Hoppa yfir valmynd
23. maí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Aukið eftirlit Tryggingastofnunar með bótagreiðslum

Farið yfir reikninga
Farið yfir reikninga

Ríkisendurskoðun telur ekki ástæðu til að ítreka ábendingar sem stofnunin beindi til velferðarráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins varðandi eftirlit með bótagreiðslum árið 2013. Brugðist hafi verið við ábendingunum á fullnægjandi hátt. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Ríkisendurskoðun beindi þremur ábendingum til velferðarráðuneytisins um eftirlit með bótagreiðslum árið 2013. Í fyrsta lagi var bent á að nauðsyn þess að tryggja nauðsynlegt fjármagn til eftirlits, í öðru lagi hvatti stofnunin til þess að lögbundnar eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar yrðu skýrðar og í þriðja lagi hvatti Ríkisendurskoðun ráðuneytið til að kanna hvort heimila ætti Tryggingastofnun með lögum að ljúka sem flestum bótasvikamálum með stjórnsýsluviðurlögum.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar hafi verið auknar, skyldur umsækjenda og greiðsluþega verið skýrðar með lögum og Tryggingastofnun hafi fengið lagaheimild til að ljúka bótasvikamálum með stjórnvaldssektum.

Tryggingastofnun hefur eflt eftirlit með bótagreiðslum og þróað árangursmælikvarða og áhættugreiningu. Ríkisendurskoðun tekur einnig fram að Tryggingastofnun hafi lagt áherslu á að að veita umsækjendum og greiðsluþegum góðar leiðbeiningar, bæði með auglýsingum og fundarherferðum. Stofnunin geti nú lagt 15% álag á ofgreiddar bætur hafi þær verið fengnar með sviksamlegum hætti en gögn Tryggingastofnunar bendi til að slíku úrræði sé sjaldan beitt.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum