Hoppa yfir valmynd
29. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Aðdragandi og undirbúningur vinnuheimsóknar til Kína í mars 2015

Upphaf vinnuheimsóknar mennta- og menningarmálaráðherra til Kína má rekja til boðs kínverskra stjórnvalda um heimsókn ráðherra til Kína haustið 2014. Mennta- og menningarmálaráðherra hafði síðast farið í sambærilega heimsókn til Kína árið 2006.

Aðdragandi og undirbúningur vinnuheimsóknar til Kína í mars 2015

Upphaf vinnuheimsóknar mennta- og menningarmálaráðherra til Kína má rekja til boðs kínverskra stjórnvalda um heimsókn ráðherra til Kína haustið 2014. Mennta- og menningarmálaráðherra hafði síðast farið í sambærilega heimsókn til Kína árið 2006.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur birt gögn er varða vinnuheimsókn sendinefndar til Kína í seinni hluta mars á þessu ári. Gögnin varpa nánara ljósi á aðdraganda, undirbúning og einstaka dagskrárliði heimsóknarinnar.

Í gögnum málsins kemur m.a. fram:

  • Skipulag heimsóknar sem þessarar er á verksviði utanríkisráðuneytisins. Sendiráð Íslands í Kína hafði veg og vanda að undirbúningi ferðarinnar og samningu dagskrár.
  • Þann 5. febrúar 2015 lagði sendiherra Íslands í Kína til að ferð íslensku sendinefndarinnar yrði lengd um einn sólarhring til að hægt yrði að heimsækja borgina Xian, en þar eru nú mjög umfangsmiklar hitaveituframkvæmdir. Þátttaka íslenskra sérfræðinga í framkvæmdunum er þýðingarmikil og borgin því verið eðlilegur viðkomustaður í vinnuheimsókn ráðherra sem fer með vísindamál.
  • Í fyrstu dagskrárdrögum sem bárust mennta- og menningarmálaráðuneyti þann 6. mars 2015 hafði ekki verið tekin endanleg afstaða til þess hvaða staðir utan Peking borgar skyldu heimsóttir, en valið stóð á milli þess að heimsækja Xian, sem áður er nefnd, eða Baoding, sem er vinaborg Hafnarfjarðar.
  • Í tölvupósti frá sendiráði Íslands í Peking sama dag var lagt til að sendinefndin færi til Baoding þar sem þeirri ferð fylgdi minni kostnaður. Í Baoding eru einnig starfræktar hitaveitur sem íslenskir vísindamenn og sérfræðingar eiga talsverðan heiður að.
  • Í fyrstu dagskrárdrögum dagsettum 6. mars 2015, frá sendiráði Íslands í Peking, er ekki gert ráð fyrir að fyrirtækin Marel eða Orka Energy taki þátt í heimsókninni. Hið sama má segja um dagskrárdrög sem berast mennta- og menningarmálaráðuneyti frá sendiráðinu þann 10. mars 2015 og 11. mars 2015.
  • Í dagskrárdrögum sem bárust frá sendiráðinu í Peking fjórum dögum fyrir brottför, þann 17. mars, er í fyrsta sinn getið um og gert ráð fyrir aðkomu fyrirtækjanna Marel og Orku Energy.

Í gögnunum má að auki sjá upplýsingar um þá fundi sem haldnir voru sem og samning þann sem undirritaður var á milli Rannís og Náttúruvísindastofnunar Kína og viljayfirlýsingu þá sem undirrituð var á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og kínverska vísindamálaráðuneytisins.

Í gögnunum kemur einnig fram að:

  • Í apríl 2012 var tilbúinn samningur um samstarf á sviði vísinda og tækni á milli Kína og Íslands. Til stóð að samningurinn yrði undirritaður í opinberri heimsókn kínverskrar sendinefndar sem kom hingað til lands í sama mánuði, en úr því varð ekki vegna tímahraks.
  • Samningurinn var undirritaður sumarið 2013, í óbreyttri mynd. Hin Norðurlöndin, auk Þýskalands, Frakklands, Bretlands, Ítalíu, Austurríkis, Sviss, Spánar, Portúgal og Hollands hafa gert áþekka samninga við kínversk stjórnvöld.
  • Við undirbúning ferðarinnar var haft samband við rektora HÍ, HR, Listaháskólans og HA, en sökum anna komst rektor HA ekki með. Í för með ráðherra voru einnig fulltrúar frá Rannís.
  • Fundað var með ráðherrum mennta-, vísinda- og menningarmála ásamt því að háskólar, vísindastofnanir og menningarstofnanir voru heimsóttar.
  • Í ferðinni var undirritaður samstarfssamningur Rannís og Náttúruvísindastofnunar Kína sem og viljayfirlýsing um rannsóknasamstarf á sviði jarðhita.
  • Samstarfssamningur Rannís og Náttúruvísindastofnunar Kína var unninn af starfsmönnum Rannís og Náttúruvísindastofnunar Kína. Viljayfirlýsingin var unnin af orkumálastjóra. Hún var send utanríkisráðuneytinu til skoðunar og í tölvupósti dagsettum 10. mars 2015 frá sendiráði Íslands í Peking kom fram að sendiráðið ynni að viljayfirlýsingunni í samráði við Orkustofnun og forsvarsmenn kínversku jarðhitamiðstöðvarinnar.
  • Til viðbótar við framangreint var einnig fundað með forsvarsmönnum íþróttamála í Kína sem og borgarstjóra Baoding borgar, en sú borg er sem fyrr segir vinabær Hafnarfjarðar. Á fundi með borgarstjóra Baoding var talsvert rætt um stefnu borgarinnar hvað varðar matvælaöryggi og möguleika fyrirtækisins Marel til að styðja við þá stefnu. Þá var einnig fundað með stjórnarformanni Sinopec, sem er orkufyrirtæki í eigu kínverska ríkisins, og leiðandi á sviði rannsókna og nýtingar á jarðhita í Kína. Sinopec er eitt stærsta fyrirtæki heims.

Gögnin sem eru birt eru ýmist háð upplýsingarétti almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 eða undanþegin þeim upplýsingarétti skv. 5. tl. 1. mgr. 6. gr. sbr. 8. gr. laganna, en eru eftir sem áður birt. Mennta- og menningarmálaráðuneyti nýtir sér þar með heimild í 1. mgr. 11. gr. laganna um að veita aðgang að gögnum í ríkari mæli en skylt er samkvæmt öðrum ákvæðum laganna. Er það gert í þágu þess að varpa nánara ljósi á aðdraganda heimsóknarinnar og undirbúning dagskrár.

Heimsókn til Kína fyrri hluti

Heimsókn til Kína seinni hluti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum