Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2014 Forsætisráðuneytið

Vinnuhópur um eftirlitsstofnanir

Forsætisráðherra hefur í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar frá 14. apríl sl. skipað vinnuhóp sem hefur það hlutverk að fara yfir lög, reglur og stjórnsýslu mikilvægra eftirlitsstofnana og meta hvernig viðmið um vandað regluverk og stjórnsýslu eru uppfyllt, með einföldun, samræmi og skilvirkni að markmiði. 

Í vinnuhópnum eiga sæti Skúli Sveinsson lögmaður sem jafnframt er formaður, Garðar G. Gíslason lögmaður, Gísli M. Auðbergsson lögmaður, Jón Gunnarsson alþingismaður, Jóhanna María Sigmundsdóttir alþingismaður og Katrín Pétursdóttir framkvæmdastjóri. Með hópnum munu starfa Ásmundur Einar Daðason alþingismaður og aðstoðarmaður forsætisráðherra ásamt Sigurði Erni Guðleifssyni og Sigrúnu Ólafsdóttur starfsmönnum forsætisráðuneytisins.

Er vinnuhópnum ætlað að taka starfsemi þeirra eftirlitsstofnana til skoðunar sem hafa umtalsverð áhrif á atvinnulíf og samkeppni, ásamt tengdum úrskurðarnefndum. Þá er hópnum ætlað að móta viðmið um starfsemi og stjórnskipulag slíkra stofnana, ásamt því að leggja mat á hvernig lög, reglur og stjórnsýsla viðkomandi stofnana uppfylla slík viðmið. Loks er hópnum ætlað að gera tillögur til forsætisráðherra um úrbætur og benda á leiðir til sparnaðar fyrir ríki, sveitarfélög og atvinnulífið.

Hópnum er ennfremur ætlað að taka mið af stefnuyfirlýsingu og aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar um einfaldara og skilvirkara regluverk fyrir atvinnulífið og hafa samráð við ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, hlutaðeigandi stjórnvöld og þau ráðuneyti sem fara með viðkomandi málaflokk auk hagsmunaaðila eftir því sem hópurinn telur þörf á. Gert er ráð fyrir að viðkomandi eftirlitsstofnanir veiti hópnum þá aðstoð og upplýsingar sem þörf krefur. Í þeim tilvikum þar sem endurskoðunarvinna er nú þegar farin af stað ber hópnum að taka mið af því.

Er gert ráð fyrir að vinnuhópurinn ljúki störfum þann 1. mars 2015. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum