Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 17/2014.  Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 23. október 2014

í máli nr. 17/2014:

Fastus ehf.

gegn

Ríkiskaupum og

Landspítala

Með kæru 29. september 2014 kærir Fastus ehf. útboð varnaraðila nr. 15513 um fatavinnslulínu fyrir þvottahús Landspítala. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um val á tilboði í útboðinu, en til vara að varnaraðilum verði gert að bjóða út innkaupin í heild sinni að nýju. Þá er þess jafnframt krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila, auk þess sem krafist er málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila Landspítala um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 94. gr. a. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, sbr. 12. gr. laga nr. 58/2013, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði um kaup á fatavinnslulínu fyrir þvottahús Landspítala. Í útboðsgögnum kom fram að við val tilboða skyldi verð gilda 60% en tæknilegar kröfur 40%. Af gögnum málsins verður ráðið að þrjú tilboð hafi borist í útboðinu, þar af tvö frá kæranda, auðkennd tilboð 1 og 2. Þá liggur fyrir að varnaraðilar óskuðu eftir nánari skýringum á tilteknum atriðum í tilboði kæranda eftir að tilboð höfðu verið opnuð. Með bréfi 19. september 2014 var kæranda svo tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka tilboði annars bjóðanda í útboðinu þar sem það hefði verið metið hagkvæmast. Jafnframt var upplýst að öðru tilboði kæranda, tilboði 2, hefði verið hafnað þar sem það hefði ekki uppfyllt óundanþægar kröfur útboðsgagna. Kröfur kæranda byggja í meginatriðum á því að varnaraðilar hafi metið tilboð kæranda, þ.e. tilboð 1, með röngum hætti að teknu tilliti til skilmála útboðsgagna og ákvæða laga um opinber innkaup.

 

Niðurstaða

Í málinu liggur fyrir að kærandi veitti upplýsingar um orkunotkun þeirra tækja sem hann bauð og meta átti samkvæmt lið 5 í fylgiskjali 14 í útboðsgögnum. Með hliðsjón af þeim upplýsingum verður að telja, eins og mál þetta liggur fyrir nú, að kærandi hafi verið í góðri trú um að þær upplýsingar væru nægjanlegar til þess að tilboð hans yrði metið til stiga samkvæmt framangreindum lið útboðsgagna, en ella yrði kallað eftir frekari skýringum.

Samkvæmt útboðsskilmálum skyldu boðnar vélar aðlagast sjálfkrafa mismunandi þykkt og stærð fatnaðar þannig að ekki þyrfti að stilla þær fyrir hverja spjör, sbr. lið 6 í fylgiskjali 14 í útboðsgögnum. Fram er komið að kærandi fékk ekkert stig fyrir þennan lið af 10 mögulegum þrátt fyrir að bjóða fram vél sem virðist uppfyllla orðalag útboðsgagna. Af hálfu varnaraðila hafa, á þessu stigi málsins, ekki komið fram viðhlítandi skýringar á þessari niðurstöðu.

Samkvæmt framangreindu hafa verið leiddar nægilegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar varnaraðila um val tilboðs. Er því ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 96. gr. laga um opinber innkaup til þess að aflétta stöðvun samningsgerðar að kröfu varnaraðila.

Ákvörðunarorð:

Kröfu varnaraðila, Landspítala, um að aflétt verði stöðvun samningsgerðar vegna útboðs nr. 15513 um fatavinnslulínu fyrir þvottahús Landspítala er hafnað.

 

                                                                                               Reykjavík, 23. október 2014.

                                                                                               Skúli Magnússon

                                                                                               Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                               Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn