Hoppa yfir valmynd
2. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Fimm kennarar hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf

Verðlaunahafar ásamt rektor Háskóla Íslands og forseta Menntavísindasviðs.  Frá vinstri: Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Ásthildur Kjartansdóttir, Hildur Hauksdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir - mynd
Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í gær.

Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is. Sögum þjóðþekktra einstaklinga var safnað á vef átaksins og í stuttum myndböndum sögðu þeir frá kennurum sem hafa haft áhrif á þá. 

Tilgangur átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið.

Viðtökurnar voru afar góðar en um 350 kennarar á öllum skólastigum voru tilnefndir af nærri 800 hundruð manns. Sérstök valnefnd skipuð sérfræðingum Menntavísindasviðs fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum. Niðurstaðan var sú að veita fimm framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu.

Eftirfarandi kennarar hlutu viðurkenningu að þessu sinni:
Ásthildur Kjartansdóttir, Breiðagerðisskóla
Hildur Hauksdóttir, Menntaskólanum á Akureyri
Nichole Leigh Mosty, Leikskólanum Ösp
Þorgerður Ingólfsdóttir, Menntaskólanum við Hamrahlíð
Örn Arnarson, Heiðarskóla – Leik- og grunnskóla Hvalfjarðarsveitar

Á myndinni eru frá vinstri: Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Ásthildur Kjartansdóttir, Hildur Hauksdóttir, Fríða Bjarney Jónsdóttir sem tók við verðlaununum fyrir hönd Nichole Leigh Mosty, Þorgerður Ingólfsdóttir, Örn Arnarson og Jóhanna Einarsdóttir, forseti Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. 
Mynd/ Kristinn Ingvarsson

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum