Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

60 ára afmæli sameiginlegs norræns vinnumarkaðar

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, samstarfsráðherra
og félags- og húsnæðismálaráðherra

Herra forseti Íslands, kæru norrænu vinir, góðir gestir.

Ég vil fyrst af öllu óska ykkur öllum til hamingju með daginn. Það er svo sannarlega ástæða til að gleðjast og fagna þessum tímamótum, þar sem í dag eru sextíu ár liðin frá undirritun samings um sameiginlegan norrænan vinnumarkað. Samstarfið hefur frá upphafi verið farsælt og árangursríkt og íbúar Norðurlandanna hafa notið góðs af því, líkt og til var sáð í upphafi.

Svo öllu sé rétt til skila haldið voru það Svíar og Danir sem sýndu frumkvæði að því að koma á fót sameiginlegum vinnumarkaði og hófu undirbúning að því strax eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar. Norðmenn og Finnar voru meira hikandi þar sem þeir óttuðust skort á vinnuafli í sínum heimalöndum. Með samkomulagi um sérstakt ákvæði í samningnum um fulla atvinnu í hverju landi fyrir sig voru þjóðirnar reiðubúnar að undirrita samninginn og gerðu það 22. maí árið 1954. Það var svo ekki fyrr en árið 1982 sem Íslendingar gerðust aðilar að þessum samningi sem markaði upphafið að frjálsri för yfir landamæri og stendur enn í fullu gildi.

Ég tel það engar ýkjur þegar ég segi að Norðurlandabúum líður fljótt eins og heima hjá sér, hvert á land sem þeir flytja milli Norðurlandanna. Það er svo margt sameiginlegt með sögu og menningu þjóðanna sem sameinar okkur í viðhorfum og afstöðu til margvíslegra samfélagslegra málefna. Það er svo miklu fleira sem sameinar okkur en aðskilur. Fyrir vikið getum við verið sterk þegar við stöndum saman og áorkað miklu meiru en við annars gætum.

Þótt ýmsir hafi efast um ágæti sameiginlegs norræns vinnumarkaðar í upphafi held ég að fáir ef nokkrir geri það lengur, enda hafa kostirnir margsannað sig og óhætt er að segja að afnám hafta á norrænum vinnumarkaði hafi haft mikið að segja fyrir efnahagsþróunina. Helsti hvati búferlaflutninga eða þess að sækja vinnu yfir landamæri hefur falist í atvinnutækifærum, en launamunur hefur einnig haft áhrif á mynstur fólksflutninga. Þessi hreyfanleiki vinnuaflsins skapar margvísleg tækifæri og leysir einnig ýmsan vanda, hvort sem um er að ræða uppgangstíma með skorti á vinnuafli, eða erfiða tíma og atvinnuleysi. Hvoru tveggja höfum við Íslendingar fengið að reyna á skömmum tíma og svo sannarlega notið góðs af sameiginlegum norrænum vinnumarkaði, jafnt í góðu sem slæmu árferði.

Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hve hreyfanleiki fólks milli norrænu ríkjanna er mikill en tölurnar tala sínu máli. Undanfarin ár hafa rúmlega 50.000 Norðurlandabúar flust til annars norræns lands á hverju einasta ári. Þar sem aðstæður leyfa er einnig algengt að fólk sæki vinnu yfir landamæri. Ár hvert sækja allt að 70.000 einstaklingar vinnu í öðru norrænu landi en þeir búa í.

Norræna vinnumarkaðssamstarfið hefur þróast og tekið breytingum í áranna rás – jafnan með áherslu á að ryðja úr vegi ýmsum hindrunum þannig að borgarar sem flytja á milli landa njóti allra réttinda og finni sem minnst fyrir flutningi frá einnu norrænu ríki til annars. Þjóðirnar hafa gert með sér ýmsa sérstaka samninga í þessu skyni og unnið skipulega að því að leysa úr vandamálum sem upp hafa komið.

Aðild Norðurlandaþjóðanna að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópusambandinu hefur sett mark sitt á norrænt vinnumarkaðssamstarf síðastliðin tuttugu ár. Evrópureglur hafa í ýmsum tilvikum haft jákvæð áhrif og dregið úr hindrunum á norrænum vinnumarkaði, en um leið hefur Evrópusamvinnan þrengt möguleika norrænu þjóðanna til að gera sérstaka samninga sín á milli.

Þess má þó geta að 1. maí síðastliðinn tók gildi nýr Norðurlandasamningur um almannatryggingar í stað samningsins frá árinu 2003. Í þessum samningi er byggt á meginreglum Evrópureglugerðar um samræmingu almannatryggingakerfa, en í vissum tilvikum veitir hann Norðurlandabúum ríkari réttindi en evrópska reglugerðin kveður á um. Helstu nýmæli samningsins snúa að atvinnuleysisbótum, útreikningi á fjölskyldubótum og auknu samstarfi á sviði endurhæfingar. Ég ætla ekki að rekja efni samningsins hér, en vil nefna sérstaklega hvernig í honum er lögð áhersla á samvinnu yfirvalda og stofnana og gagnkvæma aðstoð í einstökum málum þegar leysa þarf úr álitaefnum – og hvernig áhersla er lögð á að leysa skuli úr málum einstaklinga þeim til hagsbóta eftir því sem það er framast unnt.

 

 

Góðir gestir.

Þótt aðild okkar að evrópsku samstarfi hafi valdið breytingum á norrænu samstarfi og dregið úr möguleikum á sértækum samningum milli norðurlandaþjóðanna þarf það alls ekki að vera slæmt. Okkar samstarf stendur á gömlum merg, við höfum reynslu og við höfum þekkingu á sameiginlegum vinnumarkaði og getum því miklu miðlað til annarra þjóða. Við höfum skapað gott fordæmi og getum haft áhrif á þróun þessara mála í Evrópu allri sem hin skínandi leiðarstjarna. Við höfum að ýmsu leyti sérstöðu sem gerir norræna vinnumarkaðinn sterkan, eftirsóknarverðan og áhugaverðan í augum annarra þjóða. Þar vil ég sérstaklega nefna hátt atvinnustig, mikla atvinnuþátttöku kvenna og eins að við stöndum framarlega á sviði vinnuverndar og vinnuumhverfismála. Fleira mætti telja.

 Ég vil líka leggja áherslu á að norrænt samstarf byggist ekki fyrst og síðast á gagnkvæmum samningum, heldur líka samstarfi og samtali milli þjóðanna, þar sem við lærum hver af annarri og miðlum reynslu og þekkingu okkar á milli. Þannig hefur það verið í gegnum tíðina og þannig mun það verða áfram. Við lærum af reynslunni og stundum gerum við mistök – en við berum líka ábyrgð á því að fyrirbyggja með sameiginlegri þekkingu okkar að mistök endurtaki sig.

Við stöndum frammi fyrir margvíslegum áskorunum - og framundan á næstu árum og áratugum eru ýmis stór viðfangsefni í kjölfar fjármálaþrenginga en einnig vegna lýðfræðilegra breytinga. Það er sameiginleg áhersla norrænu ríkjanna að þátttaka í atvinnulífi sé mikilvæg forsenda vellíðunar fólks og jafnframt einn af hornsteinum norrænu velferðarsamfélaganna. Áherslur Íslands á sviði vinnumarkaðsmála á formennskuárinu 2014 byggjast á þessu. Við höfum séð í kjölfar efnahagsþrenginga hvaða hópar eru viðkvæmastir á vinnumarkaði og þurfa helst á stuðningi og virkum vinnumarkaðsaðgerðum að halda. Þetta á sérstaklega við um ungt fólk, fólk með stutta skólagöngu að baki og fólk með skerta starfsgetu. Aukin menntun, ekki síst starfsmenntun, er mikilvægur liður í þessu. Það er jafnframt mikilvægt að menntun fólks mæti eftirspurn vinnumarkaðarins á hverjum tíma og til þess þarf að vera ákveðinn sveigjanleiki fyrir hendi. Ég tel því mikilvægt að fylgja eftir áherslum Svía frá formennskuári þeirra um eflingu vinnstaðanáms og betra samband atvinnulífsins og skólasamfélagsins.

Góðir gestir.

Í dag birtist í blöðum sameiginleg grein eftir okkur norrænu vinnumálaráðherrana í tilefni 60 ára afmælis norræns samstarf á sviði vinnumarkaðsmála. Ég ætla að gera niðurlag þeirrar greinar að lokaorðum mínum hér í dag, því í þeim birtist okkar sameiginlega niðurstaða sem er þessi: „Samstarf okkar hefur reynst vel. Þess vegna ætlum við að halda áfram að standa um það vörð og þróa það áfram til að auðvelda komandi kynslóðum að búa og starfa í öðru norrænu landi.“

Þakka ykkur fyrir og góðar stundir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum