Hoppa yfir valmynd
30. október 2013 Matvælaráðuneytið

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ósammála íslenskum lögum um kjötinnflutning til Íslands

Með lögum nr. 143/2009 samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust að  viðhalda banni, samkvæmt lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, á innflutningi  á fersku kjöti til Íslands. Með lögunum var  fyrirkomulagi í innflutningi viðhaldið með það að markmiði að tryggja ýtrasta matvælaöryggi og vernda líf og heilsu manna og dýra, og var þá sérstaklega litið til langvarandi einangrunar búfjárstofna sem gætu verið sérlega næmir fyrir sjúkdómum.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) telur að fyrirkomulag leyfisveitinga, sem birtist í lögunum, vegna innflutnings á fersku kjöti til Íslands, stangist á við tilskipunina um dýraheilbrigðiseftirlit í viðskiptum innan EES og hefur í dag gefið út formlegt áminningarbréf í þá veru.

Samkvæmt lögunum er innflutningur á fersku kjöti til Íslands, unnu eða óunnu, kældu eða frosnu, svo og innflutningur á unnum kjötvörum og öðrum kjötvörum, háður leyfisveitingu. Innflytjendur verða að sækja um leyfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og leggja fram gögn svo sem vottorð um að afurðirnar hafi verið frystar í tiltekinn tíma og  þær séu ekki smitaðar af salmonellu. Það er fyrirkomulagið við þessa leyfisveitingu vegna innflutningsins sem ESA telur að sé ekki í samræmi við EES-samninginn.

Íslensk stjórnvöld hafa ráðið nýsjálenskan sérfræðing til að gera áhættumat vegna innflutnings á dýraafurðum til Íslands. Von er á niðurstöðu hans á næsta ári. Vitað er og viðurkennt að Ísland er laust við marga þá dýrasjúkdóma sem plaga önnur lönd innan EES og íslenskum stjórnvöldum er  umhugað um að standa vörð um þá stöðu.  

Samkvæmt málsmeðferðarreglum ESA verður íslenskum stjórnvöldum gefinn a.m.k. tveggja mánaða frestur til að svara umræddu áminningarbréfi, en fallist ESA ekki á þau rök sem þar verða færð fram getur stofnunin ákveðið að leggja fram svo kallað rökstutt álit. Gangi málið alla leið endar það fyrir EFTA-dómstólnum.  

Rétt er að taka fram að álit ESA fjallar ekki um það magn sem flutt er inn af kjöti til landsins, eingöngu það heilbrigðiseftirlit sem viðhaft er við innflutning á kjöti og öðrum dýraafurðum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum