Hoppa yfir valmynd
24. júní 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Staða list- og verkgreina á unglingastigi grunnskóla

Heimsókn í Hofstaðaskóla - mynd
Með aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 er gert ráð fyrir að nemendur fái vitnisburð fyrir öll greinasvið við lok grunnskóla í bókstöfum

Með aðalnámskrá grunnskóla frá 2013 er gert ráð fyrir að nemendur fái vitnisburð fyrir öll greinasvið við lok grunnskóla í bókstöfum og við útskrift nú í vor 2016 var í fyrsta inn gerð krafa um slíkt. Að  undanförnu hefur farið fram mikil undirbúningsvinna á vegum ráðuneytisins, Menntamálastofnunar og skólanna sjálfra. Í tengslum við þá vinnu kom ítrekað fram að erfitt væri fyrir ýmsa grunnskóla að gefa nemendum vitnisburð í bókstöfum fyrir list- og verkgreinar þar sem ekkert formlegt nám færi fram á þeim sviðum á unglingastigi. Einungis væri um val að ræða fyrir nemendur. Einnig bárust ráðuneytinu nokkrar ábendingar um grunnskóla þar sem fyrirkomulagið við útfærslu list- og verkgreina væri með þeim hætti á unglingastigi. Loks komu óskir frá skólasamfélaginu um að grunnskólum yrði veittur frestur til að skrá vitnisburð í bókstöfum við lok grunnskóla á þeim námssviðum þar sem nemendur stunda ekki nám í 10. bekk. Ráðuneytið féllst á að veita umbeðinn frest í tvö ár en gerir ráð fyrir að frá og með vorinu 2017 muni grunnskólar gefa nemendum vitnisburð í bókstöfum fyrir öll greinasvið.

Ráðuneytið telur mikilvægt að nemendum á unglingastigi sé tryggt nám í list- og verkgreinum í samræmi við ákvæði aðalnámskrár grunnskóla frá 2011 og 2013 að teknu tilliti til viðmiðunarstundaskrár sem birt er í aðalnámskránni. Þar kemur fram að nemendur á unglingastigi eiga rétt á 340 mínútum í list- og verkgreinum vikulega, þ.e. að meðaltali rúmlega 100 mínútur vikulega í 8.-10. bekk en skólar hafa nokkurn sveigjanleika með útfærsluna. Undir listgreinar heyra samkvæmt aðalnámskránni tónmennt, sjónlistir og sviðslistir. Undir verkgreinar heyra hönnun og smíði, textílmennt og heimilisfræði. Þessi tvö svið eiga að hafa jafnt vægi innan heildartímans. Í aðalnámskránni segir einnig að út frá áhersluþáttum  í grunnskólalögum skuli vera jafnvægi milli bóklegs náms og verklegs og þess gætt að ekki halli á verklegt nám þegar skólastarf er skipulagt. Það eigi einnig við um skipulag valnámskeiða. Því er gert ráð fyrir að allt að helmingur valstunda sé bundinn list- og verktengdu námi.

Af þessu tilefni og vegna ábendinga sem hafa borist um lægra hlutfall heildarkennslustundafjölda í list- og verkgreinum í grunnskólum á unglingastigi áformar ráðuneytið að afla upplýsinga í haust frá sveitarfélögum um hvort nemendum sé tryggt skyldubundið námsframboð í grunnskólum og ef ekki hvaða áform séu um breytingar í því efni.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum