Hoppa yfir valmynd
6. október 2015 Matvælaráðuneytið

Sigurður Ingi ræðir verndun sjávar á „Our Ocean“ ráðstefnunni í Síle

Sigurður Ingi á
Sigurður Ingi á "Our Ocean" ráðstefnunni

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði í gær ráðstefnugesti á „OurOcean“ ráðstefnunni í Valparísó í Síle. Ráðstefnan er haldin að frumkvæði Johns Kerrys, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, en að þessu sinni eru það stjórnvöld í Síle sem eru gestgjafar. Markmiðið með ráðstefnunni, sem nú er haldin í annað sinn, er að leita leiða til berjast gegn hættum sem lífríki sjávar stafar af ýmsum umhverfisþáttum, ólöglegum fiskveiðum, plastmengun og súrnun hafsins.  

Sigurður Ingi rakti í stuttu máli hvaða breytingum íslenskur sjávarútvegur hefur tekið á undanförnum áratugum. Þá lofaði hann auknum stuðningi við starfsemi sjávarútvegsskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna sem hefur aðsetur á Íslandi, en frá árinu 1998 hafa hátt í 300 nemendur frá 48 þjóðlöndum sótt skólann.

Sigurður Ingi Jóhannsson: „Vandamál sem tengjast hafinu eru vandamál allra jarðarbúa. Það sem gerist á einum stað hefur áhrif á öðrum, enda höfin samtengd. Ég taldi rétt að leggja áherslu á það í ræðu minni, hvað íslensk stjórnvöld hafa fram að færa. Okkur hefur tekist vel í að byggja upp fiskistofna við Ísland og viljum gjarnan deila þeirri þekkingu með öðrum þjóðum sem telja sig geta haft gagn af.“

Auk þess að flytja erindi á ráðstefnunni voru tvíhliða fundir með fulltrúum Evrópusambandsins, Kanada og fyrrverandi forseta Kostaríka, José María Figueres. 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum