Hoppa yfir valmynd
16. september 2015 Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Viðurkenningarhafar á Degi íslenskrar náttúru

Fjölmiðlaverðlaun afhent

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti í dag í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, þáttaseríunni „Lífríkið í sjónum við Ísland“ eftir þá Erlend Bogason og Pétur Halldórsson fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Við sama tækifæri veitti hún Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti en hana hlutu annars vegar hjónin Björn Halldórsson og Elisabeth Hauge á Valþjófsstöðum í Öxarfirði og hins vegar Völundur Jóhannesson á Egilsstöðum.

Tilnefndir til fjölmiðlaverðlaunanna voru: 

  • Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á RÚV, sem gerði deiluefni um virkjanakosti í Þjórsá góð skil í sjónvarpsfréttum 17. maí sl. 
  • Iceland Review, sem sagði frá eldgosinu í Holuhrauni í fjölda vandaðra og upplýsandi greina og með ljósmyndum sem komu hrikafegurð eldsumbrotanna og áhrifum þeirra á viðkvæma náttúru vel til skila.
  • Þáttaröðin „Lífríkið í sjónum við Ísland“, sem er röð stuttra þátta ætluð til vekja athygli á fjölbreyttu náttúrulífi neðansjávar og sýnd var á sjónvarpsstöðinni N4.

Í rökstuðningi dómnefndar fjölmiðlaverðlauna segir að þættirnir „Lífríkið í sjónum við Ísland“ séu dæmi um metnaðarfulla þáttagerð þar sem kastljósinu sé beint að heimi undir yfirborði sjávar sem flestum er hulinn. Myndefnið sé einstakt og handritið vel unnið og samvinna höfunda hafi skilað frábærum árangri sem eftir sé tekið og hafi borið hróður þeirra langt út fyrir landsteinana. Verkefnið sé „bæði skemmtilegt og fróðlegt og hefur meðal annars sérstöðu að því leyti að það er afrakstur framtaks sem var unnið umfram skyldu, af metnaði og áhuga og aðdáunarverðri seiglu.“ Hér má sjá þættina.

Í rökstuðningi ráðherra vegna Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti kemur m.a. fram að þau Björn og Elisabeth á Valþjófsstöðum hljóti viðurkenninguna fyrir eljusemi, kraft og áhuga í landgræðslu og skógrækt við erfið ræktarskilyrði á svæði sem stendur fyrir opnu norðurhafi. Uppgræðsluverkefni þeirra nái frá fjöru til fjalls en að auki sé sjálfbærni leiðarljós í öllum búskap þeirra, sem endurspeglist m.a. í eigin raforkuframleiðslu.  

Völundur hljóti viðurkenninguna fyrir einstakt ræktunarstarf á hálendi Íslands í 640 metra hæð. M.a. hafi honum tekist að fá birki til að þrífast auk um 200 tegunda á svæði sem áður var talið ómögulegt til ræktunar. Þá hafi Völundur barist fyrir vernd hálendisins og sýnt framsýni í uppbyggingu skála og salernisaðstöðu á fjölförnum leiðum á hálendinu. Hann nýti sér einnig sjálfbæra orkugjafa og hafi með þrautseigju breytt hugmyndum um hvað sé mögulegt í ræktun á hálendi Íslands.

"" Handhafar Náttúruverndarviðurkenningar Sigríðar í Brattholti Elisabeth Hauge og Björn Halldórsson á Valþjófsstöðum, Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra og Völundur Jóhannesson..


Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar  verðlaunahöfum öllum innilega til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira