Hoppa yfir valmynd
15. september 2016 Mennta- og barnamálaráðuneytið

List fyrir alla

List fyrir alla er nýtt barnamenningarverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem nú hefur göngu sína.

List fyrir alla er nýtt barnamenningarverkefni á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis sem hefur göngu sína nú á haustdögum.

Verkefnið á að tryggja að öll börn og ungmenni á Íslandi fái aðgang að listum í hæðsta gæðaflokki óháð búsetu og efnahag.

List fyrir alla mun leggja höfuðáherslu á menningu fyrir börn og menningu með börnum. Markmiðið er að fyrir tilstuðlan verkefnisins eigi öll grunnskólabörn á Íslandi þess kost að njóta reglulegra heimsókna listafólks.

Stefnt er að því að á þeim tíu árum sem nemendur stunda nám í grunnskóla öðlist þeir góða yfirsýn og kynnist fjölbreyttum listformum og stílum frá mismunandi tímabilum, ólíkum menningarheimum og íslenskum menningararfi.

Á þessu ári munu átta listverkefni hefja förina um landið og byrjar menningarveislan á Suðurlandi í október þegar Haukur Gröndal ásamt hljómsveit býður grunnskólanemendum á tónleikana Suður um höfin. Íslenski dansflokkurinn ásamt Óði og Flexu bjóða Vestfirðingum í afmæli í Edinborgarhúsinu og grunnskólanemendur á Patreksfirði fá boð á FUBAR dansleikhúsverk eftir Siggu Soffíu. Á Austurlandi tekur menningarmiðstöðin Skaftfell þátt í verkefninu.

Möguleikhúsið mun fara um Norður- og Vesturland með sýninguna Eldbarnið og nemendur á Norðvesturlandi og Snæfellsnesi upplifa ævintýraóperuna Baldursbrá. Að lokum ætlar listkennsludeild Listaháskólans að bjóða skólum á Suðurnesum að fræðast um nýjar aðferðir við listkennslu.

Þessum verkefnum er ætlað að styrkja vitund barna og ungmenna um listir og menningararf og auka læsi þeirra á eigin menningu. Þá er þess vænst að samtal barna og listamannanna eigi eftir að auðga bæði skóla- og listalíf landsins. Sjá nánar um verkefnið á listfyriralla.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum