Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Tillaga að frumvarpi til breytinga á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar til kynningar

Innanríkisráðuneytið birtir hér með til kynningar tillögu að frumvarpi til breytinga á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997. Frumvarpið var áður lagt fram á 143. löggjafarþingi en var ekki afgreitt en frumvarpið hefur verið unnið í innanríkisráðuneytinu í samræmi við tillögur kirkjuþings þar að lútandi.

Endurskoðun laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar hefur staðið yfir um tíma en ekki hlotið afgreiðslu á kirkjuþingi enda málið umfangsmikið. Sú vinna heldur áfram en með frumvarpi þessu eru hins vegar lagðar til ákveðnar breytingar á lögunum sem miða að því að veita kirkjuþingi auknar heimildir til að setja starfsreglur um ýmis atriði í stjórnskipan kirkjunnar sem áður hafa verið bundin í lög svo og að auka fjárstjórnarvald þess.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru eftirfarandi:

  • Lagt er til að kirkjuþing setji ákvæði í starfsreglur um kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar, lausn ágreiningsmála sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi og um agabrot, en þetta eru málefni sem biskup Íslands hefur yfirumsjón með samkvæmt 11. gr.
  • Í tengslum við setningu starfsreglna samkvæmt 11. gr. er lagt til að felld verði brott ákvæði 12. og 13. gr. um úrskurðarnefnd og áfrýjunarnefnd þjóðkirkjunnar.
  • Lagt er til að ákvæði um tiltekin verkefni biskupafunda verði felld brott úr lögum en það tengist tilgangi laganna um að styrkja stöðu kirkjuþings.
  • Lagt er til að ákvæði um stöðu kirkjuþings verði gert skýrara þannig að ekki fari á milli mála að þingið fari með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar nema lög mæli sérstaklega á annan veg. Einnig er lagt til að það skref verði stigið að stjórn fjármála færist til kirkjuþings, enda talið eðlilegt að handhafi æðsta valds innan kirkjunnar stýri þeim fjármunum sem ætlaðir eru til rekstrar kirkjunnar.
  • Einnig eru lagðar til lítilsháttar breytingar á skilyrðum til skipunar eða setningar í prestsembætti.

---

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira