Hoppa yfir valmynd
31. október 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Áhersla á húsnæðismál á fundi norrænna fjármálaráðherra

Bjarni Benediktsson á fundi norrænna fjármálaráðherra í Osló
Bjarni Benediktsson á fundi norrænna fjármálaráðherra í Osló.

Norrænu fjármálaráðherrarnir og fulltrúar þeirra hittust á fundi í Ekeborgsrestaurangen í Osló í morgun. Mikil áhersla var lögð á aðstæður á húsnæðismarkaði landanna og lýstu ráðherrarnir áhyggjum sínum af því hversu háu hlutfalli heildartekna sinna norræn heimili verja til húsnæðisútgjalda.

Talsvert var rætt um hvernig mætti koma í veg fyrir bólumyndun á húsnæðismarkaði. Þar skipti máli að stemma stigu við of mikilli skuldsetningu við húsnæðiskaup, en ein leið til þess gæti verið að setja þak á upphæð íbúðalána sem næði til allra lánveitenda.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra lýsti stöðunni á íslenska húsnæðismarkaðnum. Hann sagði frá þeim möguleikum sem ræddir hefðu verið á Íslandi til að koma til móts við skuldsetta íbúðareigendur, bæði hvað varðaði almenna lækkun skulda og með því að beita skattkerfinu til að auðvelda húsnæðiseigendum að greiða inn á höfuðstól lána. 

Auk húsnæðismálanna var rætt um væntingar ráðherranna til  vaxtarmöguleika ríkjanna á sviði efnahagsmála á næstu árum, aðgerðir til að efla stöðugleika á fjármálamarkaði og um atvinnuleysi ungs fólks, en síðastnefnda umræðuefnið hefur verið í brennidepli þetta árið undir formennsku Svíþjóðar í Norðurlandaráði.

 

 


 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum