Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 30/2014, úrskurður 9. apríl 2014

Mál nr. 30/2014
Millinafn: Dalberg

Hinn 9. apríl 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 30/2014 en erindið barst nefndinni 18. mars:

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn er tekið fram að ættarnafn sé aðeins heimilt sem millinafn í þeim tilvikum sem upp eru talin í 2. til 5. mgr. ákvæðisins. Hljóða þau ákvæði svo:

„Hver maður, sem ber ættarnafn í þjóðskrá, má breyta því í millinafn, sbr. 15. gr.

Hver maður, sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess, má bera það sem millinafn.

Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.

Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinafn skv. 2. eða 3. mgr.“

Nafnið Dalberg er ættarnafn í skilningi tilvitnaðrar 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Var það tekið upp sem slíkt árið 1921 og birt í Stjórnartíðindum það ár. Fyrir liggur einnig skv. upplýsingum frá Þjóðskrá að nafnið var borið sem ættarnafn við gildistöku laga nr. 45/1996, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga um mannanöfn. Af þeim sökum, sbr. ákvæði 7. gr. laganna, er óheimilt að taka nafnið upp sem almennt millinafn og ber því að hafna fyrirliggjandi umsókn.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að umsækjandi eigi rétt á því að taka nafnið upp sem sérstakt millinafn á grundvelli skilyrða í 2. til 5. mgr. 7. gr. laga um mannanöfn eða skv. 3. mgr. 6. gr. sömu laga, enda óþarft að bera slíka ákvörðun undir mannanafnanefnd nema ágreiningur sé fyrir hendi um nafnréttinn, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 22. gr. laga um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um millinafnið Dalberg er hafnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn