Hoppa yfir valmynd
17. maí 2016 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Niðurstöður útboðs vegna farmiðakaupa Stjórnarráðsins

Stjórnarráðið hefur undanfarið unnið markvisst að endurskipulagningu innkaupa á flugmiðum. Aukið hagræði við innkaupin næst með miðlægum farmiðainnkaupum hjá Rekstrarfélagi stjórnarráðsins, sem nú eru hafin. Þá var auglýst útboð vegna farmiðakaupa hjá Ríkiskaupum í febrúar sl. og liggur niðurstaða þess fyrir.

Útboðinu var skipt upp í tvo flokka. Annars vegar var boðinn út tiltekinn fjöldi miða til og frá Íslandi á algengustu áfangastaði. Boðnar voru út flugferðir á þrjá algengustu áfangastaði, sem nema um 30% ferða sem farnar eru árlega á vegum ráðuneyta. Eitt tilboð barst, frá Wow-air, til tveggja áfangastaða. Gengið verður til samninga við Wow-air vegna þessa tilboðs.

Hins vegar sóttist Stjórnarráðið eftir að tryggja afsláttarkjör á hverjum tíma á alla áfangastaði og var forsenda þess hluta útboðsins að samkeppni yrði innan samnings á milli samningsaðila. Bárust tilboð frá Icelandair og Wow-air. Mat Ríkiskaupa, sem sá um útboðið, var að tilboð Icelandair væri ógilt. Þar sem einungis eitt tilboð var dæmt gilt eru grunnforsendur þessa hluta útboðsins um að samið yrði við fleiri en einn og að innbyrðis samkeppni yrði á hverjum tíma um hagstæðustu kjör, ekki uppfylltar.

Tilhögun útboðs Stjórnarráðsins á farmiðum byggðist á niðurstöðum ítarlegrar greiningar á ferðatilhögun starfsmanna Stjórnarráðsins sem gerð var til þess að meta hvaða þarfir þyrfti að uppfylla. Meðal annars voru kannaðir helstu áfangastaðir, framhaldsflug, lengd ferða og tímasetningar. Auk þess var fundað með fulltrúum stærstu seljenda.

Unnið er að undirbúningi á útboði á flugfarmiðum fyrir stofnanir ríkisins. Stjórnarráðið hyggst taka þátt í því útboði þar sem ekki náðist að semja um almenn afsláttarkjör í nýafloknu útboði. Horft verður til reynslunnar af þessu útboði við mótun þeirra skilyrða sem lögð verða fram í útboðinu í þeim tilgangi að ná fram hagkvæmni í innkaupum og flugfarmiðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum