Hoppa yfir valmynd
7. maí 2015 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skuldir heimilanna lækka

  • Skuldir heimilanna lækka hratt. Eru nú jafnar því sem þær voru 2004 sem hlutfall af VLF
  • Íbúðaskuldir hafa lækkað úr 72% í 65% af VLF frá gildistöku skuldaaðgerða og áhrifa þeirra mun gæta áfram til frekari lækkunar
  • Skuldir heimilanna lækka hraðar á Íslandi en í nágrannalöndum

Skuldastaða heimilanna hefur batnað umtalsvert á undanförnum misserum. Ástæðan er einkum ákjósanlegar efnahagslegar aðstæður og stöðugleiki sem hefur leitt til talsverðrar kaupmáttaraukningar hjá almenningi, en kaupmáttur launa hefur aukist um 8% frá ársbyrjun 2013, sem hefur hjálpað til við að greiða niður skuldir. Skuldir heimila sem hlutfall af landsframleiðslu eru nú jafnar því sem þær voru árið 2004.


Skuldir heimila, % af VLFÍ árslok 2014 voru heildarskuldir heimilanna um 90,5% af VLF og höfðu lækkað um 10 prósentustig á árinu 2014. Íbúðaskuldir voru 68% af VLF í árslok 2014. Um mitt ár 2014 þegar skuldalækkunarúrræði ríkisstjórnarinnar tóku gildi voru íbúðaskuldir 72% af VLF. Í lok febrúar 2015 voru íbúðaskuldir 65% af VLF.

Íbúðaskuldir heimila, % af VLFFrá áramótum er búið að greiða liðlega 51 ma. kr. vegna höfuðstólslækkunarinnar, það eru 75% af heildarfjárhæð niðurfærslunnar.* Síðasti fjórðungur hennar verður greiddur inn á höfuðstól lána í ársbyrjun 2016. Við þetta bætast verulegar fjárhæðir sem heimilin geta greitt inn á húsnæðislán sín, eða sparað til fyrstu kaupa, skattfrjálst í hverjum mánuði. Aðgerða stjórnvalda til skuldalækkunar heimila skipta því sköpum við að bæta fjárhagsstöðu heimilanna og munu skuldir heimilanna lækka enn frekar þegar heildaráhrif aðgerðanna verða að fullu komin fram um mitt ár 2017.

Skuldir heimila hafa lækkað mun hraðar hér en í flestum nágrannalöndum okkar á undanförnum árum. Um mitt ár 2009 var hlutfall skulda heimilanna 126% af VLF. Þá var aðeins Danmörk með hærra skuldahlutfall af þeim löndum sem Ísland er gjarnan borið saman við (Bretland, Danmörk, Holland, Írland, Noregur, Svíþjóð,Sviss og Kýpur).  Síðan þá hefur skuldahlutfallið lækkað um 38 prósentustig og af þessum samanburðarlöndum hefur aðeins Írland náð svipuðum árangri í lækkun skulda. 

Skuldir heimila, % af VLF

*Miðað við ráðstafaða fjárhæð til fjármálastofnana í lok febrúar 2015. Á þessu ári verður 80 milljörðum króna ráðstafað vegna höfuðstólslækkunarinnar, þar af er 6 milljörðum króna ráðstafað í persónuafslátt í gegnum skattkerfið. Af þeim fjármunum sem ráðstafað er til fjármálastofnana inn á höfuðstól verðtryggðra lána verður 75% greitt á þessu ári og 25% í byrjun árs 2016.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum