Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Málsmeðferðartími hælisumsókna 90 dagar

Málsmeðferðartími hælisumsókna verður að meðaltali ekki lengri en 90 dagar á hvoru stjórnsýslustigi í málum sem hafa komið inn frá og með 25. ágúst. Þetta var eitt megin markmiða með breytingum á útlendingalögum síðastliðið vor. Með þeim breytingum og breyttu verklagi í hefur náðst árangur í að auka skilvirkni og vanda verklag við meðferð hælisumsókna undanfarin misseri.

Þá mun Rauði krossinn á Íslandi taka tímabundið við því hlutverki að gæta hagsmuna hælisleitenda við umsókn þeirra um hæli. Einstaka mál gætu þó sætt undantekningum varðandi málshraða vegna sérstaka aðstæðna en Útlendingastofnun mun í samvinnu við Rauða krossinn halda áfram að vinna að bættu verklagi á næstu vikum og mánuðum.

Rauði krossinn hefur tekið að sér aðra þjónustu við hælisleitendur og metur reglulega aðbúnað hælisleitenda, sinnir heimsóknarþjónustu og félagsstarfi samkvæmt samningi sem gerður var milli innanríkisráðuneytisins og Rauða krossins. Rauði krossinn heldur jafnframt úti alþjóðlegri leitarþjónustu fyrir hælisleitendur og flóttamenn til þess að hafa uppi á týndum ættingjum sínum og endurvekja samband innan fjölskyldna sem hafa sundrast þegar slíkt er mögulegt.

,,Það er ánægjulegt að sjá árangurinn af þeirri vinnu sem starfsfólk ráðuneytisins og Útlendingastofnunar hefur lagt á sig síðastliðið ár, segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. ,,Við erum búin að ná gríðarlegum árangri í þessum málaflokki á skömmum tíma og munum halda áfram að bæta umgjörð og aðbúnað enn frekar á næstu mánuðum.“

Ljóst er að sumir hælisleitendur hafa beðið lengi eftir niðurstöðu í máli sínu og verður við mat á þeim umsóknum um hæli tekið tillit til þess og leitast við að hraða málum þar sem ábyrgð á því er stjórnvalda. Á það sérstaklega við börn og aðra umsækjendur í viðkvæmri stöðu.

Á næstu dögum verður nýr vefur Útlendingastofnunar tekinn í gagnið sem á að auðvelda útlendingum aðgang að upplýsingum um málefni útlendinga hér á landi og tryggja skilvirkari samskipti við stofnunina. Eru þær ráðstafanir mikilvægar í þeim umbótum sem unnið er að áfram.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira