéttbýli. Afmælisfagnaðurinn stóð frá morgni til kvölds og áttu nemendur stóran þátt í undirbúningi og framkvæmd hans. Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sendi skólanum heillaóskir í tilefni dagsins.

Greint er frá afmælishátíðinni á vef skólans og þar segir m.a.: „Frú Vigdís Finnbogadóttir renndi í hlað um hádegisbil, ásamt Árna Bergmann, en hann var fyrstur til að útskrifast frá skólanum. Þau voru nokkurs konar heiðursgestir á afmælishátíðinni og fluttu bæði skemmtileg ávörp. Frú Vigdísi var boðið til hátíðarinnar að tillögu nemenda, en að öðru leyti var öllum gömlum nemendum, starfsmönnum og velunnurum boðið með það að auglýsa í sunnlenskum blöðum, og á nútíma samskiptamiðlum.

Auk ávarpa skólameistara, heiðursgestanna tveggja og formanns skólanefndar, Gunnars Þorgeirssonar, fluttu Magdalena Katrín Sveinsdóttir úr þriðja bekk og Teitur Sævarsson úr fyrsta bekk lag, skólasöngurinn var sunginn og veitt voru verðlaun í myndbandasamkeppni sem efnt hafði verið til. Framlagið sem sigraði var kynningarmyndband fyrir skólann, sem þeir Þorgeir Sigurðsson og Guðmundur Snæbjörnsson, báðir úr fjórða bekk, stóðu að. Þeir félagar hlutu einnig önnur verðlaun, en þriðju verðlaun hlutu þær Jóna Ástudóttir, Svanhvít Helga Jóhannsdóttir og Kristín Eva Einarsdóttir allar úr þriðja bekk. Sigurmyndbandið var síðan sýnt við mikinn fögnuð. Formlegri dagskrá lauk með því að Árni Bergmann skar væna sneið af risastórri afmælistertunni fyrir Frú Vigdísi. Það var Aðalbjörg Bragadóttir, kennari við skólann, sem stýrði athöfninni“.

 Menntaskólinn á Laugarvatni 60 ára

Frú vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands, Árni Bergmann fv. ritstjóri og Halldór Páll Halldórsson skólameistari.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum