Velferðarráðuneytið

Samningur um byggingu hjúkrunarheimilis í Árborg

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar /Mynd: Magnús Hlynur - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar, undirrituðu í dag samkomulag um byggingu 50 rýma hjúkrunarheimilis í Sveitarfélaginu Árborg. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum og taka heimilið í notkun fyrir mitt ár 2019. Áform eru um byggingu fjögurra heimila til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu.

Hjúkrunarheimilið verður reist á lóð Heilbrigðisstofnunar Suðurlands við Árveg á Selfossi. Heildarkostnaður við hjúkrunarheimilið án búnaðar er áætlaður 1.365 milljarðar króna, samkvæmt frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins. Ríkissjóður og Framkvæmdasjóður aldraðra greiða 84% kostnaðarins en Árborg 16%. Kostnaður vegna kaupa á búnaði greiðist í sömu hlutföllum. Af þessum 50 rýmum eru 15 ný viðbótarrými en 35 rými leysa eldri rými af hólmi og bæta þannig aðbúnað íbúa í eldri hjúkrunarrýmum.

Skipaður verður fjögurra manna starfshópur með fulltrúum heilbrigðisráðherra og sveitarfélagsins til að vinna að áætlunargerð og fullnaðarhönnun hjúkrunarheimilisins, í samræmi við lög um skipan opinberra framkvæmda. Þegar fullnaðarhönnun liggur fyrir verður  leitað heimildar til verklegra framkvæmda hjá samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir.

Miðað er við að verklegar framkvæmd hefjist á þriðja ársfjórðungi næsta árs og að taka megi heimilið í notkun á öðrum ársfjórðungi 2019.

Nýbyggingar með ríflega 400 hjúkrunarrýmum

Heilbrigðisráðherra svaraði nýlega fyrirspurn á Alþingi þar sem spurt var hver væru áform ráðherra um að fullnægja þörf fyrir hjúkrunarrými á Íslandi. Í svari ráðherra kemur fram að áætlað sé að byggja fimm hjúkrunarheimili á næstu árum þar sem þörfin er brýnust og að þess sé vænst að þau verði tilbúin til notkunar um áramótin 2018/2019.

Auk heimilisins í Árborg eru eftirtaldar framkvæmdir áformaðar:

  • Reykjavík: Þar er ráðgert að reisa 100 rýma hjúkrunarheimili. Öll rýmin verða ný viðbótarrými.
  • Kópavogur: Þar er ráðgert að byggja 64 hjúkrunarrými. Öll rýmin verða ný viðbótarrými.
  • Seltjarnarnes: Þar verða byggð 40 hjúkrunarrými. Öll rýmin eru ný viðbótarrými.
  • Hafnarfjörður: Þar er ráðgert að byggja 60 hjúkrunarrými. Þau rými munu leysa af hólmi hjúkrunarrýmin á Sólvangi og bæta þannig aðbúnað íbúa þar.

Til viðbótar er einnig verið að byggja við hjúkrunarheimilið Kirkjuhvol á Hvolsvelli (12 rými) og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu (8 rými). Þær framkvæmdir munu bæta mjög aðbúnað þeirra sem þar búa. Nýlega voru tekin í notkun ný hjúkrunarheimili á Egilsstöðum (30 rými), Ísafirði (30 rými) og í Bolungarvík (10 rými), en með þessum 70 nýju rýmum voru 52 rými til að bæta aðbúnað íbúa og 18 ný viðbótarrými.

Með framantöldum byggingaráformum og þeim 70 rýmum sem nýlega hafa verið tekin í notkun mun hjúkrunarrýmum fjölga um 237 og aðbúnaður íbúa í 167 öðrum hjúkrunarrýmum batna mjög. Hér er því um að ræða nýbyggingar samanlagt ríflega 400 hjúkrunarrýma.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn