Hoppa yfir valmynd
5. nóvember 2013 Matvælaráðuneytið

Atvinnumál, sjávarútvegur og fiskeldi voru rædd í heimsókn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á suðurfirði Vestfjarða

Í Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal
Í Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal
Í heimsókn Sigurðar Inga sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á suðurfirði Vestfjarða fór hann í fyrirtæki á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði í sjávarútvegi og tengdum greinum. Það var jákvætt og framsýnt fólk sem ráðherra hitti að máli, fjölgun starfa hefur fylgt uppbyggingu í fiskeldi og kraftur einkennir andrúmsloftið. Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal er í uppbyggingu og mun á næstunni taka í notkun nýtt hús og tæki. Frá henni hefur sprottið sprotafyrirtækið Hafkalk sem hefur framleitt bætiefni fyrir innanlandsmarkað með góðum árangri og lífrænan fóðurbæti og hyggur fyrirtækið nú á sókn á erlenda markaði.

Ráðherra fundaði með vestfirska fiskeldisklasanum og heimsótti eldisfyrirtæki á Tálknafirði og Patreksfirði. Eldi á laxi og regnbogasilungi er vaxandi á Vestfjörðum almennt en gagnrýnt var að  regluverk sé flókið og óskilvirkt í kringum greinina. Á fundinum kom fram vilji forsvarsmanna fyrirtækja í klasanum til að vinna með stjórnvöldum að úrbótum án þess þó að kröfum gagnvart umhverfi og öðru lífríki sé fórnað. Að mati klasans þarf það að vera forgangsverk að koma á skipulagi á hafsvæði á svæðunum þar sem hverju fyrirtæki eða atvinnustarfsemi er markað svæði til athafna og geti skipulagt sig út frá því. Lýstu fyrirtækin yfir vilja til samtarfs þegar kæmi að rannsóknum þessu tengdu. Fundurinn var hnitmiðaður og uppbyggilegur og komu fram góðar tillögur sem áfram verður unnið með í þeim tveimur ráðuneytum sem Sigurður Ingi stýrir.

Á fundi með sjávarútvegsfyrirtækjum á svæðinu voru einna helst rædd málefni fiskveiðistjórnunar, gjaldtaka, eftirlit og rannsóknir. Auk þess var komið inn á markaðsmál en samkeppni er mikil og mikilvægt að huga að vel að markaðsstarfi og upprunamerkingum. Það kom fram að lækkun á sérstaka veiðigjaldinu á botnfiski í sumar var grundvöllur að áframhaldandi starfsemi fyrirtækjanna en veiðigjald ársins á undan lagðist þungt á þau. Nokkuð var rætt um hafrannsóknir og hvort að einhver kostur væri á að auka samstarf í rannsóknum, sérstaklega þegar kemur að rannsóknum á grunnslóð. Þá kom það fram að kostnaður vegna opinbers eftirlits væri hár og nokkur gagnrýni sett fram á framgöngu í eftirliti og málshraða hjá eftirlitsstofnunum á vegum ráðuneytisins.

Í máli allra þeirra fyrirtækja sem heimsótt voru kom fram ósk um bættar flutningasamgöngur frá svæðinu og þá er sérstaklega kallað eftir sjóflutningum. Flutningskostnaður á Vestfjörðum er hár og leggst við vöruverð og skekkir samskeppnistöðu þeirra afurða sem framleiddar eru á svæðinu. Flutningsjöfnunin sem við líði hefur verið undanfarin ár hefur nýst vel og var kallað eftir áframahaldi á henni.




Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum