Hoppa yfir valmynd
Dómsmálaráðuneytið

Lagafrumvarp um breytingar á námi lögreglumanna samþykkt í ríkisstjórn

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í dag frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á lögreglulögum sem snúast um nýja skipan á námi lögreglumanna. Frumvarpið fer nú til umfjöllunar hjá þingflokkum stjórnarflokkanna.

Niðurstaða tveggja starfshópa sem falið var að leggja fram tillögur að framtíðarskipan lögreglumenntunar var sú að færa skuli lögreglumenntun á háskólastig svo og að sérstök eining innan lögreglunnar hefði það hlutverk að sjá um tengingu fræðilegs og verklegs hluta námsins sem og að sinna rannsóknar- og fræðslustarfi innan lögreglu. Lagafrumvarpið nú miðar að því að innleiða þessar breytingar sem voru nánar útfærðar í samráði við fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Helstu breytingarnar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

  • Menntun lögreglumanna verði færð á háskólastig til samræmis við það fyrirkomulag sem tíðkast á Norðurlöndum.
  • Skilyrði til starfs lögreglumanns verði diplómapróf í lögreglufræðum sem jafngildi að minnsta kosti 120 stöðluðum námseiningum á háskólastigi.
  • Sett verði á stofn mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra og að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður. Hlutverk setursins verði að sjá um starfsnám lögreglunema og fræðslustarf.

Þá gerir lagafrumvarpið ráð fyrir að ráðherra menntamála geri samninga við háskóla um kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða þar sem komi fram lágmarkskröfur um inntak og gæði náms í lögreglufræðum, helstu áherslur í kennslunni, mat og eftirlit og fleira.

Frumvarpið var birt á vef innanríkisráðuneytisins 19. febrúar 2016 og kostur gefinn á að veita umsögn um frumvarpið til 1. mars 2016. Umsagnir bárust frá Háskólanum í Reykjavík, Lögreglustjórafélagi Íslands, Landssambandi lögreglumanna, Karli Gauta Hjaltasyni, skóla­stjóra Lögregluskóla ríkisins, Vilhjálmi Egilssyni, rektor Háskólans á Bifröst, og Sæþóri Þórðarsyni. Umsagnirnar lýsa almennri ánægju með frumvarpið en innihalda jafnframt nokkrar efnislegar athugasemdir og ábendingar. Sumar þeirra þóttu gefa tilefni til breytinga en aðrar ekki enda hafði áður verið tekin afstaða til þeirra atriða er þær varða við undir­búning og gerð frumvarpsins.

Í bráðabirgðaákvæði frumvarpsins er gert ráð fyrir að núverandi nemendur í Lögregluskóla ríkisins eigi rétt til 30. september á að ljúka námi sínu og skal skólinn útskrifa í ágúst 2016 þá nemendur sem hófu skólagöngu haustið 2015. Þá telst Lögregluskóli ríkisins formlega lagður niður frá og með 30. september.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira