Hoppa yfir valmynd
/ Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Frumvarp um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í umsagnarferli

Ferðamenn á göngu.
Ferðamenn á göngu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar.

Frumvarpið kveður á um að gerð verði tólf ára stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða sem lögð verður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu á þriggja ára fresti. Samhliða verði unnar þriggja ára verkefnaáætlanir sem kveða nánar á um forgangsverkefni hverju sinni. Er markmiðið með áætluninni að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhald innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar.

Frumvarpið nær til landsvæða þar sem er að finna ferðamannastaði, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlendna og nær áætlunin til landsins alls. Gert er ráð fyrir að ráðherra skipi tvo hópa, stýrihóp og samráðshóp, sem vinni saman að gerð bæði tólf ára áætlunarinnar og styttri þriggja ára verkefnaáætlana.

Áætluninni er ætlað að vernda náttúruna, koma í veg fyrir náttúruspjöll og tryggja nauðsynlegar lagfæringar, draga úr raski af völdum nýtingar, dreifa álagi, tryggja öryggi ferðamanna og meta ný svæði auk þess að sjá til þess að uppbygging innviða falli vel að heildarsvipmóti lands.

Áhersla er lögð á víðtækt samráð við gerð framkvæmdaáætlunar og verkefnaáætlana þar sem gert er ráð fyrir aðkomu sveitarfélaga, ferðaþjónustunnar, landeigenda, opinberra stofnana, háskóla, frjálsra félagasamtaka og hagsmunasamtaka auk ráðuneyta umhverfismála, ferðamála og fjármála.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið efnir til opins kynningarfundar um frumvarpið mánudaginn 6. október næstkomandi kl. 13 – 15. Fundurinn verður haldinn í sal ráðuneytisins að Skuggasundi 1, 101 Reykjavík. Óskað er eftir því að fólk skrái sig á fundinn á sérstöku skráningarformi sem er að finna hér.

Umsögnum um frumvarpið skal skila í síðasta lagi 11. október næstkomandi á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.

Drög að frumvarpi til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar. PDF útgáfa  Word skjal 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira