Hoppa yfir valmynd
30. október 2015 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Upphafsfundur landssamráðs gegn ofbeldi

Fundurinn markar upphaf að formlegu samráði á landsvísu til að bæta samvinnu og verklag í málum sem tengjast ofbeldi og afleiðingum þess

Vel var mætt á upphafsfund landssamráðs gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem haldinn var í dag að frumkvæði þriggja ráðherra. Fundurinn markar upphaf að formlegu samráði á landsvísu til að bæta samvinnu og verklag í málum sem tengjast ofbeldi og afleiðingum þess.

Fundurinn hófst með ávarpi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem bauð fundarmenn velkomna á fundinn sem hún sagði marka formlegt upphaf að víðtæku samráði lykilaðila til að vinna gegn ofbeldi í samfélaginu, hvaða nafni sem það nefnist.

Að lokinni ræðu ráðherra fjallaði Ingibjörg Broddadóttir, formaður stýrihóps um aðgerðir gegn ofbeldi, um vinnu hópsins sem unnið hefur að undirbúningi þess landssamráðs sem formlega var ýtt úr vör á fundinum. Að því búnu flutti Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði, erindi sem hann kallaði; Kúgun og slagsmál – ofbeldi í nánum samböndum. Ingólfur fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að skima fyrir ofbeldi þar sem því yrði við komið og vísaði til íslenskra rannsókna sem sýna meðal annars að um 33% kvenna sem koma á bráðadeild hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi og að tæp 22% kvenna greina frá slíku á Miðstöð mæðraverndar. Hann benti einnig á að ofbeldi væri hverju samfélagi afar dýrt, líka í krónum talið og vísaði meðal annars í upplýsingar frá Danmörku þar sem talið er að ofbeldi gegn konum kosti samfélagið um 70 milljónir evra á ári.

Samvinna er lykilatriði – var yfirskrift erindis sem Jóhannes Jensson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, flutti þar sem hann sagði frá Suðurnesjaverkefninu þar sem lögregla, félagsþjónusta og barnaverndarnefndir á Suðurnesjum tóku höndum saman og lögðu saman getu sína og þekkingu til að bregðast á sem bestan og skjótastan hátt við í málum þar sem grunur var um ofbeldi. Fundinum lauk með pallborðsumræðum þar sem fulltrúar ráðuneytanna þriggja, þ.e. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, aðstoðarmaður Ólafar Nordal innanríkisráðherra, svöruðu fyrirspurnum fundargesta.

Tekið af vef velferðarráðuneytis þar sem fjallað er ítarlega um fundinn

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum