Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Úrskurður vegna höfnunar á leyfi fyrir innflutningi á dýraafurðum

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hinn 28. janúar 2015 kveðið upp svohljóðandi:

Ú R S K U R Ð

Kröfugerð

Með stjórnsýslukæru, dags. 13. ágúst 2014 kærði Daníel Isebarn Ágústsson hrl. f.h. Kosts lágvöruverðsverslunar ehf., kt. 420209-1930, hér eftir nefndur kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 12. maí 2014, um að hafna leyfi fyrir innflutningi á dýraafurðum í sendingu nr. ESEL31034NLRTMW071 og fyrirskipun um endursendingu eða förgun varanna. Kærandi krefst þess að ákvörðun Matvælastofnunar verði felld úr gildi.

Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Þann 31. mars 2014 flutti kærandi til landsins sendingu af dýraafurðum frá Mexíkó, um Holland. Afurðin, varan, ber heitið Canine Chews hundabein. Sendingin innihélt nagbein, alls 2.740 kg. Við innflutningseftirlit Matvælastofnunar kom í ljós sá annmarki á sendingunni að varan sem um ræðir var ekki merkt viðurkenndri starfsstöð, samkvæmt skrá Evrópusambandsins.

Með bréfi dags. 11. apríl 2014 tilkynnti Matvælastofnun kæranda um væntanlega höfnun vegna innflutnings á dýraafurðum frá þriðju ríkjum. Í bréfinu var kærandi upplýstur um þá annmarka sem Matvælastofnun taldi vera á sendingunni og gæfu ástæðu til að hafna bæri innflutningi hennar. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að koma að andmælum.

Kærandi sendi Matvælastofnun andmæli sín þann 23. apríl 2014. Kærandi taldi ekki vera skilyrði til að hafna innflutningi á umræddri sendingu meðal annars á þeim grunni að varan væri sannanlega merkt í samræmi við lög nr. 22/1994 um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Með bréfi dags. 12. maí 2014 hafnaði Matvælastofnun leyfi til innflutnings innflutningi á sendingunni ESEL31034NLRTMW071 sem innihélt dýraafurðum. Við innflutningseftirlit Matvælastofnunar kom í ljós sá annmarki á sendingunni að varan sem um ræðir var ekki merkt viðurkenndri starfsstöð, samkvæmt skrá Evrópusambandsins.

Í bréfinu var kærandi upplýstur um að ráðstafa yrði vörunni, annað hvort með endursendingu til ákvörðunarstaðar utan Evrópska efnahagssvæðisins eða farga henni í samræmi við 17. gr. reglugerðar nr. 1044/2011 um eftirlit með innflutningi á dýraafurðum frá ríkjum utan ESS. Þá var kæranda leiðbeint um kæruheimild og kærufrest í bréfinu. Á meðan meðferð málsins stóð yfir endursendi kærandi umræddar vörur til seljanda vörunnar í Mexíkó.

Með bréfi dags. 13. ágúst 2014 kærði Daníel Isebarn Ágústsson hrl. f.h. kæranda ákvörðun Matvælastofnunar um að hafna leyfi fyrir innflutningi á dýraafurðum á vegum kæranda með áðurnefndu farmbréfsnúmeri. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. Ennfremur að fyrirskipun Matvælastofnunar um endursendingu eða förgun vörunnar verði felld úr gildi.

Með bréfi dags. 19. ágúst 2014 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar um framangreinda kæru. Þann 22. september 2014 barst ráðuneytinu umsögn Matvælastofnunar um stjórnsýslukæru kæranda. Þar krafðist Matvælastofnun að hin kærða ákvörðun yrði staðfest. Umsögnin var kynnt kæranda með tölvubréfi þann sama dag og honum gefin frestur til 13. október 2014 til að koma á framfæri athugasemdum við umsögn Matvælastofnunar. Kærandi sendi ráðuneytinu bréf dags. 13. október 2014 með athugasemdum varðandi umsögn Matvælastofnunar.

Þann 2. desember 2014 sendi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið lögmanni kæranda bréf þar sem ráðuneytið tilkynnti kæranda að stjórnsýslukæra hans hafi borist ráðuneytinu degi of seint sbr. 8. gr., 20. og 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið óskaði eftir því að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Þann 18. desember 2014 barst ráðuneytinu bréf frá lögmanni kærandi.

Kæruheimild og kærufrestur

Um kæruheimild og kærufrest gilda stjórnsýslulögin nema sérlög mæli fyrir um á annan veg. Í 26. gr. laganna kemur fram að aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra setts stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi og í 27. gr. kemur fram að kæra skal borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. laganna kemur fram sú meginregla að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá.

Niðurstöður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um upphafs- og lokadag kærufrests

Í 8. gr. stjórnsýslulaga er að finna skýringareglu á því hvernig reikna beri út frest í lögum er varða stjórnsýsluna. Samkvæmt reglunni skal sá dagur, sem frestur er talinn frá, ekki teljast með innan frestsins. Í greinargerð sem varð að stjórnsýslulögum er reglan útskýrð nánar. Fyrsti dagur við talningu frestsins er því sá dagur sem kemur á eftir þeim degi sem fresturinn er reiknaður frá. Þegar til dæmis er reiknaður út kærufrestur samkvæmt 27. gr. laganna og ákvörðun er tilkynnt aðila 1. september, þarf kæra að berast æðra settu stjórnvaldi eða hafa verið póstlögð eigi síðar en 1. desember.

Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga er ákvörðun bindandi eftir að hún er komin til aðila. Upphafstími ákvörðunar miðast við það þegar ákvörðun er komin til aðila máls eða umboðsmanns hans. Það er nægjanlegt að ákvörðun sé komin þangað sem almennt má búast við að aðili geti kynnt sér ákvörðun, t.d. að bréf hafi verið afhent á heimili hans eða í tölvupósthólf hans. Upphafstími kærufrestsins byrjar því að líða þegar ákvörðun er komin til aðila eða umboðsmanns hans.

Ákvörðun Matvælastofnunar er dags. og send kæranda með bréfi dags. 12. maí 2014. Bréfið var sent sama dag sem viðhengi í tölvupósti til umboðsmanns kæranda og kæranda sjálfs. Ákvörðunin var einnig send á tölvupóstföngin [email protected] og [email protected].

Umboðsmaður kæranda sendi Matvælastofnun andmælabréf í sama máli þann 25. apríl 2014 úr tölvupóstfanginu [email protected] fyrir hönd kæranda. Kærandi hefur að fyrra bragði, bæði í þessu máli og öðrum, verið í samskiptum við Matvælastofnun í gegnum tölvupóst. Kærandi hefur áður fengið ákvarðanir Matvælastofnunar sendar í tölvupósti. Það er því ljóst að Matvælastofnun var heimilt að senda kæranda niðurstöður sínar rafrænt svo þær væru bindandi fyrir kæranda.

Kæranda var tilkynnt um ákvörðun Matvælastofnunar þann 12. maí 2014. Samkvæmt 8. gr. stjórnsýslulaga þá skal sá dagur, sem frestur er talinn frá, ekki teljast með innan frestsins. Kærufrestur er þrír mánuðir og ef frestur er reiknaður samkvæmt 27. gr. laganna og heimfærður á mál þetta þá hefði kæra þurft að berast ráðuneytinu eða vera póstlögð eigi síðar en 12. ágúst 2014. Þá er 12. ágúst síðasti dagurinn til að kæra til ráðuneytisins. Kæra í máli þessu er dags. 13. ágúst 2014 og barst ráðuneytinu sama dag í tölvupósti en í bréfpósti daginn eftir. Kæran barst því degi of seint.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti. Það eru þó tvær undantekningar frá þeirri meginreglu. Það skal því vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigarmikla ástæður mæla með því að kæra verði tekin til meðferðar.

Málsástæður og lagarök kæranda um túlkun á 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

Þann 2. desember 2014 sendi ráðuneytið lögmanni kærandi bréf þar sem ráðuneytið tilkynnti kæranda að stjórnsýslukæra hans hafi borist degi of seint. Ráðuneytið óskaði eftir því að kærandi tilgreindi ástæður þess að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðum lögbundnum kærufresti. Þann 18. desember 2014 barst ráðuneytinu bréf frá lögmanni kæranda.

Í bréfi lögmanns kæranda er vísað til 28. gr. laganna og það bæri að vísa kæru frá að liðnum kærufresti nema afsakanlegt yrði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mælti með því að kæran yrði tekin til meðferðar. Kærandi hafi hafist handa ákvörðun Matvælastofnunar að senda umrædda vöru aftur til Mexíkó í þeirri viðleitni að koma vörunni í það horf sem Matvælastofnun gerði kröfu um til að koma vörunni á markað hér á landi. Sendingin, sem um ræðir, varði mikilsverða hagsmuni kæranda, enda um að ræða nýja vöru á íslenskum fóðurmarkaði og umtalsverðir fjármunir bundnir í sendingunni. Til stendur að senda umrædda vöru aftur til Íslands þar sem kærandi mun freista þess í annað sinn að fá leyfi til innflutnings á vörunni. Eitt af þeim atriðum sem hefur áhrif á þá heimild eru merkingarmál og telur kærandi mikilvægt að úr því sé skorið hvernig fara skuli með merkingar á fóðri, í samræmi við efni þessa máls, svo komist verði hjá viðlíka vandamálum í síðari sendingum. Fáist ekki úrlausn um efni umræddrar kæru er viðbúið að kærandi sé í nokkurri óvissu hvað varðar innflutning á umræddum vörum sem nú þegar eru á leið til landsins. Kærandi telur auk þess að ákvörðun Matvælastofnunar sé ólögmæt og hafi valdið honum umtaslverðu tjóni sem felst meðal annars í þeim kostnaði að endursenda vöruna til framleiðanda og senda svo vöruna aftur til landsins í þeirri viðleitni að koma vörunni á markað.

Með vísan til ofangreinds telur kærandi að miklir hagsmunir séu fólgnir í því fyrir kæranda að úrlausn fáist um kæru þessa. Fáist ekki niðurstaða í málið er viðbúið að stjórnsýsluframkvæmd Matvælastofnunar muni halda áfram með óbreyttum hætti hvað varðar síðari sendingar kæranda, þar á meðal þá sendingu sem nú þegar er á leið til landsins. Því séu veigamiklar ástæður sem mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Niðurstöður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Stjórnsýslukæra kæranda barst ráðuneytinu degi of seint. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kærandi telur að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæran í máli þessu verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Við mat á því hvort veigamiklar ástæður séu fyrir hendi ber að líta til hagsmuna aðila máls, til að mynda hvort um grundvallar mál sé að ræða sem haft geti þýðingarmikið fordæmisgildi og hvort aðili máls sé aðeins einn. Þá kemur fram í athugasemdum við 28. gr. frumvarpsins er varð að stjórnsýslulögum, að líta þurfi til þess hvort aðilar að máli séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Almennt hefur verið talið að svigrúm stjórnvalda til að taka mál til meðferðar sé minna ef kærumál felur í sér úrlausn á ágreiningi milli tveggja eða fleiri aðila og hagsmunir annarra málsaðila standa gegn því að mál verði tekið til efnismeðferðar. Í því sambandi skiptir þó máli hvort gagnaðili telst annað stjórnvald eða annar einstaklingur eða lögaðili, sem telst beinlínis aðili máls í þeirri merkingu sem fram kemur í tilvitnuðum lögskýringargögnum. Almennt má segja að sjónarmið um hagsmuni þriðja aðila eigi fyrst og fremst við um hin síðarnefndu tilvik en ekki þegar hinn aðilinn er stjórnvald.

Stjórnsýslulögin voru sett til að tryggja aðilum máls það úrræði í þágu réttaröryggis að leita raunhæfrar og virkrar endurskoðunar á ákvörðun lægra setts stjórnvalds. Þrátt fyrir þessi sjónarmið þá þýðir það ekki að stjórnvöld eigi sjálfkrafa að taka öll mál til málsmeðferðar þar sem kærufrestur er liðinn og hagsmunir eru miklir. Meginreglan kemur skýrt fram í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, það skuli vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti. Allar undantekningar ber að skýra þröngt. Svo undantekningin eigi við þarf málið að vera þannig vaxið að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Hvort hagsmunir þessa máls séu það veigamiklir að málið eigi að taka til meðferðar verður að skoðast í samræmi við málsmeðferð Matvælastofnunar og hvort verulegir form- og efnisannmarkar voru á málsmeðferðinni. Einnig verður að skoða hvort málið sé fordæmisgefandi og hvort það muni hafa áhrif á önnur mál. 

Niðurstaða þessa máls hefur ekki beint áhrif á innflutning vörunnar frá Mexíkó sem er nú þegar á leið til landsins, samkvæmt yfirlýsingu kæranda, enda er sú sending merkt eftir fyrirmælum Matvælastofnunar. Hins vegar getur niðurstaða þessa máls haft áhrif á síðari innflutning kæranda. Það að kærandi standi í innflutningi á vörum frá þriðja ríki, hann ætli að halda því áfram, hann telji að ákvörðun Matvælastofnunar hafi verið ólögmæt og valdið honum fjárhagslegu tjóni uppfyllir eitt og sér ekki skilyrði 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þó málið geti verið fordæmisgefandi fyrir kæranda þá eru reglurnar sem standa að baki ákvörðunar Matvælastofnunar skýrar og ótvíræðar. Ákvörðunin er ekki byggð á mati heldur skýrum reglum. Mál þetta getur ekki talist vera grundvallar mál þar sem niðurstaða málsins hafi úrslitaáhrif fyrir kæranda varðandi framtíðar innflutning hans eða á atvinnustarfsemi hans. Ákvörðun Matvælastofnunar var byggð á skýrum lagafyrirmælum sem kærandi uppfyllti ekki. Málsmeðferð Matvælastofnunar var ekki þess valdandi að málið eigi að vera tekið fyrir af þeirri ástæðu einni saman.

Í ljósi framangreinds lítur ráðuneytið svo á að kærandi hafi ekki sýnt fram á samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í málinu að veigamiklar ástæður mæli með því að stjórnsýslukæra þessi verði tekin til efnislegrar meðferðar hjá ráðuneytinu sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi hefur heldur ekki sýnt fram á að afsakanlegar ástæður í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga liggi fyrir því að umrædd stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu að liðnum lögbundnum kærufresti. Með vísan til framangreinds og með stoð í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga er erindi kæranda vísað frá ráðuneytinu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stjórnsýslukæru Kosts lágvöruverðsverslunar ehf. dags. 13. ágúst 2014, sem barst ráðuneytinu 13. ágúst sama ár, vegna ákvörðunar Matvælastofnunar, dags. 12. maí 2014, um synjun um leyfi til innflutnings á 2.740 kg af hundabeini með sendingarnúmeri ESEL3103NLRTMW071 er vísað frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 

                                  Ólafur Friðriksson                                                          Baldur Sigmundsson

 


 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn