Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Mál 28/2015.  Álit kærunefndar útboðsmála:

Álit kærunefndar útboðsmála 21.desember 2015

í máli nr. 28/2015:

Beiðni Landsvirkjunar

um ráðgefandi álit

Með bréfi 16. nóvember 2015 óskaði Landsvirkjun eftir ráðgefandi áliti kærunefndar útboðsmála samkvæmt 4. mgr. 91. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup, vegna fyrirhugaðra innkaupa í tengslum við endurnýjun vélbúnaðar Bjarnarflagsstöðvar. Af bréfinu verður ráðið að Landsvirkjun hyggist endurnýja vélbúnað í rafstöð fyrirtækisins í Bjarnarflagi í Mývatnssveit. Miðað er við að fyrirhuguð innkaup feli í sér eftirfarandi þætti:

  • Niðurrif og förgun á eldri vél- og rafbúnaði innan veggja stöðvarinnar.

  • Hönnun og smíði nýs hverfils ásamt rafali og stjórnbúnaði. Fram kemur að athuganir Landsvirkjunar bendi til þess að ekki sé framleiddur hverfill fyrir jarðhita í viðkomandi stærðarflokki og því þurfi að hanna og sérsmíða nýjan hverfil.

  • Steypu á undirstöðum undir hverfilsamstæðu og aðrar viðgerðir á stöðvarhúsi.

  • Uppsetningu og prófanir á búnaði sem feli m.a. í sér tengingar við gufuveitu, vatnsveitu og 11kV dreifikerfi.

  • Endurnýjun á rafstreng að rofastöð RARIK ásamt nýjum vélaspenni.

Áætlaður heildarkostnaður verksins er sagður vera 5.260.000 evrur eða um 740 milljónir íslenskra króna.

            Óskað er álits á því hvort fyrirhuguð innkaup teljist vera verkframkvæmd eða innkaup á vöru- eða þjónustu í skilningi veitutilskipunarinnar, þ.e. tilskipunar nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og póstþjónustu, sbr. reglugerð nr. 755/2007 með síðari breytingum.

Niðurstaða

Af beiðni Landsvirkjunar verður ráðið að innkaupin feli í sér mismunandi þætti sem hver um sig kunna að flokkast sem samningur um verk, vöru eða þjónustu í skilningi b-, c- og d-liðar 2. tl. 1. gr. veitutilskipunarinnar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um verðmæti hvers þáttar um sig. Af erindi Landsvirkjunar verður þó ráðið að megintilgangur fyrirhugaðra innkaupa sé endurnýjun vélbúnaðar Bjarnarflagsstöðvar, einkum kaup á hverfli og rafali ásamt stjórnbúnaði til framleiðslu rafmagns. Samkvæmt 1. mgr. c-liðar 2. tl. 1. gr. fyrrgreindrar tilskipunar eru vörusamningar þeir samningar, aðrir en verksamningar, skv. b-lið sama ákvæðis, sem varða kaup, langtíma- eða skammtímaleigu eða kaupleigu á vörum, með eða án kaupréttar. Við mat á því hvort téð innkaup falli undir kaup á vöru getur það ekki ráðið úrslitum þótt vélbúnaðurinn kunni að einhverju leyti að vera sérsniðinn að þörfum Landsvirkjunar hvað varðar stærð og lögun, svo sem eðli málsins samkvæmt hlýtur að vera raunin um þau tæki sem hér um ræðir. Hvað varðar aðra þætti hinna fyrirhuguðu innkaupa verður að leggja til grundvallar að þeir séu einungis tilfallandi hluti af framangreindum vörukaupum sem nauðsynlegt eða æskilegt er að ráðast í vegna endurnýjunar vélbúnaðarins og uppsetningar hans. Verður því að telja þætti þessa hluta af þeim vörukaupum sem fyrirhugað er að ráðast í, sbr. 2. mgr. c-liðar 2. tl. 1. gr. tilskipunarinnar. Eins og mál þetta liggur fyrir verður því að  miða við að fyrirhuguð innkaup Landsvirkjunar séu kaup á vörum.

Ákvörðunarorð:

Fyrirhuguð innkaup Landsvirkjunar vegna endurnýjunar á vélbúnaði Bjarnarflagsstöðvar teljast vera vörusamningur í skilningi c-liðar 2. tl. 1. gr. tilskipunar nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutning og póstþjónustu.

                                                                                    Reykjavík, 21. desember 2015.

                                                                                    Skúli Magnússon

                                                                                    Stanley Pálsson

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn