Hoppa yfir valmynd
28. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Landssamráðsfundur um aðgerðir gegnofbeldi

Ráðherrarnir undirrita samstarfsyfirlýsinguna - mynd
Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 29. október kl. 14.00 - 16.00 með þátttöku félags- og húsnæðismálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra og innanríkisráðherra, og er vettvangur fyrir víðtækt samráð um aðgerðir gegn ofbeldi

Fundurinn verður haldinn í fundarsal atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins að Skúlagötu 4.

Dagskrá:

14.00 Ávarp ráðherra
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra

14.10 Samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi
Ingibjörg Broddadóttir, formaður stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi

14.25 Kúgun og slagsmál – ofbeldi í nánum samböndum
Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði

14.45 Kaffihlé

15.10 Samvinna er lykilatriði
Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum

15.30 Pallborðsumræður með ráðherrum
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra
Ólöf Nordal, innanríkisráðherra

16.00 Fundarslit

Í desember 2014 innsigluðu félags- og húsnæðismálaráðherra, innanríkisráðherra og mennta- menningarmálaráðherra samstarf um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess með undirritun samstarfsyfirlýsingar. Samstarfsyfirlýsingin er víðtæk og felur í sér samráð milli félagsmálayfirvalda, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis og lögreglu- og ákæruvalds með þátttöku félagasamtaka. Í upphafi yfirlýsingarinnar segir m.a. „Við erum ...einhuga um að vinna saman gegn ofbeldi í íslensku samfélagi og niðurbrjótandi áhrifum þess, auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála.“.

Á fundinn er boðið fulltrúum félagsmálayfirvalda, barnaverndaryfirvalda, mennta- og heilbrigðiskerfis, lögreglu- og ákæruvalds og félagasamtaka, sem beita sér í þessum málum.

Fundurinn er á vegum stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi , sem var skipaður í haust með fulltrúum frá framangreindum ráðuneytum. Verkefnið er í umsjá velferðarráðuneytisins sem leggur hópnum til tvo starfsmenn. Vinna hópsins fram til þessa hefur snúist um verklag og vinnuáætlun, yfirlit verkefna í hverju ráðuneyti og skörun verkefna innan Stjórnarráðsins. Einnig um undirbúning og skipulag landssamráðsins og flokkun verkefna. Þá hefur verið unnin samantekt um helstu alþjóðasáttmála og yfirlýsingar á þessu sviði. Stýrihópurinn heldur einnig áfram starfi Vitundarvakningar um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum.

Á landssamráðsfundinum verður verkefninu formlega ýtt úr vör en fundurinn er hugsaður sem fyrsti vettvangur þess víðtæka samráðs sem samstarfsyfirlýsingin frá desember 2014 felur í sér. Hópurinn hefur lagt sig fram um að ná til sem flestra sem geta lagt hönd á plóginn svo samstarf náist með mannvænt samfélag án ofbeldis að markmiði. Í upphafi er mikilvægt að ná saman lykilaðilum sem síðar verða kallaðir til við gerð aðgerðaáætlunar til fjögurra ára. Áætlunin á meðal annars að fela í sér forvarnir og fræðslu ásamt bættu verklag við rannsókn mála; aðgerðir sem styrkja samstarf lögreglu, mennta-, heilbrigðis- og barnaverndaryfirvalda og félagsþjónustu; aðgerðir gegn einelti og hatursfullri orðræðu og aðstoð við gerendur ofbeldis.

Með þátttöku ráðherranna er mikilvægi og umfang verkefnisins undirstrikað og stoðum rennt undir öflugt samstarf stýrihópsins og þeirra sem sitja fundinn.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum