Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Viljum við samfélag án kennara?

Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir opnum fundi um fyrirsjáanlega fækkun í kennarastétt og árleg ráðstefna þess Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun verður haldin í tuttugasta sinn

Viljum við samfélag án kennara? er yfirskrift opins fundar sem verður haldinn þriðjudaginn 4. október nk. kl. 12:10–13:10 í Hátíðarsal Háskóla Íslands. Í kynningu Menntavísindasviðr segir m.a.: " Ef fram fer sem horfir mun kennurum fækka í skólum landsins á næstu árum og áratugum. Nýnemum í kennaranámi við Háskóla Íslands hefur fækkað um ríflega 60% undanfarin ár. Þá hafa nýútskrifaðir kennarar ekki skilað sér sem skyldi í störf í skólum landsins og því blasir við mikill skortur á kennurum á næstu áratugum".

Árleg ráðstefna Menntavísindasviðs Háskóla Íslands Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun verður haldin í tuttugasta sinn við Háskóla Íslands þann 7. október 2016. Ráðstefnunni er ætlað að kynna og miðla því sem efst er á baugi í menntavísindum og tengdum sviðum.

Hátt í 260 erindi í 62 málstofum verða flutt á ráðstefnunni og nokkur veggspjöld sem snerta öll fræðasvið menntavísinda. Viðfangsefnin eru afar fjölbreytt og má þar nefna borgaralega þátttöku ungs fólks, heilsuhegðun, líkamsímyndir, málefni framhaldsskóla, menntun ungra barna, skóla án aðgreiningar, skólamáltíðir og margt fleira. Í ár verður lögð sérstök áhersla á heildstæðar málstofur frá rannsóknarstofum eða –hópum en einnig verða þverfræðilegar málstofur.

Mynd: Sigurður Ólafsson/ norden.org


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn