Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Mál nr. 6/2013

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 1.nóvember 2013 í máli nr. 6/2013.

Fasteignir:  Í Hveragerði.

Kæruefni:  Fasteignamat fyrri ára.

Árið 2013, miðvikudaginn 1. nóvember 2013, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 6/2013 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 27. maí 2013, kærði A, synjun Þjóðskrár Íslands frá 13. mars 2013 á endurskoðun fasteignamats tveggja eigna í Hveragerði. Kærandi gerir kröfu um að yfirfasteignamatsnefnd endurákvarði fasteignamat eignanna fyrir tímabilið 2008 til 2012. Málið var tekið til úrskurðar 25. september 2013.

Sjónarmið kæranda

Kærandi vísar til þess að hann hafi gert athugasemdir við fasteignamat ársins 2010 til hlutaðeigandi stjórnvalda og þeim borið að taka sem kröfu um endurmat á matsvirði frá ólöglærðum einstaklingi, en hvorki byggingarfulltrúi né Þjóðskrá Íslands hafi nokkuð aðhafst. Þó komi skýrlega fram að fasteignirnar hafi ásamt öðrum húsum hans orðið fyrir tjóni í Suðurlandsskjálftanum og ástand húsa sé mjög lélegt. Byggingarfulltrúi hafi sent sér tvö bréf, hið fyrra sumarið 2009 rúmu ári eftir Suðurlandsskjálftann og hið síðara síðla árs 2012. Innihald beggja bréfa sé þess efnis að húsin séu í óforsvaranlegu ástandi og annað hvort skuli rífa þau eða gera við þau. Byggingarfulltrúa hafi því verið fullkunnugt um ástand þeirra. Kærandi lýsir framvindu mála og samskiptum sínum við meðal annars Hveragerðisbæ,  Viðlagatryggingu Íslands og Þjóðskrá Íslands. Kærandi sem eigandi fasteignar eigi kröfu á að mat á fasteignum hans sé í samræmi við lög og að sveitarstjórn, byggingarfulltrúi og Þjóðskrá Íslands sinni skyldum sínum í þeim efnum.

Hagsmunir kæranda sem einstaklings af því að matsverð endurspegli raunverulegt ástand eignarinnar vegi þyngra en hagsmunir sveitarfélagsins við álagningu og innheimtu fasteignagjalda. Kærandi vísar til 19. og 21. gr. laga nr. 6/2001, sem og til V. kafla sömu laga, einkum 30., 31. og 32. greinar. Ennfremur vísar hann til 23., 24. og 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þegar hann krefst mats á fasteignum sínum fyrir árin 2008 til og með 2012 í ljósi tjóns þess sem þær urðu fyrir í jarðskjálftanum 29. maí 2008.

Niðurstaða

Krafa kæranda til yfirfasteignamatsnefndar er um endurskoðun á fasteignamati fasteigna hans í Hveragerði fyrir tímabilið 2008 til 2012.

Í þessu tilviki var krafa kæranda sett fram við Þjóðskrá Íslands í bréfi, dags. 13. febrúar  2013. Þá var skráð fasteignamat eignanna það matsverð sem tók gildi 31. desember 2012, (þ.e. fasteignamat 2013), sbr. 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001. Að mati yfirfasteignamatsnefndar, með vísan til orðalags 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001, er heimild eiganda til þess að krefjast endurskoðunar á fasteignamati bundin við skráð matsverð á þeim tíma þegar kæra er sett fram. Heimildin nær ekki til endurskoðunar á fasteignamati sem fallið er úr gildi þegar krafa kemur fram. Þar sem fasteignamatsverð húseigna kæranda í  Hveragerði fyrir tímabilið frá árinu 2008 til ársins 2012 var ekki lengur skráð matsverð eignanna þegar kærandi setti fram kröfu sína um endurskoðun, er kröfu hans vísað frá.

Úrskurðarorð

Kröfu kæranda um endurmat fasteignamats fasteigna hans í Hveragerði, fyrir tímabilið 2008 til 2012 er vísað frá.

Inga Hersteinsdóttir

                                    Ásgeir Jónsson    Hulda Árnadóttir                                        

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn