Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál nr. 24/2014.  Úrskurður kærunefndar útboðsmála:

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 6. febrúar 2015

í máli nr. 24/2014:

Álfaborg ehf.

gegn

Isavia ohf.   

Með kæru, sem móttekin var 18. nóvember 2014, kærir Álfaborg ehf. útboð Isavia ohf. á innkaupum á gólfefnum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kröfur kæranda eru að ákvörðun um val á tilboði verði ógilt og að varnaraðila verði gert að bjóða út innkaupin. Til vara er þess krafist að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Varnaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum við kæruna og bárust þær 3. desember 2014. Varnaraðili krefst þess aðallega að kærunni verði vísað frá en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Kærandi gerði athugasemdir við greinargerð varnaraðila 15. desember 2014.

I

Með tölvubréfi 2. september 2014 spurðist varnaraðili fyrir um það hjá kæranda hvort sá síðarnefndi gæti útvegað 2500 fermetra af flísum fyrir verslanasvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Flísarnar skyldu vera af gerðinni Padang Dark, 300x600 mm að stærð og 15 mm að þykkt. Tekið var fram í tölvubréfinu að flísalögn ætti að hefjast um 10. nóvember 2014. Með tölvubréfi 5. september 2014 svaraði kærandi því til að hann gæti útvegað flísarnar.

Hinn 6. september 2014 sendi varnaraðili bréf til fjögurra fyrirtækja, þar á meðal kæranda, með fyrirsögninni „verðkönnun“. Með bréfinu var óskað eftir tilboðum í 2800 fermetra af gólfflísum af gerðinni Padang Dark. Stærð flísanna skyldi vera 300x600 mm og þykktin 15 mm, auk annarra nánar tilgreindra eiginleika. Flísunum átti að skila á verkstað eigi síðar en 3. nóvember 2014. Tilboðum skyldi skila til varnaraðila eigi síðar en kl. 17 þann 10. september 2014. Fjögur fyrirtæki sendu varnaraðila tilboð og var kærandi meðal þeirra.

Með tölvubréfi 23. september 2014 var bjóðendum tilkynnt að tilboð hefðu verið yfirfarin og að ákveðið hefði verið að ganga til samninga við S. Helgason ehf. og tekið fram að tilboð félagsins hefði verið það eina sem uppfyllti kröfur um afhendingu.

II

Kærandi byggir á því að hann hafi boðið lægra verð en S. Helgason ehf. Í tilboði kæranda hafi komið fram textinn „Sótt á lager Álfaborgar ehf.“ en það sé einungis staðlaður texti. Vísað er til þess að varnaraðili hafi sent kæranda fyrirspurn áður en eiginlegt innkaupaferli fór fram. Í svari kæranda við fyrirspurninni hafi meðal annars falist að hann gæti afhent flísarnar á tilgreindum tíma á tilgreindum stað. Kærandi telur að varnaraðila hafi borið að líta til þessa svars við mat á tilboðinu þannig að ljóst væri að kærandi gæti afhent vörurnar á tilsettum tíma á verksvæðinu. Þá gerir kærandi athugasemdir við innkaupaferlið og telur að varnaraðili hafi framkvæmt útboðsskyld innkaup án útboðs.

III

Varnaraðili byggir á því að kæran sé of seint fram komin og því beri að vísa henni frá nefndinni. Þá telur varnaraðili að tilboð kæranda hafi verið ógilt. Allir bjóðendur hafi gefið upp afhendingar­tíma nema kærandi. Tilboð S. Helgasonar ehf. hafi verið eina tilboðið sem uppfyllti allar kröfur, þar með talið um afhendingartíma eigi síðar en 3. nóvember 2014. Varnaraðili mótmælir því að hafa brotið reglur um innkaup án undangengins útboðs. Verðkönnun hafi farið fram með heimild í 2. mgr. 27. gr., b-lið 1. mgr. og b-lið 2. mgr. 33. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

IV

Samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 84/2007 laga um opinber innkaup, sbr. 11. gr. laga nr. 58/2013, skal kæra borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan 20 daga frá því að kærandi vissi um eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Með 11. gr. laga nr. 58/2013 var því slegið föstu að upphaf frests beri að miða við birtingu tilkynningar um val tilboðs eða aðrar ákvarðanir sem um ræðir í 1. og 2. mgr. 75. gr. laga um opinber innkaup.

Af gögnum málsins er ljóst að ákvörðun varnaraðila um val á tilboði var send kæranda með tölvubréfi 23. september 2014. Sama dag óskaði kærandi eftir frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun varnaraðila. Kæra í málinu var móttekin 18. nóvember 2014. Var kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga um opinber innkaup því liðinn þegar kæran var borin undir kærunefnd útboðsmála. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kærunni frá kærunefnd útboðsmála.

 

Úrskurðarorð:

Kæru Álfaborgar ehf. vegna innkaupa varnaraðila, Isavia ohf., á gólfefni fyrir Flugstöð Leifs Eiríkssonar, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

 

                                                                                        Reykjavík, 6. febrúar 2015.

          Skúli Magnússon

                      Ásgerður Ragnarsdóttir

         Stanley Pálsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn