Hoppa yfir valmynd
5. desember 2013 Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016 kynnt á Rannsóknarþingi

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhenti Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Dr. Jóni Gunnari Bernburg prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2013.
Rannsoknathing-006

Rannsóknaþing var haldið fimmtudaginn 5. desember á Grand hótel Reykjavík. Þar var kynnt ný stefna Vísinda- og tækniráðs 2013-2016 og síðan voru umræður um efni hennar með þátttöku helstu hagsmunaaðila og vísindasamfélagsins.

Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra setti rannsóknarþingið og greindi frá starfi Vísinda- og tækniráðs auk þess að ræða forsendur og gerð nýrrar stefnu ráðsins. Að loknu ávarpi ráðherra var nýja stefnan rækilega kynnt og um hana rætt í pallborðsumræðum. Rannsóknaþinginu lauk svo með því að Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Dr. Jóni Gunnari Bernburg prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs fyrir 2013.

Í rökstuðningi dómnefndar, sagði m.a.: Í störfum sínum hefur Jón Gunnar sýnt að hann er afbragðsfræðimaður, kennari og stjórnandi.  Hann er brautryðjandi í sínu fagi, á gott með að vinna með öðrum og hefur haft áhrif á aðra fræðimenn í rannsóknum sínum.  Það er álit dómnefndar hvatningarverðlaunanna að Jón Gunnar Bernburg uppfylli öll viðmið hennar og sé því verðugur handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2013.

Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs eru veitt vísindamanni sem snemma á ferlinum þykir hafa skarað framúr og skapi væntingar um framlag í vísindastarfi er treysti stoðir mannlífs á Íslandi. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1987, í fyrsta sinn á 50 ára afmæli atvinnudeildar Háskóla Íslands. Markmiðið með veitingu Hvatningarverðlaunanna er að hvetja vísindamenn til dáða og vekja athygli almennings á gildi rannsókna og starfi vísindamanna. Verðlaunin eru tvær milljónir króna. Árlega er auglýst eftir tilnefningum til verðlaunanna, sem eru afhent á Rannsóknaþingi Rannís. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira