Hoppa yfir valmynd
30. október 2013 Matvælaráðuneytið

Vegur endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngum fer vaxandi

Um næstu áramót taka gildi lög nr. 40/2013 um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Markmið laganna er að hrinda af stað markvissum aðgerðum til að stuðla að orkuskiptum í samgöngum með aukinni notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Með setningu reglugerðar 870/2013 fyrr í mánuðinum er regluverkið fyrir stærsta skrefið sem stigið hefur verið í orkuskiptum í samgöngum klárt.

Lög nr. 40/2013 fela í sér þau nýmæli að lögð er sú skylda á söluaðila eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með árinu 2014. Ári síðar hækkar þessi hlutur í 5%. Söluaðilum er frjálst að velja hvaða eldsneytistegundir þeir hafa í boði, hvort um er að ræða eldsneyti í hreinu formi (t.d. metan eða lífdísil) eða jarðefnaeldsneyti með ákveðnu hlutfalli af endurnýjanlegu eldsneyti blönduðu saman við (t.d. etanól eða metanól).

Lögin gera kröfu um að allt endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna á landi verði framleitt með sjálfbærum hætti. Inni í því felst að það má ekki koma frá landi sem hefur háa kolefnisbindingu, hér á landi er það t.d. votlendi sem bindur mikið kolefni. Eins er landsvæði með mikinn líffræðilegan fjölbreytileika verndað. Síðan er stigvaxandi krafa um að eldsneytið losi minna magn af gróðurhúsalofttegundum samanborið við jarðefnaeldsneyti.

Tvær reglugerðir eru settar með stoð í lögunum, annars vegar reglugerð nr. 750/2013 um viðmiðanir í sjálfbærri lífeldsneytisframleiðslu og reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna um framleiðslu, innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti og eftirlit með orkuhlutdeild endurnýjanlegs eldsneytis í heildarsölu til samgangna á landi.

Það sem tefur helst fyrir orkuskiptum í samgöngum, er að uppbygging nýrrar orkuframleiðslu, innviða og tækni er kostnaðarfrekt ferli og tekur langan tíma. Notkun lífeldsneytis til samgangna er hins vegar, ólíkt öðrum orkugjöfum, ekki bundið því að nýir innviðir verði settir á laggirnar, eða að samgöngufloti verði allur endurnýjaður. Því hafa mörg ríki horft til þess að leggja skyldur á söluaðila, að bjóða lífeldsneyti til sölu, til að flýta fyrir þróuninni í orkuskiptum og til að styðja við framleiðendur nýrra orkugjafa.

Til þess að mæta kröfunni um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum hafa nær allar þjóðir Evrópusambandsins auk Noregs nú innleitt kvaðir um íblöndun eða lágmarkssölu eldsneytis af endurnýjanlegum uppruna. Lög nr. 40/2013 eru hluti af innleiðingu Evrópulöggafar, nánar tiltekið svokallaðri RES tilskipun nr. 2009/28/EB, um aukinn hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforku, hita og samgöngum. Í tilskipun þessari er fólgin skylda sem öll ríki þurfa að uppfylla um 10% hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2020. Í samgöngum er hlutur endurnýjanlegrar orku minna en 1% í samgöngum á Íslandi samanborið við um a.m.k. 5% víðast hvar í Evrópu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum