Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Ráðherrafundur og ráðstefna um flóttamannavanda

Ólöf Nordal innanríkisráðherra sat í gær ráðherrafund Schengen ríkja í Lúxemborg þar sem rætt var um flóttamannastrauminn til Evrópu. Í framhaldi af þeim fundi var síðan haldin fjölþjóðleg ráðstefna utanríkisráðherra og dómsmála- og innanríkisráðherra um málið.

Frá ráðherrafundi um flóttamannamál í Lúxemborg í gær.
Frá ráðherrafundi um flóttamannamál í Lúxemborg í gær.

Fyrir hönd Íslands sátu ráðstefnuna Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sem fór fyrir sendinefnd ráðuneytisins, Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, og Kristín Haraldsdóttir, aðstoðarmaður innanríkisráðherra. Ráðstefnuna sátu einnig fulltrúar ríkja á Balkanskaga, Tyrklands, Jórdaníu og Líbanon.

Á ráðherrafundi Schengen-ríkjanna var einkum fjallað um hvernig efla megi og styrkja eftirlit með ytri landamærum Schengen-svæðisins og almennt um umfang flóttamannavandans. 

Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um hvernig hvernig styðja megi Jórdaníu, Líbanon og Tyrkland og þau ríki sem hafa tekið við stórum hópum flóttamanna og hvernig bæta megi þar aðstöðu flóttamanna, hvernig efla má viðbrögð við skipulagðri glæpastarfsemi sem tengist smygli á fólki og hvernig ráðast megi að rótum vandans með því að koma á friði og stöðugleika á átakasvæðum, m.a. Sýrlandi, Afganistan og Írak. Þá var einnig kallað eftir víðtækari alþjóðlegum stuðningi við verkefnið. Utanríkisráðherra greindi á fundinum frá nýlegri ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um aukið fjárframlag til aðstoðar flóttafólki, bæði vegna þeirra sem sækja um hæli á Íslandi og þeirra sem dvelja í flóttamannabúðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira