Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2014 Matvælaráðuneytið

Sjö norrænir ráðherrar funda í Keflavík 12. nóvember

Norden
Norden

Norræna ráðherranefndin um atvinnu-, orku- og byggðamál (MR-NER) fundar í Hljómahöllinni í Keflavík miðvikudaginn 12. nóvember. 

Í tengslum við fundinn verður haldin tveggja daga ráðstefna þar sem fjallað verður um nýsköpun í lífhagkerfinu og byggðamál. 

Ráðherrafundurinn hefst á umræðu um orkumál og stýrir Ragnheiður Elín Árnadóttir þeim hluta fundarins. Meðal þess sem verður til umræðu er norræni raforkumarkaðurnn, orkuskipti í samgöngum og á skipum og ný stefna Evrópusambandsins í orku- og loftslagsmálum.

Að loknum hádegisverði tekur við annar hluti ráðherrafundarins og fjallar hann um atvinnumál. Málefni nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi verða veigamikil í umræðunni sem og einföldun regluverks, ferðaþjónusta og þróun norræns samstarfs til að auka útflutning.

Síðasti hluti fundarins snýst um byggðamál og hefst hann kl. 15:30 með þátttöku norrænu ráðherranna í pallborðsumræðum á ráðstefnunni um nýsköpun í lífhagkerfinu. Að þeim loknum heldur fundurinn áfram undir stjórn Sigurða Inga Jóhannssonar ráðherra byggðamála.

Á ráðstefnunni sem haldinn er í Hljómahöllinni á miðvikudag og fimmtudag er kastljósinu beint að hlut norræna lífhagkerfisins í nýsköpun og dreifbýli.

Dagskrá ráðstefnunnar má lesa hér

Norrænu ráðherrarnir sem sækja ráðherrafundinn eru:

  • Ísland: Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
  • Danmörk: Rasmus Helveg Petersen orkumálaráðherra
  • Noregur: Tord Lien olíu- og orkumálaráðherra og Jan Tore Sanner byggðamálaráðherra.
  • Svíþjóð: Ibrahim Baylan orkumálaráðherra og Sven-Erik Bucht byggðamálaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum