Hoppa yfir valmynd
15. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vorráðstefna Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins 2014

Anna Lilja Gunnarsdóttir
Anna Lilja Gunnarsdóttir

Ávarp flutt af Önnu Lilju Gunnarsdóttur ráðuneytisstjóra
fyrir hönd Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Það er alltaf heilmikill viðburður meðal fagfólks og áhugafólks um verkefni og viðfangsefni Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar þegar kemur að árlegri vorráðstefnu. Þessum ráðstefnum hefur vaxið fiskur um hrygg, enda hafa þær verið haldnar allt frá árinu 1986. Vorráðstefnurnar eru mikilvægur vettvangur fræðslu og skoðanaskipta meðal fólks sem kemur að málefnum barna með þroskaraskanir hér á landi. Það kemur því ekki á óvart sú mikla aðsókn sem er jafnan á þær – síðust ár hafa færri komist að en vilja, en vonandi duga salarkynnin fyrir alla að þessu sinni.

Áður en lengra er haldið ætla ég að færa ykkur kveðju Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún sótti í þessari viku fund á Möltu um málefni hinsegin fólks í Evrópu og kemur ekki heim fyrr en síðdegis í dag. Þess vegna gat hún ekki verið hér – en bað mig fyrir sínar bestu kveðjur til ykkar allra. Hún óskaði þess einnig að ég myndi geta sérstaklega um nýútkomna bók; Litróf einhverfunnar sem hún fékk afhenta út hendi ritstjóranna, þeirra Sigríðar Lóu og Evalds Sæmundsen í liðinni viku. Eins og hún sagði þá er þetta mikilvægt og kærkomið efni – og eins vildi hún láta það koma fram hvað útgáfa bókarinnar sýnir mikinn faglegan metnað starfsfólks Greiningar- og ráðgjafarstöðvarinnar sem á veg og vanda að efni bókarinnar. Bókin er skrifuð með foreldra og ættingja einhverfra í huga, einhverfa fólkið sjálft og þá sem tengjast einhverjum í starfi, nemendum í framhaldsskólum og á neðri stigum háskóla – og auðvitað alla aðra sem áhuga hafa á einhverfu og málefnum einhverfs fólks.

Góðir gestir.

Framundan er glæsileg dagskrá og áhugaverð fyrir lærða og leika – og allt fjallar efnið um þjónustu við börn með alvarlegar þroskaraskanir eða fatlanir, foreldra þeirra og aðstandendur; um áskoranir, ávinning og úrbætur.

Velferðarkerfið stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum - og hefur auðvitað þurft að takast á við þær margar á liðnum árum. Hér á landi ríkir almenn sátt um grundvallargildi velferðarþjónustunnar, það er að segja, að ríkið eigi að tryggja aðgang allra að nauðsynlegri þjónustu, óháð efnahag, búsetu eða öðrum þáttum. Til að svo megi vera þarf fagfólk til starfa og þekkingu, kunnáttu og aðstæður til að veita þjónustuna. Það þarf að ná til þeirra sem þjónustu þurfa með, það þarf að greina hvers konar þjónusta er nauðsynleg – og það þarf að sjá til þess að allir þættir kerfisins vinni saman. Þetta er ekki síst mikilvægt þegar fólk, hvort sem eru börn eða fullorðnir, þarf víðtæka og flókna þjónustu vegna fjölþættra vandamála. Þetta þekkið þið sem hér sitjið eflaust betur en flestir aðrir. Síðast en ekki síst þarf næga fjármuni til að sinna þjónustunni – og þar ríður á að nýta fjármunina sem allra best, þannig að sem stærstur hluti þeirra nýtist með beinum hætti þeim sem allt snýst um, þ.e.a.s. notendum þjónustunnar.

Með þessum orðum er ég farin að nálgast það sem ég ætla að gera að meginumfjöllunarefni mínu hér í dag, en það er fyrirhuguð sameining þeirra þjónustustofnana sem heyra undir velferðarráðuneytið og sinna þjónustu við fötluð börn, fullorðna og fjölskyldur þeirra. Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í september á liðnu ári verkefnisstjórn til að kanna kosti og galla slíkrar sameiningar. Stofnanirnar sem um ræðir eru Greiningar- og ráðgjafarstöðin, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda og Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

Til að gera langa sögu stutta er það niðurstaða verkefnisstjórnarinnar að sameining þessara stofnana í eina geti stuðlað að markvissari og skilvirkari þjónustu við þá sem í hlut eiga - og muni styrkja sérhæfingu og samhæfingu í starfi þeirra fagstétta sem nú starfa hjá þessum aðskildu stofnunum. Jafnframt er lagt til að Tölvumiðstöðin – TMF – verði hluti af sameinaðri stofnun. Verkefnisstjórnin telur að að sameiningin muni fela í sér ótvíræðan fjárhagslegan ávinning til frambúðar, meðal annars vegna minni kostnaðar hjá yfirstjórn og vegna samlegðaráhrifa í stoðþjónustu. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að ávinningur af sameiningunni verði notaður til að efla þjónustu sameinaðrar stofnunar.

Ég vil einnig vekja athygli á því að tillögur verkefnisstjórnarinnar gera ráð fyrir að sú þjónusta sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur sinnt og miðast við börn að 18 ára aldri verði útvíkkuð og nái einnig til þeirra sem eru 18 ára og eldri. Fólk með þroskaraskanir eldra en 18 ára hefur til þessa fengið þjónustu sem fólgin er í ráðgjöf, stuðningi og meðferð hjá ýmsum aðilum, m.a. Reykjalundi, Endurhæfingu efh., Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Sjónarhóli og víðar. Ný sameinuð miðstöð mun styrkja þjónustu við þennan hóp og veita fleirum aðgang að henni.

Það eru eflaust margir hér inni sem þekkja vel tillögur verkefnisstjórnarinnar – og hafa jafnvel átt þátt í að móta þær, enda hefur ráðherra lagt mikla áherslu á að möguleg sameining þessara stofnana væri metin, skoðuð og undirbúin í nánu samráði við stjórnendur stofnananna og starfsfólk þeirra og eins að hagsmunafélög þeirra sem þjónustunnar þurfa með fengju að fylgjast með og koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Áður en lengra er haldið vil ég geta þess að í apríl 2013 kom út skýrsla Ríkisendurskoðunar um aukna samvinnu fyrrnefndra stofnana, auk Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra, Hljóðbókasafns Íslands og Tölvumiðstöðvarinnar. Niðurstaðan var sú að sterkar líkur væru jafnt á faglegum og fjárhagslegum ávinningi með auknu samstarfi þessara stofnana og sameiningu þeirra í einu húsnæði. Þannig mætti hagræða í rekstri, nýta fjárveitingar betur til að efla faglega starfsemi og eins myndi það bæta aðgengi notenda sem hefðu þar með aðgang að heildstæðri þjónustu á einum stað. Störf verkefnisstjórnarinnar hafa tekið mið af skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Eins og ég sagði áðan hefur mikil áhersla verið lögð á samráð og samvinnu í störfum verkefnisstjórnarinnar og eftir því sem ég best veit virðist góður hljómgrunnur fyrir því að byggja upp eina öfluga þjónustustofnun eins og að er stefnt.

Góðir gestir.

Ég hef mikla trú á því að sú sameining sem ég hef fjallað um hér feli í sér margvísleg tækifæri og verði mjög til góðs, jafnt fyrir þá sem þurfa á þjónustu nýrrar stofnunar að halda og fagfólksins sem veitir þjónustuna. Það er töluvert stór hópur fólks sem í dag þarf að leita til tveggja eða jafnvel fleiri stofnana eftir þjónustu. Það segir sig sjálft að fyrir þetta fólk er mikið hagræði fólgið í því að geta fengið þjónustuna á einum stað – og eins ætti að vera auðveldara að samræma þjónustuna þegar svo háttar og sníða hana betur að þörfum hvers og eins. Það er einnig óhætt að ætla að sameinuð og þar með nokkuð stór stofnun eigi betri kosti en litlar stofnanir á því að styðja við faglegt starf og efla það, og stuðla að aukinni nýsköpun, þróunarstarfi og rannsóknum.

Það er alveg ljóst að stofnanir verða ekki sameinaðar með góðum árangri nema stjórnendur og starfsfólk hafi trú á verkefninu og vilja til þess að láta það ganga vel. Fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra vil ég færa þakkir þeim sem að þessu máli hafa komið og sýnt í þeirri vinnu mikinn faglegan metnað og vilja til þess að gera gott starf betra í þágu þeirra sem þurfa á þjónustu að halda.

Með þessum orðum lýk ég máli mínu – en óska ykkur öllum ánægjulegra daga og fróðlegrar og uppbyggilegrar ráðstefnu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum