Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 9/2013

Hinn 3. apríl 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 207/2012

Íslandsbanki hf.

gegn

Drómundi ehf. og Birki Leóssyni

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dags. 2. apríl 2013 óskaði Birkir Leósson persónulega og fyrir hönd Drómundar ehf. eftir endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 207/2012 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 29. nóvember 2012. Með bréfi dags. 18. september 2013 sendi Aðalsteinn Jónasson hrl., fyrir hönd Íslandsbanka hf., skriflega greinargerð um viðhorf gagnaðila til endurupptökubeiðni. Í kjölfarið gerðu báðir málsaðilar nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum, síðast endurupptökubeiðandi með bréfi dags. 16. desember 2013. Gagnaðila voru kynntar þær athugasemdir.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Íslandsbanki hf. höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur endurupptökubeiðendum til viðurkenningar á að tiltekinn vörslureikningur Birkis Leóssonar hjá bankanum væri til tryggingar skuld samkvæmt skuldabréfi útgefnu af honum 8. ágúst 2007. Drómundur ehf., sem hét þá Hverafold ehf., hefði gerst skuldari að því skuldabréfi fyrir skuldskeytingu 15. október 2007. Vörslureikningurinn hefði verið veðsettur í samræmi við handveðsyfirlýsingu, sem Birkir hefði samþykkt sem veðsali 15. október 2007. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem kveðinn var upp 10. febrúar 2012, voru endurupptökubeiðendur sýknaðir. Dómurinn byggði á því að lán Birkis hefðu verið greidd upp með andvirði tveggja lána til Drómundar ehf. Við skuldaraskiptin hafi bankinn gefið lánunum ný númer, 06CU261722 og 06CU261723, og fram hafi komið í skjölum bankans að um skuldaraskipti hafi verið að ræða. Þess var einnig getið að skömmu síðar hefði Drómundur ehf. gefið út handveðsyfirlýsingu með veði í vörslureikningi félagsins til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum við bankann. Byggði héraðsdómur á að samkvæmt framlögðum skjölum bankans lægi því fyrir að lán Birkis, sem Drómundur ehf. gerðist síðan skuldari að með skuldskeytingu, hefði verið greitt upp með öðrum lánum til Drómundar ehf. Bankinn yrði að bera hallann af því að tölvukerfi hans hefði ekki ráðið við það að framkvæma skuldskeytingu lánsins með öðrum hætti. Taldi héraðsdómur þannig að með því hefði fallið niður handveð í vörslureikningi Birkis, sem sett hafði verið til tryggingar skuldinni.

Í dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 29. nóvember 2012 komst rétturinn að öndverðri niðurstöðu. Þess var getið í forsendum dóms Hæstaréttar að af hálfu Íslandsbanka hf. hefði sú skýring verið sett fram að þrátt fyrir að skuldabréf dags. 8. ágúst 2007 væri aðeins eitt hefði lán Birkis fengið tvö númer í tölvukerfi Glitnis banka hf. þar sem um lán í tveimur gjaldmiðlum hefði verið að ræða. Ný lánsnúmer hefðu síðar verið tekin upp í kerfi bankans sökum þess að nýr skuldari kom í stað hins fyrri, en eldri lánsnúmer hefðu svo verið tekin upp aftur þegar ágreiningur varð með aðilum.

Rakið var í dómi Hæstaréttar að breytt aðild að lánssamningnum hefði orðið að frumkvæði Birkis. Fyrir lægi skriflegt erindi hans þar að lútandi. Skjalið, sem útbúið hafi verið af því tilefni með fyrirsögninni „áritun um skuldaraskipti“, hefði verið skýrt og sá tilgangur ótvíræður að Hverafold ehf. kæmi í stað Birkis sem skuldari að þegar veittu láni. Engin ný lán voru veitt Hverafold ehf. 15. október 2007 þegar yfirlýsingin um skuldskeytingu var gerð eða í kjölfar hennar. Taldi Hæstiréttur að hvað sem liði aðferð bankans til að halda utan um kröfur í kerfi sínu, sem birtist meðal annars í nýjum lánsnúmerum við skuldaraskiptin, væru engin efni til að veita því sérstakt vægi við úrlausn ágreinings málsaðila. Að virtri yfirlýsingunni um skuldaraskipti og skýrum tilgangi aðila lánssamningsins gætu kvittanir sem bankinn gaf út 31. október 2007 engu máli skipt, en í þeim kom fram að eldra lán hefði verið greitt upp og númer á nýjum lánum Hverafoldar ehf. væru önnur en eldri lánsnúmer. Sérstaklega var til þess vísað af Hæstarétti að í þeim komi í senn fyrir orð eins og „lánveiting“ og „skuldaraskipti“.

Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að í tölvubréfi Birkis frá 2. október 2007 hefði verið tekið fram án fyrirvara að veð yrði hið sama og áður. Taldi Hæstiréttur ljósrit undirritaðrar handveðsyfirlýsingar 15. október 2007, sem var meðal málsskjala, sýna að sú ráðagerð hefði gengið eftir. Efni hennar hafi verið óumdeilt. Málsaðilar deildu hins vegar um hvort hún hefði fallið niður síðar sökum þess að önnur handveðsyfirlýsing, sem Hverafold ehf. gaf út 26. nóvember 2007, hefði komið í hennar stað eða hún ógilt af öðrum ástæðum.

Varðandi handveðsyfirlýsingu Hverafoldar ehf. gat Hæstiréttur þess að sú yfirlýsing væri til komin vegna beiðni Hverafoldar ehf. um yfirdráttarheimild og hefði handveðið verið til tryggingar endurgreiðslu þess láns. Undir það hefði Birkir ritað fyrirvaralaust af hálfu félagsins. Taldi Hæstiréttur því að gögn málsins veittu því enga stoð að þetta veð hefði að auki átt að koma í stað veðs í vörslureikningi Birkis, eða að sú veðsetning hefði einungis átt að gilda tímabundið. Talið var að endurupptökubeiðendur hefðu sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu og yrðu að bera halla af því að sú sönnun hefði ekki tekist.

Þá hafnaði Hæstiréttur þeirri málsvörn að handveðssetningin frá 15. október 2007 hefði fallið niður af öðrum ástæðum þar sem Birkir hefði, allt frá ágúst 2007, verið sviptur aðgangi að vörslureikningi sínum og ekki haft ráðstöfunarheimild án samþykkis bankans yfir þeim verðbréfum sem þar voru vistuð. Hann hefði ekki gert neinar athugasemdir við veðsetningu verðbréfanna á reikningnum fyrr en í kjölfar bréfs Glitnis banka hf., dags. 5. október 2008 um að bankinn þyrfti frekari tryggingar. Á engu tímamarki hefði bankinn gefið til kynna að umrædd veðtrygging yrði gefin eftir. Því hefðu endurupptökubeiðendur ekki haft réttmæta ástæðu til að skýra samskipti sín við gagnaðila á þann veg að í þeim fælist slík viljayfirlýsing að rétt væri að líta svo á að handveðssetningin væri fallin niður.

Hæstiréttur tók svo afstöðu til þess að samningur um handveðssetningu gæti verið hvort heldur skriflegur eða munnlegur og réttur samkvæmt honum væri ekki bundinn við ákveðið form eða handhöfn frumrits veðskjals. Því væri málsástæða endurupptökubeiðenda haldlaus, þess efnis að réttur gagnaðila væri þar með niður fallinn þar sem hann hefði ekki orðið við því að leggja skjalið fram í frumriti, en upplýst mun hafa verið að frumritið hafi ekki verið gagnaðila á reiðum höndum. Byggði Hæstiréttur á því að óumdeilt hefði verið að handveð hefði verið veitt í öndverðu í verðbréfum á vörslureikningi Birkis og hann sviptur aðgangi að honum í samræmi við áskilnað 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.

Samkvæmt dómsorði Hæstaréttar var fallist á dómkröfu Íslandsbanka hf. og þannig viðurkennt að vörslureikningur endurupptökubeiðanda, Birkis Leóssonar, hjá bankanum væri til tryggingar skuld, upphaflega að fjárhæð 289.631 svissneskur franki og 28.636.884 japönsk jen.

III.      Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðendur telja að öll skilyrði 167. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um endurupptöku séu uppfyllt.

Ástæðu endurupptöku byggja endurupptökubeiðendur á því að dómur Hæstaréttar sé rangur þar sem málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós fyrir Hæstarétti þegar málið var þar til meðferðar. Því til stuðnings hafa endurupptökubeiðendur lagt fram gögn sem þeir telja varpa nýju ljósi á málsástæður og þær forsendur sem Hæstiréttur lagði til grundvallar og sem myndu breyta niðurstöðu dómsmálsins í mikilvægum atriðum. Endurupptökubeiðendur hefðu af því stórfellda hagsmuni enda hefðu gagnaðila verið greiddar 102.493.811 krónur í kjölfar dóms Hæstaréttar. Nefnd fjárhæð hafi verið greidd með fyrirvara.

Beiðni endurupptökubeiðenda fylgdu 84 skjöl merkt J og E-1 til E-83. Endurupptökubeiðendur skilgreindu  hvaða gögn þar var um að ræða sem og hvaða þýðingu þau hefðu fyrir endurupptökumálið.

Endurupptökubeiðendur gera ítarlega grein fyrir aðdraganda dómsmálsins sem dæmt var með dómi Hæstaréttar sem og málflutningi fyrir Hæstarétti. Eru rakin atriði sem endurupptökubeiðendur telja fela í sér blekkingar af hálfu gagnaðila. Virðist endurupptökubeiðendum sem dómarar Hæstaréttar hafi orðið fyrir slíkum hughrifum við málflutning gagnaðila að gögn málsins og raunverulegar sannanir hafi orðið að aukaatriðum. Telja endurupptökubeiðendur margt að athuga við dóm Hæstaréttar og rekja þau atriði ítarlega í tuttugu tölusettum liðum:

1.      Lög nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir

Af hálfu endurupptökubeiðenda er byggt á því að lög nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir feli í sér strangari formkröfur til handveðssamninga en lög nr. 75/1997 um samningsveð og það standist ekki fyrrnefndu lögin að frumrit handveðsyfirlýsingar hafi ekki legið fyrir í málinu. Það fái síðan ekki staðist að ekki hafi verið minnst á fyrrnefndu lögin í dómi Hæstaréttar.

2.      Tímabundið handveð og óundirritað ódagsett minnisblað

Frá því er greint af hálfu endurupptökubeiðenda að ritað hafi verið undir skuldaraskipti á skuldabréfi og nýja handveðsyfirlýsingu 15. október 2007 undir þeim formerkjum að handveðsyfirlýsingin yrði einungis tímabundin en myndi falla úr gildi þegar ný lán með nýjum lánanúmerum hefðu komið í stað eldri lána og ný handveðsyfirlýsing hins nýja skuldara, Drómundar ehf., hefði verið gefin út. Í kjölfarið hafi átt sér stað samskipti milli endurupptökubeiðandans Birkis og starfsmanns gagnaðila þar sem kallað hefði verið eftir annarri hugmynd að útfærslu sem hefði verið rædd að frumkvæði starfsmanns gagnaðila. Í dómi Hæstaréttar sé vitnað ranglega í þessi samskipti á þann máta að látið er í veðri vaka að rædd hafi verið hugmynd endurupptökubeiðandans Birkis og því röngum málatilbúnaði gagnaðila slegið föstum án nokkurrar sönnunar að þessir aðilar hafi rætt málið í síma þegar svo hefði ekki verið. Endurupptökubeiðendur séu ekki í aðstöðu til að sanna að ekki hafi verið hringt til þeirra en Hæstiréttur hafi engar sönnunarkröfur gert til gagnaðila í þessum efnum.

Þótt endurupptökubeiðendur séu ekki í aðstöðu til að sanna hið rétta í þessum efnum telja þeir að leggja mætti til grundvallar að jafnvel þótt þetta símtal hefði átt sér stað breyti það ekki því að engin önnur útfærsla hafi legið fyrir en sú að handveðið væri tímabundið á meðan gengið væri frá handveðssamningi við Drómund ehf. sem koma myndi í stað handveðs í eigum endurupptökubeiðandans Birkis. Það hafi enda gengið eftir 26. nóvember 2007.

3.      Ódagsettu minnisblaði bætt lymskulega og ólöglega við dómskjöl

Endurupptökubeiðendur telja með ólíkindum að Hæstiréttur hafi byggt á óundirrituðu, ódagsettu og óstaðfestu minnisblaði sem sagt var stafa frá starfsmönnum gagnaðila og sagt var að hefði fylgt dómskjali nr. 19 í héraði. Það hefði verið gert án krafna um að gagnaðili gerði grein fyrir því hverjir rituðu blaðið og hvaða forsendur þeir hefðu haft til að rita skjalið. Er því slegið fram af hálfu endurupptökubeiðenda að líklegast sé að skjal þetta hafi verið útbúið af málflytjanda gagnaðila en ekki starfsmönnum hans.

Gerð er grein fyrir orðsendingum frá Fjármálaeftirlitinu, Hæstarétti og lögmanni endurupptökubeiðenda þess efnis að minnisblað þetta hefði ekki legið fyrir hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og hefði ekki verið meðal málsskjala í héraðsdómi. Telja endurupptökubeiðendur að tilgangur þess að bæta þessu skjali við hafi verið að vekja traust Hæstaréttar á að um raunverulegt minnisblað starfsmanna gagnaðila hefði verið að ræða. Í skjalinu, sem hafi verið trúverðugt að ásýnd, hafi komið fram rangfærslur sem ætlað hafi verið að hafa áhrif á niðurstöðu málsins. Tvær þeirra hafi Hæstiréttur tiltekið sem forsendur fyrir dómsniðurstöðu. Annars vegar um að símtal hafi átt sér stað og hvers efnis það símtal hefði verið og hins vegar að endurupptökubeiðandinn Birkir hafi átt þá hugmynd sem fjallað var um í tölvubréfi eins og áður gat.

Með efni þessa minnisblaðs og málflutningi fyrir Hæstarétti hafi gagnaðili afvegaleitt réttinn, jafnvel með refsiverðum hætti, þannig að dómstóllinn hafi byggt niðurstöðu sína meðal annars á þessu gagni. Að mati endurupptökubeiðenda ætti þetta atriði eitt og sér að leiða til endurupptöku máls þessa.

4.      Skipting Drómundar ehf. í maí 2009 – ásakanir um undanskot eigna

Af hálfu endurupptökubeiðenda er gerð athugasemd við framsetningu í dómi Hæstaréttar þar sem reifað var að óumdeilt væri að vegna mistaka starfsmanna gagnaðila hafi veðréttur í eigum endurupptökubeiðandans Drómundar ehf. glatast í tengslum við tilfærslu endurupptökubeiðandans Birkis á fjármunum milli einkahlutafélaga í hans eigu. Þessa umfjöllun telja endurupptökubeiðendur ranga og eru ósáttir við að gefið sé í skyn að eignum hafi verið komið undan veði með blekkingum. Slíku hafi verið haldið fram af hálfu gagnaðila í málflutningi fyrir Hæstarétti og þrátt fyrir andmæli af hálfu endurupptökubeiðenda hafi dómarar látið blekkjast. Við svo búið er rakinn tilgangur með skiptingu Drómundar ehf. í tvö félög en sú skipting hafi ekki leitt til tjóns fyrir gagnaðila enda engar eignir fluttar úr Drómundi ehf. heldur einvörðungu fasteignaveðlán. Viðtökufélagið hafi jafnframt fengið fasteign þá, sem lánið hvíldi á, framselda frá endurupptökubeiðandanum Birki. Tilgangur var að sögn endurupptökubeiðenda sá að bregðast við hótunum gagnaðila um innheimtuaðgerðir.

Að mati endurupptökubeiðenda hafði rangur málflutningur gagnaðila um undanskot eigna, sem leitt hefði til tjóns fyrir gagnaðila, mikil áhrif á viðhorf og niðurstöðu Hæstaréttar. Með vísan til frásagnar og gagna um skiptingu Drómundar ehf. telja endurupptökubeiðendur að málatilbúnaður hafi verið hrakinn og upplýst að gagnaðili hafi haft uppi ósannan áburð á hendur endurupptökubeiðendum.

5.      Fall Drómundar ehf.

Endurupptökubeiðendur gera grein fyrir því að fjárhagur Drómundar ehf. hafi beðið varanlega hnekki haustið 2008 er hlutabréfaeign félagsins annað hvort tapaðist með öllu eða féll mjög í verði. Á sama tíma hafi lán félagsins hækkað mjög mikið vegna gengistryggingar. Þessar ástæður hafi leitt til falls Drómundur ehf., engum eignum hefði verið stungið undan.

6.      Tilgreining til hvaða skuldbindinga tryggingarsamningurinn nær

Endurupptökubeiðendur fjalla um ályktanir Hæstaréttar í tengslum við lánsnúmer í samhengi við yfirlýsingu um skuldaraskipti og draga þá ályktun að Hæstiréttur hefði litið fram hjá texta handveðsyfirlýsingar, frá 15. október 2007, um hvaða lán hún tryggði, og Hæstiréttur telji hana tryggja annað en það sem leiðir af efni hennar. Telja endurupptökubeiðendur dóminn hunsa þann tilgang sem hafi búið að baki tilgreiningum lána í yfirlýsingunni og útgáfudegi hennar og þar með að henni hafi verið ætlað að gilda í skamman tíma. Litið hafi verið fram hjá því að fyrri handveðsyfirlýsing, sem þessi leysti af hólmi, hafi falið í sér allt aðra tilgreiningu skuldar. Eins hafi verið litið fram hjá fyrirsögnum skjala „Greiðsla á láni“ og „Lánveiting“ af þeirri ástæðu að tilgreint hefði verið neðst í þeim „skuldaraskipti“. Litið hafi verið fram hjá öðru efni þessara skjala sem ekki féll að tilgreiningu í handveðsyfirlýsingunni. Að röktum þessum atriðum árétta endurupptökubeiðendur að ekki sé ágreiningur um að lán þessi hefðu fallið undir skuldabréf það sem upphaflega var gefið út 8. ágúst 2007. Ágreiningurinn lúti að því hvaða lán féllu undir handveðsyfirlýsinguna frá 15. október 2007, það er að segja eftir 31. október 2007 þar sem um aðskilda samninga væri að ræða.

Gera endurupptökubeiðendur síðan grein fyrir því viðhorfi að sum skuldabréf og sumir lánasamningar innihaldi safn lána sem hafi mismunandi lánsnúmer. Það gerist á stundum að ný lán komi í stað annarra innan sama lánasamnings. Álykta endurupptökubeiðendur af ofangreindu að við slíkar aðstæður myndi Hæstiréttur ekki heldur líta svo á að um nýjar lántökur væri að ræða til uppgreiðslu eldri lána innan sama skuldabréfs eða lánssamnings.

Vísað er til 2. mgr. 4. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, þar sem kveðið er á um að tilgreina eigi í samningi um fjárhagslega tryggingarráðstöfun til hvaða skuldbindinga og fjárhagslegra trygginga samningurinn nær. Í ljósi afstöðu Hæstaréttar að um eitt lán hafi verið að ræða, skuldaraskiptin hafi lotið að einu láni, þá hljóti handveðsyfirlýsingin á sama hátt að taka til eins láns hvað sem líði texta yfirlýsingarinnar um það til hvaða lána hún taki og skráningar bankans á tveimur eða fjórum lánanúmerum og mismunandi útgáfudögum þeirra. Telja endurupptökubeiðendur að spyrja megi hvort handveðssamningurinn hafi falið í sér fullnægjandi tilgreiningu í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir.

Endurupptökubeiðendur telja að yrði það niðurstaðan að um eitt lán væri að ræða án tillits til skráningar gagnaðila og forvera hans á útgáfudögum lánanna og lánanúmerum þeirra með tilgreiningu í erlendum gjaldmiðlum þá hljóti niðurstaðan að vera sú að það lán væri með ólögmætri gengistryggingu.

Endurupptökubeiðendur byggja á að skjalið sem fól í sér áritun um skuldaraskipti skuldabréfs þess sem gefið var út 7. ágúst 2007 hafi falið í sér skuldaraskipti á skuldabréfi sem hafi innihaldið safn lána í mismunandi myntum sem hefði hvert sitt lánsnúmer. Skuldaraskiptin hafi átt sér stað á skuldabréfinu sjálfu en ekki einstökum lánum sem undir það féllu. Eðlilegt hefði því verið að við skuldaraskiptin væru stofnuð ný lán undir skuldabréfinu á nafni nýja skuldarans með nýjum lánsnúmerum til greiðslu á eldri lánum á nafni fyrri skuldara. Samhliða hefði handveðsyfirlýsingin átt að falla sjálfkrafa úr gildi en að mati endurupptökubeiðenda átti hún að vera tímabundin. Þá hafi staðið til að gera nýja handveðsyfirlýsingu þar sem eignir hins nýja skuldara yrðu settar að handveði nýju lánunum til tryggingar. Slík handveðsyfirlýsing hafi verið útbúin sem tekið hafi til þessa láns sem og yfirdráttarláns sem Drómundi ehf. hafi verið veitt.

Gagnaðili hafi síðan breytt skráningarnúmerum lánanna og útgáfudegi einhliða í kerfum sínum rúmu ári síðar eða 19. desember 2008. Telja endurupptökubeiðendur þá aðgerð grandsemi gagnaðila til sönnunar, að hann hafi verið meðvitaður um að tilgreining lána í handveðsyfirlýsingu væri ekki fullnægjandi.

7.      Deilt var um efni handveðsyfirlýsingar

Endurupptökubeiðendur andmæla þeim forsendum Hæstaréttar að efni handveðsyfirlýsingar frá 15. október 2007 hafi verið óumdeilt þar sem deilt hafi verið um hvort önnur handveðsyfirlýsing hafi komið í hennar stað 26. nóvember 2007 eða hún ógilt af öðrum ástæðum. Frumrit skjalsins var ekki lagt fram og því var ekki hægt að bera það saman við þau afrit sem lögð voru fram. Endurupptökubeiðendur séu þess fullvissir að frumritið hafi verið stimplað ógilt og því hafi gagnaðili ekki viljað leggja það fram og borið því við að hafa glatað því. Þá hafi tilgreining veðsettra réttinda verið ófullnægjandi og umdeild. Á því hafi ekki verið byggt að handveðsyfirlýsingin frá 15. október hafi orðið ógild vegna útgáfu síðari handveðssetningarinnar frá 26. nóvember heldur hafi sú síðarnefnda komið í stað hinnar sem þegar var úr gildi fallin 31. október, auk þess sem henni hefði verið ætlað að taka til yfirdráttarláns.

8.      Handveðsyfirlýsing 26. nóvember 2007 var til tryggingar öllum skuldum

Endurupptökubeiðendur byggja á því að síðari handveðsyfirlýsingunni hafi verið ætlað að taka til allra skulda endurupptökubeiðandans Drómundar ehf. en ekki einvörðungu yfirdráttarláns sem félaginu var veitt í nóvember 2007. Forsenda dóms Hæstaréttar, að yfirlýsingunni hafi verið ætlað svo afmarkað hlutverk, byggi á rangri og ósannaðri fullyrðingu gagnaðila.

9.      Fyrirvarar

Þá gera endurupptökubeiðendur athugasemd við að Hæstiréttur hafi byggt á því að undir síðari handveðssetninguna frá 26. nóvember 2007 hafi verið ritað fyrirvaralaust. Á þeim tíma sem undir yfirlýsinguna var ritað hafi fyrri handveðsyfirlýsing verið fallin úr gildi og því ekkert tilefni til fyrirvara. Að auki hafi endurupptökubeiðandinn Birkir ekki haft ástæðu til að rita fyrirvara í yfirlýsingu sem hann undirritaði fyrir hönd Drómundar ehf. um gildi fyrri handveðsyfirlýsingar sem hann hefði ritað undir persónulega. Engar forsendur væru til slíkra fyrirvara um hans réttindi í handveðssamningi milli Drómundar ehf. og gagnaðila. Nærtækara hefði verið að gagnaðila hefði borið að gera fyrirvara um að eldri handveðsyfirlýsingin væri enn í gildi þrátt fyrir að nýja handveðsyfirlýsingin tæki til sömu skulda. Þá hefði einnig verið nærtækt að ætla gagnaðila að gera fyrirvara í greiðsluskjölum frá 31. október 2007 við að handveðsyfirlýsingin frá 15. október 2007 tæki til lána með ný lánanúmer þrátt fyrir að skjölin hafi borið yfirskriftina „Greiðsla á láni“ og „Lánveiting“. Engir slíkir fyrirvarar hafi komið fram af hálfu gagnaðila, hvorki þá né síðar.

Endurupptökubeiðendur gera einnig athugasemd við að handveðsyfirlýsingin frá 15. október 2007 hafi aldrei verið skráð í kerfum bankans. Það sjáist af orðalagi innheimtubréfs sem og því að skjalið hafi ekki fengið númer í kerfum bankans líkt og aðrar yfirlýsingar í málinu.

10.  Sönnunarbyrði og veðstaða

Þá gera endurupptökubeiðendur athugasemd við þá forsendu Hæstaréttar að þeim sé ætluð sönnunarbyrði þess að síðari handveðsyfirlýsingin hafi átt að koma í stað þeirrar fyrri. Rekja þeir ýmislegt sem þeir telja hníga að því að þessi nálgun eigi ekki við rök að styðjast. Einkum það að gagnaðili hafi verið sá sem stefndi málinu og hefði því samkvæmt meginreglum átt að bera sönnunarbyrði málsins. Að auki felist í skjölum málsins, og nýjum skjölum sem lögð eru fyrir endurupptökunefnd, ýmsar vísbendingar sem hníga að því að fella frekari sönnunarbyrði á gagnaðila heldur en að ætla endurupptökubeiðendum að axla hana.

11.  Sammælst um

Næst víkja endurupptökubeiðendur að vitnisburði starfsmanns gagnaðila fyrir dómi sem þeir telja fela í sér staðfestingu þess að frá öndverðu hafi staðið til að endurupptökubeiðandinn Drómundur ehf. ætti að vera skuldari og eignir félagsins láninu til tryggingar. Gerð er grein fyrir framburði starfsmannsins þess efnis að búið hefði verið að fá samþykki lánanefndar gagnaðila fyrir lánveitingu til endurupptökubeiðandans Birkis persónulega með veði í verðbréfum í hans eigu þegar hann hefði hreyft því að lánið yrði veitt Drómundi ehf. með veði í eignum félagsins. Honum hefði verið greint frá því að afla þyrfti samþykkis lánanefndar að nýju til slíks og því hefði ráðagerðum um skuldaraskipti verið slegið á frest. Telja endurupptökubeiðendur að draga megi af þessum orðum þá ályktun að sammæli hefði verið með málsaðilum í þessum efnum, að eignir Drómundar ehf. ættu að vera láninu til tryggingar.

12.  Aðgangur að vörslureikningi

Endurupptökubeiðendur fjalla um þá forsendu Hæstaréttar að endurupptökubeiðandinn Birkir hafi verið sviptur aðgangi að vörslureikningi sem veðsettur hefði verið. Þessari málsástæðu hafi fyrst verið hreyft af hálfu gagnaðila við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti og verið mótmælt sem of seint fram kominni. Þá leggja endurupptökubeiðendur fram gögn þeim málatilbúnaði til stuðnings að endurupptökubeiðandi Birkir hafi ekki verið sviptur aðgangi að reikningnum. Birki hafi að auki verið með öllu ókunnugt um að hafa verið sviptur þessum aðgangi þar sem það hefði hvorki komið fram í netbanka né hefði nokkru sinni verið gerð athugasemd við kaup hans og sölu á verðbréfum á því tímabili sem um ræddi auk þess sem tekjur af arði verðbréfa hefðu verið greiddar án viðstöðu nánast í öllum tilvikum.

13.  Týnt frumrit handveðsyfirlýsingar

Þá er fjallað um málatilbúnað gagnaðila í tengslum við að frumrit handveðsyfirlýsingar dags. 15. október 2007 væri ekki á reiðum höndum, það hefði mislagst og ekki fundist við leit. Endurupptökubeiðendur byggja á því að skjalið sé hjá gagnaðila en stimplað um ógildi og því hefði gagnaðili kosið að leggja frumritið ekki fram þrátt fyrir áskoranir. Endurupptökubeiðendum sé hulin ráðgáta hví Hæstiréttur hafi fallist á rangar og ótrúverðugar skýringar gagnaðila í þessum efnum.

14.  Skriflegur samningur um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir

Endurupptökubeiðendur fjalla um þá niðurstöðu Hæstaréttar að jafngilt sé hvort samningur um handveðssetningu sé skriflegur eða munnlegur og að réttur samkvæmt honum sé ekki bundinn við ákveðið form eða handhöfn að frumriti veðskjals. Það sem máli skipti sé að veðsali sé sviptur umráðum hins veðsetta í samræmi við ákvæði 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þessa forsendu í dómi Hæstaréttar telja endurupptökubeiðendur vera í andstöðu við 1. mgr. 4. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir sem kveði á um að samninga um fjárhagslega tryggingarráðstöfun skuli gera skriflega til að sanna megi stofnun slíkrar ráðstöfunar með lögformlegum hætti.

15.  Heimildir lánveitanda til að breyta ábyrgðarsamningi ábyrgðarmanni í óhag

Næst er vikið af hálfu endurupptökubeiðenda að þeirri forsendu fyrir niðurstöðu í dómi Hæstaréttar að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn hafi ekki getað haft þýðingu við úrlausn málsins þar sem þau höfðu ekki verið sett þegar málsatvik áttu sér stað. Í þessum efnum töldu endurupptökubeiðendur að nefnd lög hefðu beinlínis verið sett til að bregðast við áhrifum efnahagsáfalla haustsins 2008 þegar veðtryggingar urðu í mörgum tilfellum ónógar til að tryggja eldri skuldbindingar. Endurupptökubeiðendur nefna að vera kunni að Hæstiréttur teldi ákvæði laganna ekki standast Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands í þessum efnum en þess væri í engu getið í dóminum. Þá hefði málsástæða þeirra hvað þetta atriði varðar verið studd við ýmis önnur lög sem Hæstiréttur geti ekki um.

16.  Málsástæður stefndu

Rakið er af hálfu endurupptökubeiðenda að málatilbúnaður þeirra hafi byggt á níu málsástæðum. Af þeim hafi Hæstiréttur ekkert vikið að þremur: Að gagnaðili væri bundinn af niðurstöðu úrskurðarnefndar, handveðsyfirlýsingin hefði ekki veitt gagnaðila nein réttindi að lögum og að gagnaðili hefði verið bundinn af tilkynningum sínum.

17.  Tilgreining til hvaða fjárhagslegra trygginga samningurinn nær

Að mati endurupptökubeiðenda hefði handveðsyfirlýsingin ekki veitt gagnaðila nein réttindi þar sem ófullnægjandi væri að vísa einvörðungu til númers tiltekins vörslureiknings. Tilgreina hefði þurft hvaða verðbréf væru sett að handveði. Um slík veð þurfi þar að auki að tilkynna til verðbréfamiðstöðvar samkvæmt 16. gr. laga nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa. Ekkert lægi fyrir um að gagnaðili eða forveri hans hefði fengið réttindi sín til tiltekinna rafverðbréfa skráð. Til samanburðar var lagt fram afrit af handveðsyfirlýsingu frá Landsbankanum þar sem vörslureikningur og fjármálagerningar voru tilgreindir. Töldu endurupptökubeiðendur nefnt skjal Landsbankans fullnægja áskilnaði 2. mgr. 4. gr. laga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Þessi lagaskilyrði hafi handveðsyfirlýsingin frá 15. október 2007 ekki uppfyllt og því ekki veitt gagnaðila nein réttindi.

18.  Óáreiðanleiki skráninga áfrýjanda á réttindum samkvæmt samningum

Endurupptökubeiðendur byggja á því að skráning gagnaðila á réttindum hans samkvæmt veðsamningum hafi verið svo óáreiðanleg að hún veitti gagnaðila ekki þau réttindi sem hann áskildi sér. Lögðu endurupptökubeiðendur fram útskriftir úr netbanka vegna tveggja vörslureikninga endurupptökubeiðenda hjá gagnaðila máli sínu til stuðnings. Að röktu efni þeirra skjala er á því byggt af hálfu endurupptökubeiðenda að þau segi í raun ekkert til um hvaða hreyfingar hafi verið gerðar á hvorum vörslureikningi fyrir sig á þeim árum sem yfirlitin tóku til. Það hvað gagnaðili héldi fram að hefði verið skráð í kerfum hans geti því ekki talist fullnægjandi sönnun fyrir veðréttindum.

19.  Yfirlit yfir áhvílandi lánsveð

Endurupptökubeiðandinn Birkir lagði fram skjal frá gagnaðila, sem honum barst í mars 2013, og fól í sér yfirlit yfir áhvílandi lánsveð í lok árs 2012. Honum hafi aldrei fyrr borist slíkt yfirlit sem þó hefðu staðið rök til ef eignir hans hefðu verið veðsettar í þágu annarra aðila á árunum 2007 til 2011.

20.  Hljóðritun símtala

Rakið er að á heimasíðu gagnaðila sé fjallað um hljóðritun símtala, að þau kunni að vera hljóðrituð án sérstakrar tilkynningar. Gagnaðili hafi þrátt fyrir þetta byggt á því að hljóðrit liggi ekki fyrir af samtölum milli aðila en byggi þó á efni símtala. Að mati endurupptökubeiðenda hefði þetta atriði átt frekar að leiða til þess að málatilbúnaður þeirra væri lagður til grundvallar heldur en gagnaðila andstætt því sem Hæstiréttur hafi gert.

Niðurstaða og samantekt

Að lokum draga endurupptökubeiðendur málatilbúnað sinn saman í kafla sem ber ofangreinda fyrirsögn með þeim orðum að ný gögn hafi verið lögð fram og nýjar upplýsingar sem sýni það og sanni að þeirra mati að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós fyrir Hæstarétti. Þannig séu sterkar líkur á því að þær leiði til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum. Í því ljósi er beiðst endurupptöku dóms Hæstaréttar í máli nr. 207/2012.

IV.      Viðhorf gagnaðila

Með bréfi, dags. 18. september 2013, var sjónarmiðum gagnaðila komið á framfæri. Fyrir hönd gagnaðila er lagst gegn endurupptöku.

Af hálfu gagnaðila er rakin saga endurupptökuheimilda að lögum og gerð grein fyrir lögskýringargögnum og því haldið fram að í þeim efnum hefðu heimildir haldist að mestu óbreyttar og framkvæmdin verið sú að endurupptaka væri einungis heimiluð í algerum undantekningartilvikum.

Gagnaðili byggir afstöðu sína í fyrsta lagi á því að málsatvik hafi verið réttilega í ljós leidd. Ágreiningur málsaðila hafi fengið ítarlega umfjöllun fyrst hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, þá fyrir héraðsdómi og svo að síðustu fyrir Hæstarétti. Málsaðilar hafi haft óskorað tækifæri á öllum stigum til að koma gögnum og sjónarmiðum á framfæri sem þeir hafi talið þörf á. Það að ætla að rökstyðja betur áður fram komnar málsástæður og tefla fram nýjum sé í ósamræmi við meginreglur réttarfars, bæði vegna þess að málsástæðum beri að tefla fram svo skjótt sem verða má, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála, og vegna reglunnar um bindandi réttaráhrif dóma, sbr. 116. gr. laganna. Jafnvel þótt endurupptökubeiðendur hefðu ekki lagt öll gögn fram eða teflt fram öllum málsástæðum sem gætu verið málstað þeirra til stuðnings varði það ekki endurupptöku dómsmálsins enda hefði ekkert staðið í vegi fyrir því að þeir gerðu það undir rekstri málsins. Væri ekki við aðra en endurupptökubeiðendur að sakast í þeim efnum öndvert áskilnaði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laganna.

Þá gerir gagnaðili athugasemd við að endurupptökubeiðendur ætli endurupptökunefnd að endurskoða sönnunarfærslu, mat Hæstaréttar á sönnunarbyrði og sönnunarmat réttarins. Endurupptökubeiðendur hafi haft óskorað tækifæri til að færa sönnur á málstað sinn fyrir dómi en það yrði ekki gert að nýju fyrir endurupptökunefnd. Slíkt samrýmdist ekki lögbundnu hlutverki nefndarinnar.

Þau gögn sem endurupptökubeiðendur hafi lagt fram fyrir endurupptökunefnd séu ekki þess eðlis að þau geti leitt til breyttrar niðurstöðu. Gögnin lúti að kröfum og málsástæðum sem komið hafi fram fyrir dóminum og ekkert hafi staðið í vegi þess að endurupptökubeiðendur hefðu lagt gögnin fram þar. Þá varði þau ekki beint þau atriði sem niðurstaða Hæstaréttar byggðist á. Gögnin geti þannig ekki leitt til breyttrar niðurstöðu því þau lúti ekki að mikilvægum atriðum málsins.

Við svo búið víkur gagnaðili að umfjöllun endurupptökubeiðenda um einstök gögn sem þeir höfðu lagt fram.

Því er andmælt að gögnum hafi með ólögmætum hætti verið laumað inn í ágrip hæstaréttarmálsins. Lögmaður gagnaðila hafi staðið í þeirri trú að minnisblað það sem ásökun þessi lýtur að hefði legið fyrir bæði hjá úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki og héraðsdómi. Í annan stað feli þetta skjal ekki í sér neinar upplýsingar sem máli skipti umfram þær sem komi fram í öðru málsgagni auk þess sem engar nýjar málsástæður voru byggðar á því af hálfu gagnaðila fyrir Hæstarétti. Málsástæður gagnaðila hafi verið óbreyttar í þessum efnum bæði fyrir fyrrnefndri úrskurðarnefnd sem og héraðsdómi. Endurupptökubeiðendur hafi að auki haft öll tækifæri til að mótmæla framlagningu skjalsins, hvort sem var í greinargerð til Hæstaréttar eða við málflutning en það hafi ekki verið gert. Þá hafi þær upplýsingar sem Hæstiréttur víkur að, sem fram koma í nefndu gagni, einnig komið fram í öðru minnisblaði sem óumdeilt er að hafi legið fyrir í málinu alveg frá öndverðu.

Hvað önnur skjöl snertir, sem endurupptökubeiðendur létu endurupptökunefnd í té, gerir gagnaðili þá athugasemd að ekki væri séð að þessi gögn hafi nokkra þýðingu fyrir úrlausn málsins auk þess sem endurupptökubeiðendum var í lófa lagið að leggja þau fram fyrir dómi þegar málið var þar til úrlausnar en gerðu það ekki.

Loks telur gagnaðili engin önnur atvik styðja það að taka eigi málið upp á ný né að um stórfellda hagsmuni endurupptökubeiðenda sé að ræða. Í því samhengi rakti gagnaðili að þó að lán endurupptökubeiðenda hefði hækkað þar sem það var í erlendum myntum þá sé ekki síður til þess að líta að þau verðmæti sem veðsett voru hækkuðu líka mjög mikið, enda um erlendar eignir að ræða. Jákvæður mismunur endurupptökubeiðandanum Birki í hag hefði farið úr 60 milljónum króna í öndverðu í 160 milljónir króna þegar lánið var gert upp. Endurupptökubeiðendur hefðu því alls ekki borið skarðan hlut frá borði.

V.        Frekari athugasemdir aðila

Að fram komnum viðhorfum gagnaðila bárust endurupptökunefnd frekari athugasemdir af hálfu endurupptökubeiðenda. Árétta þeir þar fyrri sjónarmið til stuðnings endurupptöku.

Endurupptökubeiðendur fjalla þar meðal annars sérstaklega um viðbrögð gagnaðila er lúta að því skjali sem bætt var við af hálfu gagnaðila sem hluta dómskjals sem legið hafði fyrir í héraði án þess að sú hefði verið raunin. Telja endurupptökubeiðendur það skjal hafa ráðið miklu um sönnunarmat og þar með niðurstöðu Hæstaréttar í málinu. Árétta endurupptökubeiðendur það viðhorf að í því felist brot á mannréttindum þeirra að gagnaðili komist upp með að hafa áhrif á niðurstöðu dómsmáls með slíkri framgöngu en það breyti í þessum efnum engu hvort framlagningin hafi verið af ásetningi eða fyrir mistök.

Báðir málsaðilar áréttuðu sjónarmið sín frekar bréflega, síðast endurupptökubeiðendur með bréfi dags. 16. desember 2013.

VI.      Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 168. gr. laganna segir að skriflegri beiðni um endurupptöku skuli beint til endurupptökunefndar og í henni skuli rökstyðja ítarlega þær ástæður sem þykja standa til endurupptöku og skuli gögn fylgja henni eftir þörfum.

Í 1. mgr. 169. gr. segir að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála um endurupptöku eru eftirfarandi:

a. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,

b. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,

c. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

Endurupptökubeiðendur telja, eins og að framan greinir, að skilyrði 1. mgr. 167. gr. laganna séu uppfyllt. Þeir hafa teflt fram ítarlegum rökstuðningi máli sínu til stuðnings.

Endurupptökubeiðendur telja að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd er lúta að skuldaraskiptum og veðtryggingu láns. Í dómi Hæstaréttar, sem sló veðsetningu verðbréfa á vörslureikningi endurupptökubeiðandans Birkis fastri, er lagt til grundvallar að við skuldaraskipti að láni sem endurupptökubeiðandanum Birki hafði verið veitt, hefðu nefnd verðbréf átt að standa til tryggingar láninu áfram. Vísaði Hæstiréttur í þeim efnum til tölvubréfs endurupptökubeiðandans Birkis sem falið hefði slíka yfirlýsingu í sér án nokkurs fyrirvara. Jafnframt liggur fyrir að Hæstiréttur tók til umfjöllunar málatilbúnað endurupptökubeiðenda er laut að breytingum á lánanúmerum gagnaðila og taldi þær breytingar engu varða um gildi skuldbindingar endurupptökubeiðenda í ljósi efnis skjalsins sem fól í sér áritun um skuldaraskipti. Það skjal væri skýrt og tilgangur þess ótvíræður. Þá hafnaði Hæstiréttur því að um nýja lánveitingu hefði verið að ræða þegar skuldskeyting átti sér stað. Hæstiréttur tók einnig afstöðu til málatilbúnaðar endurupptökubeiðenda er laut að ágöllum á formi og efni handveðsetningar verðbréfa endurupptökubeiðandans Birkis.

Fyrir liggur að gagnaðili lagði fram í Hæstarétti meðal málskjala skjal sem ber með sér að vera minnisblað nafngreindra starfsmanna gagnaðila um samskipti við endurupptökubeiðandann Birki. Skjalið var lagt fram eins og um hluta af dómskjali, sem legið hefði fyrir í héraðsdómi, væri að ræða án þess að sú væri raunin. Þótt Hæstiréttur hafi vikið orðum að þessu skjali er efni þess ekki af því tagi að það gefi tilefni til að ætla að það feli í sér sterkar líkur þess að málsatvik hafi ekki verið réttilega í ljós leidd. Í þeim efnum er einnig til þess að líta að skjal þetta bætir litlu við framburð starfsmanns gagnaðila fyrir dómi og minnisblað þess starfsmanns sem sannarlega lá fyrir í málinu frá öndverðu. Þá ber einnig að hafa til hliðsjónar að skjalið var innbundið meðal málsgagna í ágripi sem afhent var Hæstarétti án athugasemda af hálfu endurupptökubeiðenda, hvorki í greinargerð eða við málflutning. Endurupptökubeiðendur höfðu þannig öll tækifæri til að gera athugasemdir við framlagningu skjalsins fyrir Hæstarétti.

Þá halda endurupptökubeiðendur því fram að Hæstiréttur hafi ranglega byggt á þeirri forsendu að endurupptökubeiðandinn Birkir hafi verið sviptur aðgangi að vörslureikningnum þar sem hin rafrænu verðbréf voru skráð. Fyrir dómi virðist ágreiningur aðila einkum hafa lotið að því hvort það nægði sem tilgreining á veðandlagi að skilgreina fjárvörslureikninginn sem slíkan eða hvort tilgreina þyrfti einnig þau verðbréf sem þar væru varðveitt. Í samræmi við málsforræðisreglu réttarfars í einkamálum er það á valdi hvors málsaðila að búa mál sitt svo til dóms sem þeir kjósa og tefla málsástæðum sínum fram. Endurupptökubeiðendur hafa ekki fært haldbær rök fyrir því að setja nú fram þá málsástæðu að það skilyrði handveðs skorti að veðsali væri sviptur ráðstöfunarrétti yfir hinu veðsetta þannig að áskilnaði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt.

Önnur rök og gögn sem þeim tengjast, sem endurupptökubeiðendur tefla fram til stuðnings endurupptöku, komu fram í málatilbúnaði þeirra fyrir dómi og falla ekki að skilyrðum 1. mgr. 167. gr. Á það við um röksemdir sem felast meðal annars í því að tilgreint sé með ófullnægjandi hætti til hvaða skuldbindinga tryggingarsamningur tæki, að handveðið ætti að vera tímabundið, umfjöllun um efni handveðsyfirlýsinga og umfang handveðssamninga, áhrif laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, að skilyrðum laga nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir hafi ekki verið fullnægt, sem og þrjár málsástæður endurupptökubeiðenda sem Hæstiréttur vék ekki að.

Þá eru önnur sjónarmið sem endurupptökubeiðendur tefla fram fyrir málstað sínum ekki af því tagi að ætla megi að þau séu líkleg til að hrófla á nokkurn hátt við fyrirliggjandi niðurstöðu dómsmáls þessa.

Endurupptökubeiðendur hafa með vísan til framangreinds ekki leitt sterkar líkur að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar eins og áskilið er í  a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þá eru ekki leiddar sterkar líkur að því að gögn þau sem endurupptökubeiðendur leggja fram fyrir endurupptökunefnd muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum eins og áskilið er í b-lið sama ákvæðis.

Ljóst er þannig að hvorki skilyrði a-liðar né b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fullnægt. Þegar af þeim ástæðum skortir á að öllum skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt og eru því ekki forsendur til að fallast á beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 207/2012.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Birkis Leóssonar og Drómundar ehf. um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 207/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 29. nóvember 2012 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn