Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Alls sóttu 134 um vernd fyrstu þrjá mánuðina

Þjóðerni umsækjenda. - mynd
Alls sóttu 134 um vernd á Íslandi fyrstu þrjá mánuði árs. Eru það 95 fleiri en á sama tíma á síðasta ári. Flestir umsækjenda til loka mars eru frá Albaníu eða 33, 21 frá Makedóníu og 19 frá Írak. Allt síðasta ár sóttu 354 um hæli hér á landi.

Alls eru umsækjendur frá 25 ríkjum það sem af er árinu og fjórir eru án ríkisfangs. Í janúar sóttu um einstaklingar frá 10 ríkjum, í febrúar frá 11 ríkjum og í mars frá 16 ríkjum. Frá áramótum hafa 42% mála verið tekin til efnismeðferðar en 58% þeirra hefur lokið með öðrum hætti, þ.e. umsækjendur hafa dregið mál til baka, þeir hafa fengið vernd annars staðar eða málum lokið með svonefndum Dublinar-ákvæðum, þ.e. umsækjendur farið til baka til ríkis innan Schengen-svæðisins sem þeir fyrst komu til.

Af þeim fjölda mála sem komu til efnismeðferðar lauk 60% með synjun. Vernd fengu umsækjendur í 22% tilfella og viðbótarvernd í 16% tilfella. Þá fengu 2% umsækjenda vernd af mannúðarástæðum.

Á síðasta ári náðust margs konar umbætur varðandi meðferð hælisumsókna. Þannig tókst að ná málsmeðferðartíma niður í um 90 daga sem áður gat jafnvel tekið allt að einu ári. Þetta hefur tekist með endurskoðuðu verklagi við viðtalsaðferðir, staðlaðar ákvarðanir og samræmingu verkferla. Þá hefur Útlendingastofnun á þessu ári breytt fyrirkomulagi við móttöku og skráningu umsókna og er þess vænst að stytta megi málsmeðferðartíma enn frekar.

Þá hafa innanríkisráðuneytið og Útlendingastofnun átt viðræður við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (International Organization for Migration, IOM) um aðstoð við þá hælisleitendur sem sjálfviljugir snúa til baka. Það fyrirkomulag gerir hælisleitendum kleift að snúa til baka með reisn og án afskipta lögreglu. Gera má ráð fyrir að með hliðsjón af auknum fjölda umsækjenda um vernd hér á landi muni þeim fjölga sem snúa þurfa til baka vegna synjunar umsóknar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira