Hoppa yfir valmynd
16. apríl 2013 Dómsmálaráðuneytið

Drög að frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum til umsagnar

Drög að frumvarpi til breytinga á almennum hegningarlögum (mismunun á grundvelli kynvitundar og viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot) eru nú til umsagnar á vef innanríkisráðuneytisins. Unnt er að gera athugasemdir við frumvarpið til 24. maí næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected].

Frumvarpið er liður í þeirri endurskoðun sem átt sér stað varðandi réttarstöðu einstaklinga með kynáttunarvanda (transgender). Í tengslum við það eru jafnframt lagðar til breytingar vegna fyrirhugaðrar fullgildingar Íslands á viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins um tölvubrot. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum 180. og 233. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Markmiðið með þessu frumvarpi er annars vegar að veita einstaklingum með kynáttunar­vanda refsivernd til samræmis við aðra hópa sem eru taldir þurfa á sérstakri vernd að halda og hins vegar að koma til móts við alþjóðlegar skuldbindingar á grundvelli viðbótarbókunar við samning Evrópuráðsins um tölvubrot.

Annars vegar er lagt til að refsivert verði að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnu­rekstri og þjónustustarfsemi auk þess sem kynvitund er bætt við upptalningu í 233. gr. a. sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru upp taldir.

Hins vegar er lagt til að breytingar verði gerðar á 233. gr. a. Gildissvið ákvæðisins verði meðal annars rýmkað þannig að til refsiábyrgðar stofnist breiði menn með nánar tilteknum hætti út ummæli eða annars konar tjáningu, svo sem myndir eða tákn, gagnvart manni eða hópi manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum