Hoppa yfir valmynd
8. október 2015 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Búist við margmenni á Umhverfisþing

Ferðamenn á göngu.
Ferðamenn á göngu.

Um 350 manns taka þátt í Umhverfisþingi sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík á morgun, föstudaginn 9. október. Að þessu sinni er meginþema þingsins samspil náttúru og ferðamennsku.

Má búast við líflegum umræðum um málefni á borð við þolmörk ferðamannastaða í íslenskri náttúru, friðlýsingar, uppbyggingu innviða til verndar náttúru, hlutverk leiðsögumanna í náttúruvernd, strauma og stefnur í rekstri þjóðgarða og friðlýstra svæða, og svo mætti lengi telja.

Þetta er í níunda sinn sem umhverfis- og auðlindaráðherra efnir til Umhverfisþings. Að loknu ávarpi ráðherra stígur heiðursgestur þingsins, Susan Davies, forstjóri Scottish Natural Heritage, í pontu en stofnunin hefur umsjón með náttúruvernd og sjálfbærri nýtingu náttúru í Skotlandi. Davies mun meðal annars segja frá reynslu Skota af samþættingu náttúruverndar og ferðamennsku en Skotar hafa þótt sýna framsýni í því hvernig þeir skipuleggja ferðaþjónustu sína með tilliti til náttúruverndar.

Að loknu erindi Davies og inngangserindum munu börn úr grunnskólunum á Hellu, Hvolsvelli og Þjórsárskóla kynna vistheimtarverkefni sem þau hafa unnið að.

Eftir hádegi verður þinginu skipt í tvær málstofur. Í annarri málstofunni er spurt hvort ferðamennska í náttúru Íslands sé ógn eða tækifæri í náttúruvernd. Í hinni er fjallað um friðlýst svæði, vernd þeirra, skipulag, rekstur og fjármögnun. Í hvorri málstofu verður fjöldi stuttra erinda.

Dagskrá þingsins er að finna hér.

Þeir sem ekki hafa tök á að sitja þingið geta fylgst með beinni útsendingu frá því hér á heimasíðu ráðuneytisins, á slóðinni http://www.uar.is/umhverfisthing-2015/bein-utsending/

#umhverfisþing

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum