Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2013 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Loftslagsfundur í Varsjá – stefnt að hnattrænu samkomulagi 2015

Frá loftslagsþingi SÞ

Lokahluti 19. aðildarríkjaþings Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Varsjá hefst í dag, en þá koma ráðherrar og háttsettir fulltrúar saman til að ganga frá samþykktum þingsins. Aðildarríkjaþingið var sett 11. nóvember sl., en helsta viðfangsefni þess nú er að ýta á samningaviðræður sem eiga að leiða til nýs alþjóðlegs samkomulags árið 2015. Drög að samþykkt þingsins þess efnis voru lögð fram í gær og verður reynt að ganga frá henni og öðrum ályktunum fyrir áætluð þingslit á föstudag, 22. nóvember.

Á síðasta þingi Loftslagssamningsins var gengið frá framlengingu Kýótó-bókunarinnar um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá ríkum löndum. Þar var gengið frá tölulegum skuldbindingum ríkja á árunum 2013-2020, en ríkjum með bindandi skuldbindingar innan Kýótó fækkaði þó frá fyrra tímabili, þar sem sum ríki með skuldbindingar 2008-2012 drógu sig út. Nú eru aðeins Evrópuríki – þar á meðal Ísland – og Ástralía með skuldbindingar innan Kýótó, með samtals um 15% heimslosunar, en stórir losendur eins og Kína, Bandaríkin, Rússland, Indland og Japan eru ekki með alþjóðlega bindandi takmarkanir á sinni losun. Öll ríki hafa hins vegar skuldbundið sig til að vinna að nýju samkomulagi sem nær til allra ríkja, sem taka á gildi 2020. Vonir standa til að loftslagsfundurinn í Varsjá muni samþykkja metnaðarfulla vinnuáætlun fyrir þessar viðræður, þannig að hægt verði að ganga frá nýju hnattrænu samkomulagi 2015, sem gangi í gildi fimm árum síðar.

Loftslagsvísitala: Danmörk best, Ísland í 10. sæti

Danmörk telst loftslagsvænsta ríki heims, annað árið í röð, en Ísland er í 10. sæti, að mati félagasamtakanna Germanwatch og Climate Action Network. Ísland hefur farið upp um fjögur sæti frá fyrra ári og virðist sem samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára sé helsta ástæðan fyrir því.

Samtökin kynntu í gær, 18. nóvember, mat sitt á stöðu loftslagsmála í 58 ríkjum, sem sett er fram í svokallaðri Frammistöðuvísitölu loftslagsmála (Climate Performance Index). Matið er ekki óumdeilt, fremur en aðrar tilraunir til að setja upp einfalda vísitölu fyrir þetta margþætta viðfangsefni, en það er þó þekktasta tilraunin til að meta frammistöðu ríkja í loftslagsmálum. Þeir þættir sem samtökin leggja til grundvallar í matinu eru: Magn losunar gróðurhúsalofttegunda (30%),  þróun losunar (30%), endurnýjanleg orka (10%), orkunýting (10%) og stefnumótun í loftslagsmálum (20%).

Samtökin telja almennt að ríki heims standi sig ekki nægilega vel og hafa þrjú efstu sætin á listanum auð, til að undirstrika það á táknrænan hátt. Tíu loftslagsvænstu ríkin eru að mati samtakanna, í réttri röð: Danmörk, Bretland, Portúgal, Svíþjóð, Sviss, Malta, Frakkland, Ungverjaland, Írland og Ísland. Noregur telst vera í 21. sæti og Finnland í 29. Þau tvö ríki sem losa mest eru neðarlega á listanum, Kína er í 43. sæti og Bandaríkin í 40. sæti. Sádí-Arabía rekur svo lestina af þeim ríkjum sem skoðuð eru.

Minnkun losunar á undanförnum árum og hátt hlutfall endurnýjanlegrar orku er talið Íslandi til tekna, en Ísland kemur verr út varðandi magn losunar á íbúa og orkunýtni. 

Frá loftslagsþingi SÞ

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira