Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á lögreglunámi undirbúnar

Frá útskrift í Lögregluskólanum í desember í fyrra. - mynd
Verið er að undirbúa breytingar á lögreglunámi og stefnt er að því að lögreglunemar verði teknir inn næsta haust og stundi þá námið samkvæmt nýrri námskrá og breyttri tilhögun námsins. Við undirbúninginn er byggt á tillögum starfshópa á vegum innanríkisráðuneytisins sem hafa meðal annars lagt til að stofnað verði mennta- og starfsþróunarsetur löggæslunnar sem falin verði ábyrgð á útfærslu lögreglunámsins.

Víðir Reynisson lögreglufulltrúi er verkefnastjóri við undirbúninginn og segir hann stefnt að því að breyting á lögreglunáminu taki gildi næsta haust með inntöku nýrra nemenda. Námið yrði skipulagt sem tveggja ára grunnnám, diplómanám, með möguleika á að bæta við þriðja árinu sem lyki með BA prófi. Inntökuskilyrði verða endurskoðuð en meðal skilyrða verður stúdentspróf, gerð er krafa um líkamlegt atgervi en ekki sett skilyrði um aldur eins og verið hefur.

Viðræður við fimm háskóla

Viðræður munu fara fram við fimm háskóla um mögulega aðkomu að þessu nýja námi lögreglumanna. Eru það Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Keilir, miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs.

Víðir Reynisson segir að settar hafi verið fram hugmyndir um námskrá og tilhögun og að fyrirhugaðir séu fundir með fulltrúum háskólanna um þær. Í framhaldinu meta skólarnir þessar hugmyndir. Hann segir að ráðgert sé að koma á næstunni á fót mennta- og starfsþróunarsetri löggæslunnar og yrði því falið að ganga formlega frá samningum við háskóla um framtíðarskipan námsins. Ríkislögreglustjóri telur þörf á milli 30 og 40 nýjum lögreglumönnum á ári og segir Víðir miðað við þann fjölda í inntöku nýrra nemenda næsta haust. Í dag eru 16 lögreglunemar á lokastigi náms hjá Lögregluskólanum sem munu útskrifast næsta haust.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira