Hoppa yfir valmynd
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Drög að lagafrumvarpi um húsgöngu- og fjarsölusamninga til umsagnar

Til umsagnar eru nú hjá innanríkisráðuneytinu drög að frumvarpi til laga um húsgöngu- og fjarsölusamninga. Tilgangur frumvarpsins er að taka upp hér á landi ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2011/83/ESB um réttindi neytenda. Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 11. október nk. og skulu þær sendar á póstfangið [email protected].

Markmið frumvarpsins er að samræma íslenskar reglur við reglur hinna aðildarríkja EES-svæðisins um húsgöngu- og fjarsölusamninga og um hvaða atriði seljanda er skylt að upplýsa neytanda áður en samningur um kaup á vörum eða þjónustu verður skuldbindandi af hálfu neytanda.

Frumvarpið tekur fyrst og fremst til húsgöngu- og fjarsölusamninga en mælir einnig fyrir um lágmarksreglur um upplýsingagjöf vegna sölu- og þjónustusamninga, þó ekki um samninga sem snerta dagleg viðskipti og eru efndir jafnskjótt og samningur er gerður.

Eftirfarandi eru helsti atriði frumvarpsins:

  • Upplýsingaskylda seljenda. Seljendum ber að veita neytendum ákveðnar upplýsingar áður en samningur er gerður, m.a. um helstu eiginleika vöru eða þjónustu, heildarverð ásamt opinberum gjöldum og öllum öðrum gjöldum, fyrirkomulag á greiðslum, o.fl.
  • Réttur til að falla frá samningi. Neytendur geta fallið frá samningi með tilkynningu til seljenda innan fjórtán daga. Ef seljandi upplýsir neytendur ekki um þennan rétt framlengist fresturinn í eitt ár.
  • Viðbótagreiðslur. Seljendur verða að óska eftir ótvíræðu samþykki neytenda fyrir hvers konar viðbótargreiðslum. Auk þess er seljendum óheimilt að innheimta viðbótargreiðslur af neytendum á netinu með notkun sjálfgefinna kosta.

Ætla má að seljendur vöru og þjónustu þurfi að aðlaga aðferðir sínar við markaðssetningu til samræmis við ákvæði tilskipunarinnar eftir að hún hefur verið innleidd hér á landi. Samræming reglnanna innan Evrópska efnahagssvæðisins getur á hinn bóginn auðveldað innlendum seljendum að selja vöru eða þjónustu innan svæðisins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira