Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 91/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 91/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafi haft tekjur í maímánuði 2013 samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 9. september 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að vísa beri máli kæranda frá þar sem stofnunin hafi fellt niður hina kærðu ákvörðun 12. september 2013.

 

Kæranda var sent erindi, dags. 7. ágúst 2013, þar sem henni var tilkynnt að samkvæmt samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi virst sem hún hafi haft tekjur í maímánuði 2013, án þess að hafa gert grein fyrir þeim, samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta. Óskað var eftir skýringum á þessu hjá kæranda innan sjö virkra daga frá dagsetningu bréfsins. Samkvæmt gögnum málsins bárust ekki skýringar frá kæranda og var hin kærða ákvörðun tekin 28. ágúst 2013 og send kæranda með bréfi, dags. 29. ágúst 2013.

Bréf með hinni kærðu ákvörðun til kæranda kom endursent til Vinnumálastofnunar og var því hin kærða ákvörðun tilkynnt henni með tölvupósti 3. september 2013.

Kærandi skilaði inn skýringum til Vinnumálastofnunar 4. september 2013 og sendi jafnframt inn launaseðla 5. september 2013 vegna tekna í maímánuði 2013. Í kjölfar þess að kærandi skilaði inn skýringum var mál hennar tekið upp hjá Vinnumálastofnun 9. september 2013 og með bréfi, dags. 12. september 2013, var kæranda tilkynnt að ákvörðun stofnunarinnar frá 28. ágúst 2013 sem var tilkynnt henni með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, og síðar tölvupósti 3. september 2013, hefði verið felld niður.

 

Kæranda var með tölvupósti úrskurðarnefndarinnar, 10. október 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 25. október 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Líkt og fyrr greinir er kæra kæranda dagsett 9. september 2013 en á þeim tíma var mál kæranda í endurupptökuferli hjá Vinnumálastofnun á grundvelli skýringa hennar og gagna eins og fram hefur komið. Vinnumálastofnun felldi niður hina kærðu ákvörðun 12. september 2013.

Í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að stjórnsýslulögum er útskýrt í 26. gr. frumvarpsins hvað átt sé með hugtakinu „aðili máls“ og kemur þar fram að það sem ráði úrslitum í því efni sé það hvort maður teljist hafa lögvarinna hagsmuna að gæta.

Í máli þessu liggur fyrir að Vinnumálastofnun felldi niður ákvörðun sína á meðan mál kæranda vegna þeirrar sömu ákvörðunar var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn málsins. Af þeim sökum verður kærunni vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru A, dags. 9. september 2013, er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

                        Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum