Hoppa yfir valmynd
12. september 2016 Forsætisráðuneytið

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra fundar með Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra Íslands og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra er í opinberri heimsókn í Danmörku. Hann fundaði í dag með Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem þeir ræddu meðal annars góð samskipti landanna, ríka sameiginlega sögu og menningararfleifð. Forsætisráðherra tók upp málefni Árnasafns, en lögð hefur verið fram skýrsla, unnin af Struensee & Co, þar sem lagðar eru fram hugmyndir um hagræðingu á hugvísindasviði Kaupmannahafnarháskóla sem m.a. fela í sér tillögu um lokun Árnasafns.

Forsætisráðherrarnir ræddu mikilvægi norræns samstarfs, ýmis alþjóðamál - meðal annars um málefni norðurslóða, orku- og loftslagsmál. Einnig ræddu þeir ákvörðun bresku þjóðarinnar um að segja sig úr Evrópusambandinu og fleira.

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, segir afar ánægjulegt að heimsækja Danmörku og fund forsætisráðherranna hafa verið mjög góðan og gagnlegan. „Varðandi Árnasafn þá fór ég yfir það að safnið er starfrækt samkvæmt samningi og hefur afar mikilvægu hlutverki að gegna, þar eru geymd tæplega 1400 handrit - þar af um 700 íslensk. Ég lýsti þeirri skoðun minni að það væri afar miður ef þessar tillögur næðu fram að ganga. Eftir fundi mína með forsætisráðherra Danmerkur og menningar- og kirkjumálaráðherra Danmerkur er ég fullviss um að þessar tillögur verði ekki að veruleika. “

Fyrr um daginn átti forsætisráðherra einkasamtal við drottningu Danmerkur. Hann heimsótti jafnframt danska þjóðþingið og fundaði með forseta þingsins. Þá heimsótti forsætisráðherra Kaupmannahafnarháskóla og skoðaði m.a. Landbúnaðarháskólann, þar sem hann stundaði nám í dýralækningum.

Á morgun, 13. september, mun forsætisráðherra heimsækja Árnasafn og Jónshús og heldur í framhaldi af því heim á leið.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum