Hoppa yfir valmynd
23. maí 2013 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Á fimmtánda þúsund aðilar hafa fengið Íslykil

Innleiðing Íslykils til innskráningar á vefi stofnana, sveitarfélaga, félagasamtaka og fyrirtækja hefur gengið vonum framar. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti Íslykilinn þann 12. apríl og síðan hefur hefur eftirspurn og notkun farið stigvaxandi. Í dag þegar Íslykillinn er rúmlega mánaðargamall hafa á fimmtánda þúsund einstaklingar og á annað hundrað lögaðilar eignast Íslykil.

Islykill--Ikon

Þjónustuaðilar hafa tekið Íslyklinum opnum örmum og fer þeim ört fjölgandi. Rúmlega tuttugu stofnanir, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki sem nýta sér innskráningarþjónustu Ísland.is hafa nú þegar innleitt Íslykilinn og fjöldi er á lokastigi innleiðingar. Innan skamms bætast flestir framhaldsskólar landsins í hópinn.

Þjóðskrá Íslands á og rekur innskráningarþjónustu Ísland.is. Þar er boðið upp á Íslykil og rafræn skilríki á snjallkorti. Ennþá er líka boðið upp á veflykil ríkisskattstjóra en því verður hætt á næstu mánuðum. Þjóðskrá Íslands gefur einnig út vegabréf og nafnskírteini. Íslykillinn er rökrétt framhald af þeirri útgáfu og má líta á hann sem eins konar nafnskírteini á netinu.

Endurgjaldslaus þjónusta

,,Greiður aðgangur að traustri auðkenningu og innskráningarþjónustu er mikilvægur hluti grunninnviða upplýsingasamfélagsins,” segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. ,,Þjóðskrá Íslands á og rekur innskráningarþjónustuna fyrir hönd ríkisins og stendur hún bæði opinberum aðilum og einkaaðilum til boða endurgjaldslaust.”

Öllum sem vilja bjóða upp á einstaklingsmiðaða þjónustu stendur til boða að nýta sér innskráningarþjónustuna. Hægt er að velja um Íslykil einan og sér sem kennitölu og lykilorð, Íslykil ásamt númeri sem sent er sem smáskilaboð í farsíma eða rafræn skilríki. Þjónustuaðilar ákveða sjálfir hve sterka innskráningarleið þarf til að veita aðgang að eigin gögnum.

Íslykli er ætlað mikilvægt hlutverk við að bæta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Gríðarlegt hagræði felst í að vera með eina miðlæga innskráningu í stað þess fjölda lykilorða sem fólk hefur hingað til þurft að halda til haga. Íslykli er einnig  ætlað að styrkja þróun lýðræðis á Íslandi. Nýlega voru samþykkar á Alþingi breytingar á sveitarstjórnarlögum þess efnis að íbúakosningar á grundvelli sveitarstjórnarlaga geti farið fram með rafrænum hætti og að kjörskráin verði rafræn. Reglugerð um framkvæmd laganna hefur einnig verið gefin út.

Um þrjú þúsund manns skrá sig inn daglega í innskráningarþjónustu Ísland.is. Þorri þeirra skráir sig inn með Íslykli eða veflykli ríkisskattstjóra en innan við 4% nýta rafræn skilríki.

Hægt er að panta Íslykil á vefnum Ísland.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira