Hoppa yfir valmynd
6. maí 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Menningarmálaráðherrarnir vilja efla aðlögun innflytjenda og tjáningarfrelsi

Hlutverk menningar í aðlögun flóttamanna og innflytjenda var meginviðfangsefni fundar menningarmálaráðherra Norðurlanda í Helsinki 2. maí. Þeir samþykktu jafnframt yfirlýsingu um tjáningarfrelsi.

Mikil áhersla er lögð á aðlögun flóttamanna og innflytjenda í öllum norrænu löndunum. Menningargeirinn og borgaralegt samfélag gegna lykilhlutverki í því að takast á við þetta erfiða viðfangsefni og við að efla samloðunarkraftinn í samfélagi okkar.

Á fundinum skiptust norrænu menningarmálaráðherrarnir á reynslu af því hvernig menning og frjáls félagasamtök geta komð að gagni við aðlögunarferli innflytjenda.. Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu nýlega að leggja ætti áherslu á aðlögun innflytjenda og efla starf að þeim málum verulega með samstarfsáætlun til nokkurra ára. Það starf sem unnið er árið 2016 á meðal annars að tengjast menningargeiranum og hlutverki borgaralegs samfélags vegna þess mikilvæga hlutverks sem menningarlífið gegnir við aðlögun innflytjenda.

Menningarmálaráðherranir ræddu einnig áhrif flóttamannavandans sem nú steðjar að á ímynd Norðurlanda sem lýðræðislegra og opinna samfélaga fyrir alla og á (listrænt) tjáningarfrelsi. Í tengslum við námsstefnuna „Re-shaping Cultural Policies for Development“ samþykktu ráðherrarnir yfirlýsingu. Í henni er meðal annars að finna eftirfarandi skýr og kröftug skilaboð: „Við höldum ótrauð áfram að berjast gegn öllu því sem ógnar (menningarlegu) tjáningarfrelsi.“

Lokaskjal Óslóarráðstefnunnar um ólögleg viðskipti með menningarverðmæti var kynnt fyrir ráðherrunum. Í niðurstöðum ráðstefnunnar var bent á ýmsar gagnlegar aðgerðir sem væru þess eðlis að sameiginlegir kraftar landanna myndu nýtast betur í norrænu samstarfi. Ráðherranir mæltu með því við viðkomandi yfirvöld í hverju landi að þau héldu áfram samstarfi í samræmi við tilmælin.

Ráðherrafundurinn var haldinn í Helsinki daginn fyrir ráðstefnu Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) um tjáningarfrelsi í tilefni af degi fjölmiðlafrelsis sem halda á í sömu borg.

Tekið af vef Norrænu ráðherranefndarinnar

Sjá einnig fréttabréf um norrænt menningarsamstarf

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum